Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 201 . mál.


Sþ.

513. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Stefáns Valgeirssonar um áfengiskaup handhafa forsetavalds og hlutverk

1. Hvaða reglur gilda nú, og hafa gilt, um kaup handhafa forsetavalds


á áfengi?



    Reglur um áfengiskaup handhafa forsetavalds eða annarra aðila á áfengi á kostnaðarverði heyra ekki undir dómsmálaráðherra. Fyrirspurn þessari er því ekki rétt að beina til dómsmálaráðherra.

2. Hvenær vissi Ríkisendurskoðun fyrst um umtalsverð áfengiskaup


handhafa forsetavalds?



    Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og því ekki rétt að beina þessari fyrirspurn til dómsmálaráðherra.

3. Hvenær fékk ríkisstjórnin fyrst skýrslu um áfengiskaup


handhafa forsetavalds?



    Dómsmálaráðherra fékk fyrst vitneskju um áfengiskaup Magnúsar Thoroddsens, forseta Hæstaréttar, sem eins af handhöfum forsetavalds síðdegis fimmtudaginn 24. nóvember 1988 og þá frá fjármálaráðherra.

4. Hver eru mörkin um áfengiskaup handhafa forsetavalds sem ástæða er til


að gera athugasemdir við eða láta það ógert?



    Fyrir liggur að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemd við áfengiskaup eins af handhöfum forsetavalds en ekki annarra. Að öðru leyti vísast til svars við 7. lið.

5. Hvað veldur því að Ríkisendurskoðun er falið vald til að fara með þann


þátt dómsmála að ákveða hvort hafa skuli uppi aðgerðir í mögulegum dómsmálum?



    Ríkisendurskoðun hefur ekki verið falið vald af því tagi sem hér er um spurt. Ríkisendurskoðun gerir hins vegar athugasemdir við eitt og annað í ríkisrekstrinum sem kunna að leiða til þess í ákveðnum tilvikum að mál eru höfðuð.

6. Eru það fleiri mál eða málaflokkar, sem heyra til dómsmálum,


sem dómsmálaráðuneytið hefur eða ætlar að fela Ríkisendurskoðun?



    Ríkisendurskoðun starfar skv. lögum nr. 12/1986 og eru verkefni hennar skilgreind þar. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki íhlutunarrétt um starfsemi Ríkisendurskoðunar.

7. Nú hefur dómsmálaráðherra veitt einum hæstaréttardómara lausn til


bráðabirgða úr starfi vegna áfengiskaupa. Upplýst hefur verið að fleiri


hafi notað þennan meinta rétt til áfengiskaupa í verulegum mæli.


Hvað verður gert í málum þeirra?



    Forseti Íslands hefur samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra veitt Magnúsi Thoroddsen lausn um stundarsakir frá embætti hæstaréttardómara. Jafnframt hefur dómsmálaráðherra falið ríkislögmanni að höfða mál á hendur Magnúsi Thoroddsen til embættismissis skv. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki eru uppi ráðagerðir um aðrar aðgerðir.

8. Eru áform uppi hjá dómsmálaráðherra að láta rannsaka þessi mál til hlítar


og gefa Alþingi skýrslu um þau?



    Nei.