Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 231 . mál.


Sþ.

663. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um aukafjárveitingar 1. okt. til 31. des. 1988.

    Nokkru áður en fyrirspurn þessi barst hafði fjármálaráðherra ákveðið að leggja fram á Alþingi ítarlega skýrslu um aukafjárveitingar á því tímabili sem um ræðir í fyrirspurninni. Hafði fjármálaráðherra gert fjárveitinganefnd grein fyrir meginatriðum þeirrar skýrslu.
    Með hliðsjón af framangreindu og til þess að forðast tvíverknað þótti rétt að ljúka skýrslunni enda koma fram í henni svör við spurningum þingmannsins. Skýrslan verður lögð fram sem sérstakt þingskjal. Hins vegar þykir einnig rétt að svara spurningu þingmannsins formlega.
    Á því tímabili, sem um ræðir, voru veittar formlegar greiðsluheimildir umfram fjárlög fyrir alls 1.450.226 þús. kr. eins og fram kemur í skýrslunni þar sem greint er frá einstökum fjárveitingum og upplýsir hún þau atriði sem þingmaðurinn spyr um.
    Stærsti hluti aukafjárveitinganna, eða um 470 millj. kr., tengist þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin greip til á síðasta ári. Er þar um að ræða niðurgreiðslu á verði landbúnaðarafurða á verðstöðvunartímanum, endurgreiðslu á söluskatti í fiskeldi og loðdýrarækt, framlag vegna greiðsluerfiðleikalána húsbyggjenda og auknar niðurgreiðslur í ullariðnaði. Annar stór hluti, eða um 370 millj. kr., er vegna búvörusamninga, niðurskurðar á búfé og endurgreiðslu á jöfnunargjaldi.
    Af því sem þá er eftir eru um 230 millj. kr. vegna hallareksturs heilbrigðisstofnana á árinu 1987 og 1988 og um 170 millj. kr. vegna vanáætlana um lögbundnar uppbætur á lífeyri opinberra starfsmanna, biðlaun og skýrsluvélakostnað. Aðrar greiðsluheimildir eru vegna ýmissa verkefna. Er nánar gerð grein fyrir þeim í skýrslu þeirri sem að framan getur og er þar birt yfirlit yfir einstakar aukafjárveitingar.