Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 303 . mál.


Ed.

557. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Júlíus Sólnes, Guðmundur Ágústsson.



1. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Virðisaukaskattur skal lagður á með tveim mismunandi skattþrepum og skulu þau ákveðin í fjárlögum ár hvert. Hið lægra virðisaukaskattsþrep, sem ekki má vera hærra en 12%, skal gilda við álagningu á matvæli og aðrar helstu nauðsynjavörur heimilanna samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Allar aðrar vörur og þjónusta, svo og annað sem er virðisaukaskattsskylt samkvæmt lögum þessum, skal bera skatt samkvæmt hærra þrepi sem eigi má vera hærra en 24%. Virðisaukaskattur rennur í ríkissjóð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Greinargerð.


    Haustið 1987 var söluskattskerfinu breytt þannig að lagður var 10% söluskattur á helstu innflutt matvæli. Um áramótin 1987/1988 var söluskattslögunum síðan breytt þannig að söluskattsstofninn var breikkaður og ýmsar undanþágur, sem höfðu verið í gildi, m.a. að matvæli væru án söluskatts, felldar niður. Með þessari breytingu var lagður 25% söluskattur á matvæli sem hækkuðu verulega í verði. Með sérstökum niðurgreiðslum á nokkrum hefðbundnum innlendum matvælum, þ.e. mjólk og mjólkurvörum, dilkakjöti og neyslufiski, var söluskattsáhrifunum eytt að fullu. Þá voru teknar upp takmarkaðar niðurgreiðslur á nauta-, kálfa- og hrossakjöti þannig að þessi matvæli hækkuðu um 10% í verði. Kjúklinga- og svínakjöt hækkaði einnig um 10% í verði með sérstökum endurgreiðslum í gegnum fóðurbætisskattkerfið. Öll önnur matvara var hins vegar látin bera söluskattshækkunina að fullu, t.d. brauð- og kornvörur og grænmeti, allar unnar kjötvörur svo og öll innflutt matvæli.
    Fáar eða engar ráðstafanir íslenskra stjórnvalda hafa mætt eins mikilli andstöðu almennings og álagning söluskatts á matvæli. Þrátt fyrir niðurgreiðslur á söluskatti vegna ofangreindra hefðbundinna matvæla hefur matarkostnaður heimilanna hækkað gífurlega. Verð matvæla á Íslandi hefur alla tíð verið mjög hátt. Þess vegna er hlutur matarinnkaupa í rekstri heimilanna mun hærri hér á landi en alls staðar annars staðar. Talið er að vísitölufjölskyldan noti um fimmtung tekna sinna til matarinnkaupa. Einkum kemur hátt verð á matvælum illa niður á lágtekjuhópunum sem nota mun hærri hlut tekna sinna til matarinnkaupa eða allt að 35% að því er talið er.
    Einhver besta kjarabót sem hægt er að veita launþegum er án efa að lækka verð á matvælum með öllum tiltækum ráðum. Verð á innlendum landbúnaðarvörum á Íslandi hlýtur alltaf að vera hátt og eiga erfitt með að standast samkeppni við erlendar landbúnaðarafurðir þar sem skilyrði til landbúnaðar eru miklu hagstæðari og stærð markaðanna margfalt meiri. Þótt hægt sé að skattleggja landbúnaðarafurðir með 22% virðisaukaskatti, t.d. í Danmörku, er ekki um sambærilegan hlut að ræða þar sem verð búvöru þar er mun lægra en á Íslandi. Íslenskar landbúnaðarafurðir þola einfaldlega ekki mikla skattlagningu enda eru með óbeinum hætti veittir miklir fjármunir til landbúnaðar á Íslandi sem skattgreiðendur verða að taka á sig. Er vart á það bætandi. Þá má ekki gleyma áhrifum hins geypiháa matvælaverðs á Íslandi á ferðamannaþjónustu og rekstur veitingahúsa. Sú þjónusta stendur nú mjög höllum fæti vegna hins háa matvælaverðs. Útlendingum sem hingað koma blöskrar verðlagið og sá vaxtarbroddur, sem ferðamannaþjónustan hefur verið síðustu árin, fölnar skjótt.
    Í flestum löndum Evrópu er matvara og aðrar helstu nauðsynjar heimilanna skattlagðar minna en aðrar vörur og þjónusta. Þannig er t.d. enginn virðisaukaskattur á matvælum í Englandi og á Írlandi. Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir virðisaukaskattsþrep í löndum Evrópubandalagsins:


Virðisaukaskattsþrep í prósentum í löndum


Evrópubandalagsins, miðað við 1. janúar 1986.



     Land                    Lægra þrep     Aðalþrep     Lúxusþrep
    Belgía ..............         6 og 17    19    25 og 33
    Bretland ............         0    15
    Danmörk .............         0    22
    V-Þýskaland .........         7    14
    Spánn ...............         6    12    33
    Frakkland ...........         5,5 og 7    18,6    33,3
    Írland ..............         0 og 10    23    
    Ítalía ..............         2 og 9    18    38
    Lúxemborg ...........         3 og 6    12
    Holland .............         5    19
    Portúgal ............         8    16    30

    Samkvæmt töflunni hafa öll ríkin nema Danmörk mun lægri skattlagningu á matvælum og helstu nauðsynjum eða mest 8% á matvæli í Portúgal. Mörg ríkjanna eru með þriðja og hæsta þrep virðisaukaskatts fyrir ýmiss konar lúxusvörur, t.d. 38% á Ítalíu.
    Með þeirri samræmingu á skattlagningu, sem stefnt er að hjá Evrópubandalaginu í aðildarríkjunum, er gert ráð fyrir því að notuð verði tvö skattþrep í virðisaukaskatti. Lægra skattþrepið verði á bilinu 4–9% og látið gilda um matvæli, orku til upphitunar og ljósa, vatn, lyf, bækur, blöð og tímarit, svo og fargjöld vegna fólksflutninga. Þetta nær yfir mikilvægustu aðföng heimilanna. Hærra skattþrepið verði á bilinu 14–20% og nær yfir allar aðrar virðisaukaskattskyldar vörur og þjónustu.
    Að sjálfsögðu er engin þörf fyrir Íslendinga að laga sig nákvæmlega að skattkerfi Evrópubandalagsríkjanna. Má m.a. benda á að Svisslendingar hafa þrisvar hafnað því með þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp virðisaukaskatt. Virðisaukaskattur hefur hins vegar verið lögleiddur á Íslandi
og er því ekki um annað að ræða en að gera hann þannig úr garði að matvælakostnaður heimilanna verði ekki sá baggi sem hann er nú. Eina leiðin til þess er að taka upp annað og mun lægra virðisaukaskattsþrep fyrir matvæli eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Um 1. gr.


    Með þessari breytingu á virðisaukaskattslögunum er gert ráð fyrir tveim skattþrepum í stað eins áður. Í gildandi lögum er virðisaukaskattur ákveðinn 22% á allar skattskyldar vörur og þjónustu. Hér er hins vegar gert ráð fyrir ákveðnu hámarki í báðum skattþrepunum, þ.e. 12% og 24%. Við gerð fjárlaga skal skatthlutfall ákveðið fyrir komandi fjárlagaár og er þá hægt að hafa það lægra ef aðstæður leyfa. Þannig getur sitjandi ríkisstjórn nýtt sér heimild til að hækka eða lækka virðisaukaskatt innan þeirra marka, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, í hagstjórnarskyni án þess að þurfa að breyta lögum hverju sinni. Með því að setja skatthlutfallið í hærra þrepinu 24% er reynt að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi sem hlýst af hinu lægra skattþrepi fyrir nauðsynjavörur.
Neðanmálsgrein: 1
    Grikkir hafa enn ekki tekið upp virðisaukaskatt.