Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 186 . mál.


Sþ.

569. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Guðna Ágústssonar um beitarþol og rannsóknaraðferðir.

    Spurt er hversu mörgu sauðfé má beita á einstaka afrétti landsins miðað við hóflega nýtingu og hvaða rannsóknaraðferðum er beitt við mat á beitarþoli.
    Í hjálagðri greinargerð frá Ingva Þorsteinssyni, deildarstjóra landnýtingardeildar RALA er gerð grein fyrir þeim aðferðum og rannsóknum sem stofnunin beitir við útreikninga á beitarþoli lands. Auk þeirra rannsókna sem þar er lýst er unnið að umfangsmiklum rannsóknum á beit á úthaga, bæði á hálendi og láglendi, í samstarfi RALA, Landgræðslunnar og Búnaðarfélags Íslands með tilstyrk landgræðsluáætlunar. Þessum tilraunum er ætlað að treysta grundvöll að ákvörðun á hæfilegu beitarálagi.
    Um fyrri lið fyrirspurnarinnar skal eftirfarandi fært fram:
    Í lögunum um landgræðslu, nr. 17/1965, með áorðnum breytingum, og í lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 42/1969, með áorðnum breytingum, er fjallað um ítölu sem aðferð til að telja í afrétti eða önnur beitilönd. Ítala hefur verið gerð á eftirtöldum afréttum:


          Sauðfé, ær
    og lömb     Dagar

    Landmannaafréttur ...................    1.722    50–60
    Afréttur Kolbeinsstaðahrepps ........    2.613    75
    Auðkúluheiði ........................    19.320    60–75
    Eyvindarstaðaheiði ..................    14.950    60–75
    Afréttarlönd Hálshrepps, S.-Þing. ...    10.800    90

    Enn fremur var gerð ítala á afrétti Ás- og Sveinsstaðahreppa, þ.e. Grímstunguheiði og nærliggjandi afréttarlönd, en henni var hrundið með dómi vegna formgalla. Óskað var eftir ítölu í Bárðdælahrepp, afrétti og heimalönd, árið 1978 en ekki var unnt að verða við þeirri ósk því að þá höfðu
heimalönd ekki verið kortlögð og tölur um reiknað beitarþol lágu ekki fyrir. Nú eru þau gögn hins vegar fyrir hendi. Landgræðslan hefur farið fram á endurskoðun ítölu á afrétti Skútustaðahrepps.
    Við gerð ítölu hefur verið stuðst við gögn frá RALA, gróðurkort, útreiknað beitarþol og ástandsmælingar, þar sem þær liggja fyrir, auk annarra gagna sem ítölunefndir afla sér. Starfsmenn RALA taka ekki þátt í ítölugerð.
    Beitarstjórn hefur ekki verið einskorðuð við ítölugerð og upplýsingar liggja fyrir um flatarmál gróðurlenda og reiknað beitarþol fyrir flesta afrétti landsins sem starfsmenn RALA hafa unnið. Núverandi ástand gróðurs og umfang jarðvegseyðingar hafa einnig verið sérstaklega könnuð á mörgum þeirra. Til viðbótar við þessar beinu rannsóknir fylgjast gróðurverndarnefndir og gróðureftirlitsmaður Landgræðslu ríkisins reglulega með ástandi afrétta, samkvæmt lögum um landgræðslu, nr. 17/1965. Í beinu framhaldi af eftirlitsstarfi sínu hafa þessir aðilar gengist fyrir styttingu beitartímans og fækkun búfjár, þar sem þess var þörf, í samráði við bændur.
    Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því að beitarþol lands er háð flóknu samspili margra þátta og hlýtur að vera breytilegt en ekki föst stærð. Ákvörðun á beitarþoli hefur verið byggð á þeim markmiðum í beitarstjórn að ná hámarksframleiðslu búfjárafurða án þess að landið gangi úr sér. Í þjóðfélaginu fer nú fram mikil umræða um nýtingu lands þar sem önnur viðhorf eru einnig tekin til viðmiðunar. Að frumkvæði landbúnaðarráðuneytisins vinna Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins að endurskoðun á markmiðssetningu um nýtingu lands. Rannsóknastofnun landbúnaðarins vinnur að stöðugri endurskoðun á þeim aðferðum sem beitt er við útreikninga á beitarþoli. Auk þessa er nú unnið sérstaklega að rannsóknum á hlut jarðvegsgerðar í uppblæstri.



Fylgiskjal.


Ingvi Þorsteinsson,
deildarstjóri landnýtingardeildar RALA:


Aðferðir við rannsóknir á beitarþoli.


(Keldnaholti, 2. janúar 1989.)



1.     Beitarþol afrétta og annarra beitilanda er ekki töluleg stærð sem ákveðin er í eitt skipti fyrir öll heldur þarf að endurskoða það með vissu árabili vegna breytinga sem á því verða vegna ytri aðstæðna, svo sem veðurfars, beitarálags og fleiri þátta. Þetta er hliðstætt þeirri ákvörðun sem reglulega er gerð á stærð fiskstofna og ástandi sjávar í því skyni að ákvarða hæfilega sókn í þá.
2.     Aðferðir við ákvörðun á beitarþoli eru breytilegar frá einu landi til annars, allt frá hreinu mati til ítarlegra rannsókna. Óháð því hvaða rannsóknaraðferð er beitt er markmið þeirra þó yfirleitt að ákvarða hve mikið gróðurmagn ákveðið landsvæði getur framleitt við ríkjandi gróðurskilyrði. Síðan eru fyrir fram gefnir nýtingarstuðlar notaðir til að ákvarða hve mikið magn af þessu gróðurmagni má fjarlægja með beit án þess að gróður rýrni og framleiðslugetan minnki.
.      Fyrir um 30 árum voru hafnar slíkar rannsóknir á vegum Búnaðardeildar atvinnudeildar Háskólans, nú Rannsóknastofnun landbúnaðarins, og var þá þegar ákveðið að fara þá leið að afla sem ítarlegastrar vitneskju um flatarmál, gróðurfar og uppskerugetu gróins lands, en þekking á þessu var þá mjög af skornum skammti.
.      Gróðurkortagerð hefur verið einn stærsti þátturinn í þessum rannsóknum, en hún byggist á því að gróður er flokkaður í gróðurfélög eftir ríkjandi tegundum plantna og síðan kortlagður í mælikvarða 1:40.000 eða 1:25.000, sem telst mjög stór mælikvarði við kortlagningu heilla landa. Þá er ógróið land einnig flokkað eftir landgerðum. Á grundvelli kortagerðarinnar er síðan reiknað út flatarmál hvers gróðurfélags og ógróins lands á því landsvæði, afrétti eða heimalandi sem verið er að kanna.
.      Í kjölfar kortagerðarinnar hafa verið gerðar víðtækar mælingar á uppskerugetu hinna ólíku gróðurfélaga víðs vegar um landið, á næringargildi beitargróðursins, plöntuvali sauðfjárins og hvernig ýmsir umhverfisþættir hafa áhrif á framleiðslugetu landsins, svo sem berggrunnur, jarðvegur og ýmsir landslagsþættir. Síðan 1974 hefur hér á landi verið unnið að víðtækum beitartilraunum til þess að ganga úr skugga um hversu mikla beit hin ólíku gróðurlendi þola án þess að rýrna. Niðurstöður þessara tilrauna eru nú óðum að koma fram, en við útreikninga RALA hefur til þessa verið stuðst við nýtingarstuðla sem notaðir hafa verið erlendis við svipuð skilyrði.
.      Meðfylgjandi skýringarmynd gefur yfirlit yfir helstu þætti beitarþolsákvörðunar.
.      Á grundvelli gróðurkortanna, uppskerumælinga og annarra framangreindra þátta er ákvarðað reiknað beitarþol viðkomandi landsvæðis. Það er skilgreint sem það beitarálag — fjöldi búfjár eða fjöldi beitardaga — sem landið er talið þola í meðalárferði við gott ástand gróðurs og jarðvegs og miðað við jafna dreifingu búfjárins um hagana. Reiknað beitarþol er þannig eins konar grunntala sem er þó aðeins einn áfangi á þeirri leið að ákvarða raunverulegt beitarþol landsins á hverjum tíma. Til að geta sagt fyrir um það þarf að taka tillit til ástands landsins, þ.e. hvort gróðurrýrnun hefur átt sér stað af völdum slæms veðurfars, ofbeitar eða öðrum orsökum, og hvort og hve mikil gróður- og jarðvegseyðing á sér stað á viðkomandi svæði. Af þessum sökum þarf að gera úttekt á ástandi beitilanda með vissu árabili og sem oftast. Þetta á ekki síst við hér á landi þar sem gróðurrýrnun hefur átt sér stað, gróður- og jarðvegseyðing er jafn mikil og hraðfara og raun ber vitni og veðurfar einatt sveiflukennt. Enn má benda á hliðstæðu við nýtingu fiskstofna sem er breytileg milli ára eins og kunnugt er.
.      Því verra sem ástand landsins er því meiri munur er á reiknuðu og raunverulegu beitarþoli þess. Ástandið getur jafnvel verið svo slæmt, t.d. þar sem eyðing lands af völdum uppblásturs er mikil og ör, að tímabundið beitarþol sé stórlega skert og sé jafnvel ekkert, þ.e. að ekki sé ráðlegt að beita á landið meðan unnið er að aðgerðum til að hefta eyðinguna. Þegar og meðan svo er, skiptir ekki meginmáli hver uppskerugeta og reiknað beitarþol er. Sem ákveðið dæmi um mun á reiknuðu og raunverulegu beitarþoli má nefna að ástandskönnun sem gerð var 1983 leiddi í ljós að raunverulegt beitarþol Auðkúluheiðar var um 50% og Eyvindarstaðaheiðar um 45% lægra en reiknað beitarþol vegna gróðurrýrnunar og uppblásturs á heiðunum.
.      Til þess að fá tölulegt mat á ástandi gróðurs þróaði RALA í samvinnu við Landgræðslu ríkisins fljótvirka og næma aðferð sem þessar stofnanir notuðu til að gera ástandsúttekt á 22 afréttarsvæðum á árunum 1983 til 1987, eins og sýnt er í meðfylgjandi töflu. Þessir afréttir eru flestir á móbergssvæðinu þar sem jarðvegur er viðkvæmastur og fokgjarnastur. Ekki hefur fjármagni verið veitt til að halda þessu verki áfram og var því ekki unnið að vettvangskönnun eða úrvinnslu gagna 1988.
.      Við ákvörðun á hæfilegri nýtingu gróðurs, svo sem við gerð ítölu, þarf að taka tillit til ýmissa annarra þátta, t.d. dreifingar búfjár um beitilandið, eins og áður var nefnt, landfræðilegra aðstæðna við nýtingu landsins o.s.frv. Þrátt fyrir allt þetta er ekki tryggt að gróðurinn verði hæfilega nýttur því að veðurfar um beitartímann verður ekki tekið inn í fyrir fram gerða útreikninga á beitarþoli. Af þeim sökum þarf að fylgjast með gróðurnýtingunni yfir sumarið og gera nauðsynlegar leiðréttingar ef þörf krefur þegar líður á beitartímann.
.      Af framansögðu má vera ljóst að ákvörðun á beitarþoli er margþætt verkefni og hefur landnýtingardeild RALA einbeitt sér að þeim þáttum sem gera kleift að ákvarða reiknað beitarþol. Eftirlit með ástandi beitilanda er lögum samkvæmt í verkahring Landgræðslu ríkisins, en RALA hefur tekið virkan þátt í þróun aðferða og úttekt á ástandi afrétta.
3.     Í meðfylgjandi töflu er listi yfir þá afrétti sem kortlagðir hafa verið af RALA og þar sem vitneskja liggur fyrir um reiknað beitarþol. Þar sést hvaða ár kortlagningu lauk eða hún var endurskoðuð, en unnið hefur verið að endurskoðun á þeim svæðum sem fyrst voru kortlögð. Taflan sýnir enn fremur á hvaða afréttum ástand hefur verið kannað, hvenær það var gert og hvar úrvinnslu gagna er lokið.
    Þess skal að lokum getið að um 1100 bújarðir víðs vegar um land hafa verið kortlagðar í mælikvarðanum 1:20.000 og 1:25.000.

Afréttir kortlagðir af RALA.




     Heiti afréttar      Kortl. lokið )     Ástand metið
    Oddsstaðaafréttur ..................     1969
    Þverárafréttur .....................     1965
    Arnarvatnsheiði ....................     1965
    Lambatungur ........................     1965
    Afréttarlönd Kolbeinsstaðahrepps ...     1980
    Sandár- og Mjóudalir ...............     1973
    Afrétt Hrútfirðinga ................     1973
    Afrétt Miðfirðinga .................     1964
    Víðidalstunguheiði .................     1967
    Grímstunguheiði ....................     1967    1984
    Víðidalsfjall — Fremrihlíð .......     1984    1984
    Sauðadalur .........................     1984    1984
    Auðkúluheiði .......................     1965 og 1980    1983
    Hálsaland ..........................     1965 og 1980    1983
    Eyvindarstaðaheiði .................     1966    1983
    Stafnsafrétt .......................     1966
    Hofsafrétt .........................     1983
    Nýjabæjarafrétt ....................     1983
    Kolbeinsdalsafrétt .................     1980
    Staðarfjöll ........................     1986
    Fjöllin ............................     1969
    Suðurafrétt Fnjóskdæla .............     1978
    Vesturafrétt Bárðdæla ..............     1969
    Austurafrétt Bárðdæla ..............     1965
    Skútustaðaafrétt ...................     1965    1987 )
    Grænavatnsafrétt ...................     1965    1987 2)
    Reykjahlíðarafrétt .................     1975    1986/1987 2)
    Afrétt Grýtubakkahrepps ............     1976
    Flateyjardalsheiði .................     1974
    Víknalönd ..........................     1984
    Þeistareykjaland, Reykjaheiði ......     1964    1984
    Vogaafrétt .........................     1974    1987 2)
    Grímsstaðaafrétt ...................     1974    1987 2)
    Afrétt Keldhverfinga ...............     1965
    Álftaversafréttur ..................     1973
    Skaftártunguafréttur ...............     1973
    Síðumannaafréttur ..................     1964
    Landmannaafréttur ..................     1963 og 1980    1986
    Holtamannaafréttur .................     1963 og 1980    1986
    Laufaleitir, afr. Rangvellinga .....     1966    1987 2)
    Grænafjall, afr. Fljótshlíðinga ....     1966    1987 2)
    Almenningar, afr. Vestur-Eyfellinga     1966    1986
    Emstrur, afr. Hvolhreppinga ........     1966    1986
    Grímsnesafréttur ...................     1969    1986
    Laugardalsafréttur .................     1969    1986
    Biskupstungnaafréttur ..............     1961    1980 og 1984
    Hrunamannaafréttur .................     1962    1987 2)
    Flóa- og Skeiðamannaafréttur .......     1964 og 1980
    Gnúpverjaafréttur ..................     1955 og 1980
    Krýsuvík, afr. Hafnfirðinga ........     1964 og 1987    1986


Repró af skýringarmynd.





     Heiti afréttar Kortl. lokið 1) Ástand metið

     Heiti afréttar Kortl. lokið 1) Ástand metið
Neðanmálsgrein: 1
    Reiknað beitarþol er til fyrir alla þessa afrétti.
Neðanmálsgrein: 2
    Í vinnslu.