Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 1 . mál.


Ed.

605. Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Frá fjárhags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið, einkum þó 30. gr. þess, og kallað á fund sinn Gunnar Helga Hálfdanarson frá Fjárfestingarfélagi Íslands, Pétur Blöndal frá Kaupþingi, Sigurð B. Stefánsson, Verðbréfamarkaði Iðnaðarbankans, Eirík Guðnason og Sveinbjörn Hafliðason frá Seðlabanka Íslands og Stefán Pálsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka. Tryggvi Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu aðstoðaði einnig nefndina.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem hún flytur á sérstöku þingskjali.
    Þær breytingar, sem felast í tillögum nefndarinnar, eru eftirfarandi:
    1. Í fyrri breytingartillögunni er gert ráð fyrir að 30. gr. frumvarpsins falli niður. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var í 30. gr. ákvæði um að ráðherra gæti heimilað Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum. Í meðförum fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar var 30. gr. breytt og Seðlabanki Íslands skuldbundinn til að láta sömu reglur gilda um verðbréfasjóði, eftir því sem við getur átt, og settar eru innlánsstofnunum. Nefndin hefur athugað þessa grein nánar og er sammála um að hún eigi ekki heima í þessum lögum. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna telja að ákvæði greinarinnar eigi frekar heima í lögum um Seðlabanka Íslands.
    2. Í síðari breytingartillögunni er orðalag fært til samræmis við svipað ákvæði í frumvarpi um eignarleigustarfsemi, eins og því hefur verið breytt í meðferð fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar. Fullharkalegt er að svipta verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki starfsleyfi um stundarsakir meðan lögreglurannsókn stendur yfir á meintum brotum leyfishafa á lögum þessum. Nefndin telur réttara að miða heimild ráðherra til að svipta leyfishafa starfsleyfi við dómsrannsókn.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 9. mars 1989.



Eiður Guðnason,

Valgerður Sverrisdóttir,

Halldór Blöndal,


form.

fundaskr., frsm.

með fyrirvara.



Júlíus Sólnes,

Ey. Kon. Jónsson.

Jóhann Einvarðsson.


með fyrirvara.



Ragnar Óskarsson.