Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 313 . mál.


Sþ.

574. Tillaga til þingsályktunar



um opinbera þjónustu í viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Flm.: Pálmi Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að viðskiptabankar og sparisjóðir taki að sér þjónustu við almenning fyrir opinbera sjóði og fjármálastofnanir, svo sem Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Byggðasjóð, fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna o.fl.
    Miða skal við að hin breytta tilhögun þessara mála hafi tekið gildi eigi síðar en 1. janúar 1990.

Greinargerð.


    Á síðari árum hefur opinber þjónusta vaxið hröðum skrefum í okkar þjóðfélagi. Sífellt fjölgar því fólki sem starfar að þjónustugreinum en fækkar að sama skapi þeim sem starfa að framleiðslugreinum. Samtímis þessu hefur það gerst að þjónustugreinum hefur vaxið mun örar fiskur um hrygg á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landsbyggðinni.
    Opinber þjónusta er þess eðlis að borgararnir ættu að hafa sem jafnastan rétt til að nálgast hana eða njóta þess sem hún býður upp á enda er hún greidd af almannafé. Því fer þó víðs fjarri að svo sé. Þetta er þó misjafnt eftir einstökum þjónustugreinum. Nokkrar stórar stofnanir ríkisins, sem sinna bæði þjónustu og fjárfestingu, hafa komið upp viðamiklu þjónustukerfi og útibúum um landsbyggðina sem hafa gegnt því hlutverki að jafna aðstöðu fólksins sem unnið er fyrir. Svo er t.d. um Póst og síma, Vegagerð ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins. Enn fremur hefur Tryggingastofnun ríkisins frá öndverðu haft afgreiðslu sinna mála hjá bæjarfógetum og sýslumönnum. Þetta kerfi hefur gefist vel. Aðrar opinberar fjármálastofnanir og sjóði, að undanskildum viðskiptabönkunum, er á hinn bóginn ekki að finna nema á einum stað, þ.e. í Reykjavík. Svo er því farið um fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna, Húsnæðisstofnun og þar með Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna,
Lánasjóð íslenskra námsmanna og að mestu leyti um Byggðastofnun og Byggðasjóð. Byggðastofnun hefur komið upp einu útibúi, á Akureyri.
    Sá sem þarf að fá afgreiðslu sinna mála, t.d. varðandi húsnæðislán eða námslán fyrir ungmenni sem er í námi erlendis, nær ekki þessari þjónustu nema á Laugavegi 77 í Reykjavík, hvort sem hann býr á Vopnafirði, í Ketildalahreppi eða hvar sem er annars staðar á landinu. Þetta er fornaldarfyrirkomulag í nútímaþjóðfélagi.
    Sú tillaga, sem hér er flutt, stefnir að því að fela viðskiptabönkum og sparisjóðum að annast þessa þjónustu, þ.e. afgreiðslu fyrir fjármálastofnanir og sjóði í eigu hins opinbera. Með því fyrirkomulagi mundi einkum tvennt vinnast: Þjónustan væri færð eins nálægt fólkinu og mögulegt er og þannig náð sæmilegu réttlæti. Ætla má að þessum markmiðum verði ekki náð með ódýrari hætti.
    Aðrar leiðir að þessu sama marki virðast annað tveggja óraunhæfar eða gagnslitlar. Aðalstöðvar opinberra sjóða eða fjármálastofnana verða tæplega fluttar út á landsbyggðina enda mundi jafnrétti landsmanna til opinberrar þjónustu ekki vaxa við það að slíkar stofnanir væru færðar til á landinu. Tillögur í þá átt eru óraunhæfar. Stofnun útibúa eða sérstakra afgreiðslna fyrir þessa sjóði eða stofnanir er gagnslítil ráðstöfun. Slík útibú geta aldrei orðið það mörg að jafnræði verði náð í þjónustu, auk þess sem þeirri leið fylgir óhóflegur kostnaður.
    Það er því tímabært að þeirri lausn, sem tillaga þessi fjallar um, sé hrundið í framkvæmd hið fyrsta og eigi síðar en fyrir næstu áramót.