Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 347 . mál.


Sþ.

632. Tillaga til þingsályktunar



um þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta.

Flm.: Þórhildur Þorleifsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,


Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta.

Greinargerð.


    Hér á landi búa nokkur hundruð manns annaðhvort við heyrnarleysi eða alvarlega skerta heyrn, sumir frá fæðingu, aðrir vegna sjúkdóma eða slysa. Allt þetta fólk á það sammerkt að því nýtist ekki mikilvægasta tjáningartæki allra manna — tungumálið. Þetta torveldar öll samskipti við annað fólk, hvað þá að þessi hópur fatlaðra geti nýtt sér þá fjölbreytilegu þjónustu sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Afleiðing alls þessa er mikil félags- og menningarleg einangrun.
    Nú er það svo að til eru ýmsar leiðir til úrbóta og komin eru fjölmörg hjálpartæki sem geta auðveldað heyrnarskertum að rjúfa þessa einangrun. En því miður vantar enn mikið upp á að hið opinbera hafi með skipulögðum aðgerðum og hjálp stuðlað að því að svo yrði.
    Eitt brýnasta verkefnið er að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta. Þangað gætu þeir sótt ýmsa þá aðstoð sem gerði þeim kleift að nýta betur þá þjónustu og möguleika sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Gera þeim þar með lífið auðveldara, jafnframt því sem þeir yrðu smám saman hæfari til að rjúfa einangrun sína, bæta menntun og lífskjör, sjálfum sér og þjóðfélaginu í heild til heilla.
    Við slíka þjónustumiðstöð þyrftu að starfa túlkar sem heyrnarskertir gætu leitað til sér að kostnaðarlausu. Mörg dæmi mætti taka þar sem heyrnarskertir þurfa á túlkum að halda til að geta sinnt erindum, félagslífi, námi o.s.frv. Hafa verður hugfast að heyrnarskertir utan Stór-Reykjavíkursvæðis verða líka
að eiga kost á aðstoð túlka sem þurfa þá að geta ferðast til heimabyggðar viðkomandi ef þörf krefur.
    Félagsráðgjafi yrði að starfa við þjónustumiðstöðina heyrnarskertum til aðstoðar og leiðbeiningar. Hvort um yrði að ræða einn eða fleiri verður reynslan að leiða í ljós.
    Textasímar eða tölvur eru mikilvæg hjálpartæki fyrir heyrnarskerta. Ef slík tæki væru fyrir hendi í þjónustumiðstöðinni gætu heyrnarskertir nýtt sér þá þjónustu og rekið fjölmörg þau erindi sem öðrum þegnum þjóðfélagsins þykir sjálfsagt að gera símleiðis og spara þeim þannig spor og fyrirhöfn. Auðvitað er bæði sjálfsagt og æskilegt að öllum stórum stofnunum og fyrirtækjum væri gert að hafa textasíma — eða tölvu við skiptiborð — líkt og framfylgja á reglum um aðgengi fyrir fatlaða, en þó slíkt næði fram að ganga mundi það aldrei leysa að fullu vanda heyrnarskertra varðandi samband þeirra við umheiminn.
    Að öðru leyti vísast til skýrslu nefndar félagsmálaráðherra um málefni heyrnarlausra og niðurstöðu könnunar á félagslegri stöðu heyrnarskertra.