Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 338 . mál.


Sþ.

612. Tillaga til þingsályktunar



um heimilisrekstrarbrautir í framhaldsskólum.

Flm.: Málmfríður Sigurðardóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,


Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipuleggja nám á heimilisrekstrarbraut í framhaldsskólum landsins.

Greinargerð.


    Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu örar og gagngerar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu varðandi fjölskyldur og heimili á síðustu áratugum. Þessar breytingar koma m.a. fram í því að nú er minna um það en áður var að börn og unglingar læri á heimilunum þau störf sem þar eru unnin, þ.e. heimilisstörf. Því er nauðsyn að skólinn komi til móts við einstaklingana í þeim tilgangi að gera þá færari um að reka eigin heimili. Undirstöðuatriði heimilisfræða eru kennd í grunnskólum og er það gott svo langt sem það nær, en frekari fræðslu er þó þörf. Einnig má benda á að í 9. bekk eru heimilisfræði aðeins valgrein, ekki skylda.
    Hússtjórnarskólarnir voru einu skólarnir þar sem var samfellt nám í hússtjórn og heimilisrekstri. Nú eru þeir flestir aflagðir. Orsakir þess verða ekki raktar hér en þörfin fyrir það nám, sem þar fór fram, er og verður ávallt fyrir hendi. Þegar húsmæðraskólarnir voru lagðir niður voru gefin fyrirheit um að námsefni þeirra yrði flutt inn í framhaldsskólana. Sú hefur þó ekki orðið raunin. Því er þessi þingsályktunartillaga flutt og jafnframt gerð tillaga að innihaldi og skipulagi námsins:

I. þrep.


1.     Matreiðsla og framreiðsla.
2.     Hreinlætisfræði (örverufræði).
3.     Næringar- og neytendafræði.
4.     Umönnun barna og aldraðra.
5.     Rafmagns- og orkunotkun.

II. þrep.


1.     Handmenntir, fatasaumur, viðgerðir og meðferð fatnaðar.
2.     Híbýlafræði (híbýli og búnaður heimilis).
3.     Hreinlæti á heimilum (þvottur og ræsting).
4.     Heimilishagfræði (bókhald, skattskil o.fl.).

III. þrep (undanfarar eru I. og II. þrep).


1.     Heimilisrekstur, framhald I. og II. þreps.
2.     Heimilishjálp (nokkrir þættir sem tengjast aðstoð við heimilisstörf).
3.     Heilsufræði.
4.     Félagsfræði.
5.     Vörukynning (í verslunum).

    Þessi upptalning á hugsanlegu námsefni er sett fram mönnum til glöggvunar á því að hverju er stefnt. Námið gæti verið þrepaskipt og hverju þrepi mætti ljúka á einni önn. Þriðja þrepið yrði framhald hinna fyrri.
    Námsefni á hverju þrepi gæti einnig nýst sem einingar í öðru námi, svo sem fóstrunámi eða matartækninámi. Að öðru leyti er námið miðað við að kenndir verði helstu þættir er lúta að heimilisrekstri, t.d. neytendafræði, manneldisfræði og heimilishagfræði, í þeim tilgangi að gera fólk færara um heimilishald.
    Þegar litið er til þess hve mikill hluti þjóðarteknanna fer um hendur þeirra sem heimilin reka er augljóst hversu mikið veltur á að þau séu rekin af hagsýni og ábyrgð. Til þess þarf kunnáttu sem fæstir geta nú um stundir tileinkað sér í heimahúsum. Því er þessi tillaga flutt.