Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 241 . mál.


Ed.

659. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Frá 3. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp þetta ber sama yfirbragð og önnur þau frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um banka- og peningamál á þessu þingi. Það horfir til fortíðarinnar og miðar að því að færa skipan bankamála langt aftur í tímann. Köld hönd miðstýringarinnar á að koma í staðinn fyrir það frjálsræði sem hér hefur verið að þróast á peningamarkaðnum og verið að leita sér að eðlilegum farvegi. Fyrsta málsgrein 1. gr. frumvarpsins felur í sér breytta skilgreiningu á lausu fé innlánsstofnana þannig að aftur verði horfið til þeirra reglna sem giltu fram til síðustu áramóta. Fyrir því má færa viss peningapólitísk rök, en á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á knýjandi nauðsyn breytingarinnar. Þyngra vegur að ríkisstjórnin þóttist bæta stöðu þeirra banka, sem þjóna útflutningsstarfsemi, með frumvarpsgreininni, og sagðist hafa það að markmiði með breytingunni. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem nefndin hefur í höndum, m.a. frá Landsbanka Íslands, liggur fyrir að breytingin yrði ekki til hagsbóta fyrir þá banka sem þjóna útflutningsgreinunum, „sé það haft að leiðarljósi verður að gera frekari breytingar“ segir í umsögn Landsbanka Íslands um frumvarpsgreinina.
    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að 75% þeirra viðurlaga, sem Seðlabankanum er heimilt að beita gagnvart innlánsstofnunum, renni í ríkissjóð. Í umsögn Landsbanka Íslands er spurt hvort líta beri á viðurlögin sem skatt og vakin athygli á að slík skattheimta byggði á ótraustum grunni og æskilegt væri að leitað yrði álits sérfróðra manna þar um. Auðvitað er Seðlabankinn hluti af ríkisvaldinu og ríkið með þessu í rauninni að skattleggja sjálft sig, sem myndrænt liti út eins og það væri að éta skottið á sjálfu sér og hygðist nærast af því.
    Breytingartillögur 1. minni hl. nefndarinnar bera glögg höfundareinkenni ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt til að Seðlabankanum sé skylt að láta sömu reglur gilda um verðbréfasjóði og bundna reikninga innlánsstofnana í Seðlabanka Íslands með kaupskyldu á öruggum verðbréfum. Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að hann telur ekki einsýnt að bindiskyldu eða samsvarandi
kvöðum beri ávallt að beita gagnvart verðbréfasjóðum eins og innlánsstofnunum, heldur verði það að vera matsatriði eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þá sé ekki vitað til að bindiskyldu sé beitt gagnvart verðbréfasjóðum erlendis, enda þótt í nokkrum löndum virðist vera fyrir hendi sá lagalegi möguleiki að grípa til hennar ef það væri talið æskilegt á einhverjum tíma. Bent er á að kaupskylda sé nú þegar í bráðabirgðalögum frá síðastliðnu vori og lagt til að ákvæðið verði í heimildarformi.
    Þá er í breytingartillögum 1. minni hl. nefndarinnar gert ráð fyrir því að Seðlabankinn geti, eftir að hann hefur hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum, bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignaleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðist við hliðstæða áhættuflokka. Um þetta sögðu fulltrúar Seðlabanka Íslands m.a. að ekki væri ljóst með hvaða hætti unnt sé að setja reglur sem um er fjallað í 3. mgr. né hvernig mætti fylgja þeim eftir svo hald sé í. Sé sett hámark á ávöxtun í verðbréfaviðskiptum jafngildir það því að sett sé lágmark á verð þessara fjármuna. Ekki er þá fjarri lagi að álykta að til samræmis þurfi að setja lágmark á verð annarra fjármuna sem ganga kaupum og sölum svo sem notaðra bifreiða o.fl. Bent var á að svona ákvæði um viðskipti með verðbréf geti leitt til niðurstöðu sem væri beinlínis í andstöðu við markmið frumvarpsins að lækka fjármagnskostnað. Áhrifin af þessu gætu orðið annars vegar þau að draga úr sparnaði í formi verðbréfakaupa sem leitt getur til hækkunar vaxta. Í stað fjárfestingar í verðbréfum mundi fólk m.a. velja fasteignir eða lausafjármuni.
    Í öðru lagi geta áhrifin orðið þau að færa verðbréfaviðskipti út á skúmaskotamarkaðinn, en síðustu ár hafa þau einmitt komist upp á yfirborðið hér á landi sem víðast annars staðar. Síðustu ár hefur verið reynt að skapa hér á landi skilyrði fyrir heilbrigðum verðbréfaviðskiptum fyrir opnum tjöldum. Umrætt ákvæði mundi eyða slíkum möguleikum og spilla t.d. fyrir starfsemi Verðbréfaþings Íslands og öðrum markaðsviðskiptum með verðbréf, þar á meðal húsbréfum og verðbréfum Atvinnutryggingarsjóðs.“
    Um þriðju breytingartillögu 1. minni hl. nefndarinnar og þau ákvæði frumvarpsins, sem hér hafa ekki verið gerð sérstaklega að umræðuefni, er það eitt að segja að þau skipta engu máli, hvorki til né frá, og gefa ekki tilefni til sérstakrar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Það er því einsýnt að fella frumvarpið í heild sinni.
    Eyjólfur Konráð Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins þar sem hann er erlendis.

Alþingi, 21. mars 1989.


Halldór Blöndal.