Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 263 . mál.


Ed.

478. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Salome Þorkelsdóttir, Egill Jónsson,


Guðmundur Ágústsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal,


Júlíus Sólnes, Þorvaldur Garðar Kristjánsson.



1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1988, orðast svo:
    Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., og skal þá óráðstafaður hluti persónuafsláttar annars makans bætast við persónuafslátt hins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við staðgreiðslu gjalda á árinu 1990 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1991 af tekjum ársins 1990 og eignum í lok þess árs.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli hjóna. Samkvæmt gildandi lögum er millifærsla takmörkuð við 80% af þeim hluta afsláttarins sem annar maki nýtir ekki. Af þessari takmörkun leiðir að verulegur mismunur verður í skattlagningu heimila eftir því hvernig tekna er aflað, hvort einungis annað hjóna aflar allra teknanna eða þeirra er aflað með vinnu beggja. Getur munað verulegum fjárhæðum í álögðum gjöldum. Sem dæmi má nefna að samkvæmt núgildandi álagningarreglum eru skattleysismörk hjóna eða tveggja einstaklinga sem báðir afla tekna á árinu 1989, 1.134.627 kr. en hjá hjónum, þar sem einungis annað aflar teknanna, 1.021.066 kr., eða 113.461 kr. lægri mörk í síðara dæminu. Í skattgreiðslum er munurinn 42.820 kr. þeim síðarnefndu í óhag.
    Staða og réttindi heimavinnandi fólks hafa að undanförnu verið nokkuð í brennidepli. Í því sambandi hefur verið sýnt fram á ýmiss konar mismunun gagnvart þeim fjölskyldum sem háðar eru því að annað hjónanna afli tekna en hitt sé heimavinnandi. Hlýtur það að vera andstætt þeirri fullyrðingu, sem oft heyrist í þjóðmálaumræðunnni, að fjölskyldan sé hornsteinn þjóðfélagsins og standa beri vörð um hagsmuni hennar.
    Árið 1986 var lögð fram tillaga til þingsályktunar um réttarstöðu heimavinnandi fólks. Í 4. tölul. 2. mgr. í greinargerð með þeirri tillögu segir: „Heimavinnandi fólk situr ekki við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins hvað varðar skattlagningu og lýsir það sér m.a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu ber hærri skatta en þar sem tekjur heimilisins eru afrakstur vinnu tveggja.“ Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu var Jóhanna Sigurðardóttir en hún hefur nú sem félagsmálaráðherra skipað nefnd sem ætlað er að kanna réttarstöðu heimavinnandi fólks. Þar sem hér er um víðtækt verkefni að ræða má gera ráð fyrir því að slík könnun taki nokkurn tíma. Sýnileg mismunun felst þó í núverandi ákvæðum skattalaga. Verður ekki séð að nein rök réttlæti þá mismunun. Þetta frumvarp er því hér lagt fram bæði til nauðsynlegrar leiðréttingar og eins til að gefa fjármálayfirvöldum færi á nægilegri aðlögun. Það er álit flutningsmanna að þetta réttlætismál eigi ekki að draga á langinn í afgreiðslu og raunar skylda löggjafans að sjá til þess að skattar séu lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og vissri jafnræðisreglu þannig að skattþegnum sé ekki mismunað óeðlilega.
    Bersýnileg mismunun felst í núverandi ákvæðum skattalaga að þessu leyti. Verður ekki séð að nein gild rök megi færa fyrir henni. Þau sjónarmið hafa að vísu verið reifuð í þessu sambandi að ekki megi raska þeirri skiptingu skattbyrðar sem ríkt hafi undanfarin ár og að takmörkun á millifærslu persónuafsláttar sé þáttur í þeirri viðleitni að halda ríkjandi skipun. Flutningsmenn hafa ekki séð neinn rökstuðning fyrir þessari skoðun né að leiddar hafi verið fram neinar staðreyndir sem gætu stutt hana, enda „skattbyrði“ mjög afstætt hugtak.
    Einnig hefur verið bent á að með takmörkun á millifærslu persónuafsláttar sé ríkissjóður að koma til móts við þá er e.t.v. með réttu halda því fram að heimilishald sé dýrara þegar bæði hjóna vinna úti en þegar einungis annað sinnir tekjuöflun. Þrátt fyrir það verður ekki séð að þjóðfélagsleg rök, miðað við aðstæður okkar nú, leiði til þess að leggja eigi sérstakan skatt, allt að 43.000 kr. á ári, á þau heimili þar sem annað hjóna sinnir eingöngu
heimilisstörfum. Sýna mætti fram á að sparnaður þjóðfélagsins af slíkri skipan mála á heimilum, sérstaklega á umönnunar- og uppeldissviði, sé verulegur. Refsiskattar eiga því ekkert erindi á þennan vettvang.
    Heimavinnandi fólk, sem nú eru bæði karlar og konur, starfar m.a. við umönnun ungra barna og aldraðra sem annars tækju pláss á stofnunum sem ríki og sveitarfélög reka. Sá kostur er hins vegar ekki alltaf fyrir hendi og því miður virðast of mörg börn í þjóðfélagi okkar ekki njóta viðeigandi umönnunar. Öll viðleitni til að bæta hag forráðamanna þeirra hlýtur því að teljast jákvæð og þjóðfélagslega hagkvæm.
    Þriðja mótbáran gegn því að færa skattlagningu hjóna í réttlátara horf, eins og frumvarp þetta gerir ráð fyrir, og sá sem sennilega vegur þyngst, felst í því að kostnaður ríkissjóðs af breytingunni verði of mikill. Engar tölur eru handbærar um þann kostnað. Þó hefur Þjóðhagsstofnun lauslega metið þennan kostnað á bilinu 500–700 millj. kr. Gera má ráð fyrir því að þessa fjárhæð sé ekki hægt að reikna út með óyggjandi hætti fyrr en endanleg skattaálagning liggur fyrir. En spyrja má, nú á tímum aukinna skatta á öllum sviðum, hvort ekki sé, með góðum fyrirvara, færi á örlítilli tilslökun á skattlagningarspennunni á þeim stöðum þar sem heill og hamingja fjölskyldunnar gæti verið í veði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Á 2. málsl. 2. mgr. í A-lið 68. gr. laganna, eins og hún hljóðar eftir breytingar á henni skv. b-lið 8. gr. laga nr. 97 29. desember 1988, er gerð sú breyting að í stað fyrirmæla um að allt að 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars maka bætist við persónuafslátt hins er lagt til að óráðstafaðan hluta megi millifæra án takmörkunar (þ.e. 100%). Verkar þessi breyting bæði á staðgreiðsluna og þau gjöld sem lögð eru á eftir að tekjuári lýkur.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessu ákvæði kemur hið nýja fyrirkomulag ekki til framkvæmda fyrr en á næsta tekjuári. Verður að ætla að slíkur frestur sé það ríflegur að hið opinbera geti aðlagast breyttum aðstæðum að þessu leyti.



Prentað upp.