Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 300 . mál.


Nd.

549. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Matthías Bjarnason.



1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi:
    Heimilt er Tryggingastofnuninni, þegar ekki verður séð hver örorka verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys, að greiða endurhæfingarlífeyri í tólf mánuði, eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í átján mánuði. Skilyrði er að sjúklingur gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir. Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og elli- eða örorkulífeyrir. Um tekjutryggingu og aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og/eða örorkulífeyri. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það er löngu viðurkennt að oft er þörf á langvarandi endurhæfingu eftir sjúkdóma og slys. Á Norðurlöndum hefur um árabil verið greiddur endurhæfingarlífeyrir þeim sem orðið hafa fyrir þungbærum sjúkdómum eða örkumlast af slysum. Reistar hafa verið sjúkrastofnanir sem beinlínis hafa það að markmiði að greina afleiðingar langvarandi sjúkdóma og slysa en einnig að endurhæfa þá sem fyrir slíkri ógæfu hafa orðið, á þann besta máta sem læknisfræðin þekkir hverju sinni. Slíkar sjúkrastofnanir eru í Finnlandi og Svíþjóð.
    Þrátt fyrir miklar framfarir á ýmsum sviðum endurhæfingar hér á landi á síðustu tveimur áratugum hefur ekki verið hugað að þessu atriði sem skyldi. Öllum er ljóst að einstaklingur, sem orðið hefur fyrir langvarandi sjúkdómi
eða örkumlast af völdum slyss, þarf bæði á andlegri og líkamlegri endurhæfingu að halda. Oft má með bestu aðferð ná allgóðri starfsorku á ný þó að sjúkdómar eða slys hafi verið mjög alvarleg. Hér þurfa ráð bestu sérfræðinga, bæði hvað varðar líkamlega endurhæfingu og ekki síður hina andlegu, að koma til. Þjóðfélaginu ber tvímælalaust skylda til að hlynna að slíkum einstaklingum.
    Öllum er og ljóst að hver sá einstaklingur, sem öðlast nokkra starfsorku, fær ekki aðeins aukna lífsfyllingu heldur er einnig um verulega fjármuni að tefla fyrir þjóðfélagið. Hér ber því allt að sama brunni, heill hins sjúka eða slasaða einstaklings og velferð þjóðfélagsins.
    Málum er einatt þannig háttað að fjölskyldumaður verður fyrir slysi eða þungbærum sjúkdómi og getur þá ekki notið þeirrar meðferðar sem nauðsynlegt er af efnahagslegum ástæðum. Fjölskyldunni þarf að sjá farborða og því ekki um annað að ræða en að hefja vinnu löngu áður en tímabært er og viðunandi árangur hefur náðst með endurhæfingu eða annarri meðferð.
    Samfara endurhæfingarlífeyri fara hinar sömu greiðslur, svo sem er um elli- og örorkulífeyri.
    Með frumvarpi þessu er reynt að bæta úr brýnni þörf þeirra einstaklinga sem orðið hafa fórnarlömb þungbærra sjúkdóma og slysa. Ætla má að um 100 einstaklingar nytu endurhæfingarlífeyris á ári þó að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um það. Hér er því um ótvíræðan þjóðhagslegan ávinning að ræða auk þeirrar lífsfyllingar sem einstaklingarnir munu öðlast við aukið vinnuþrek.