Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 362 . mál.


Ed.

669. Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987.

Flm.: Salome Þorkelsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Guðmundur Ágústsson,


Skúli Alexandersson, Guðrún Agnarsdóttir.



1. gr.

    1. mgr. 71. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem situr í framsæti eða aftursæti bifreiðar, sem búið er öryggisbelti, skal nota það.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 72. gr. laganna komi ný málsgrein er orðast svo:
    Barn, tíu ára eða yngra, sem hjólar eða er reitt á reiðhjóli skal nota hlífðarhjálm.

3. gr.

    5. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skal skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Í nefndinni skulu eiga sæti fimm menn með sérfræði- og tækniþekkingu sem varðar slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðaeftirlit, löggæslu og tryggingamál. Nefndin starfar undir eftirliti Umferðarráðs.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1989.

Greinargerð.


    Á árinu 1988 tóku gildi ný umferðarlög. Í þeim voru ýmis nýmæli sem ætlað var að bæta umferðaröryggi og draga úr slysum.
    Eftir ársreynslu er ljóst að ýmsar veigamiklar breytingar, sem gerðar voru á umferðarlögunum, hafa orðið til að draga úr alvarlegum slysum.
    Þær breytingar, sem þetta frumvarp fjallar um, eru fluttar til að stuðla að enn frekari úrbótum í þeim efnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að lögbinda einnig notkun bílbelta í aftursætum bifreiða. Aukin notkun bílbelta í framsætum bifreiða er þegar farin að skila árangri í fækkun ákveðinna tegunda áverka í bílslysum. Vaxandi skilningur almennings kemur m.a. fram í könnun Hagvangs fyrir tímaritið Heilbrigðismál. Þar kemur fram að flestir þeirra, sem spurðir voru, vilja lögleiða bílbelti í aftursætum. (Sjá fylgiskjal I).

Um 2. gr.


    Lagt er til að börn séu skylduð til að nota hlífðarhjálma þegar þau hjóla eða eru reidd á reiðhjóli. Notkun slíkra hjálma hefur verið lögleidd, t.d. í Svíþjóð í mörg ár, og þykir sannað að notkun þeirra dregur úr alvarlegum höfuðáverkum vegna reiðhjólaslysa á börnum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að í stað þess að ráðherra sé heimilt samkvæmt núgildandi lögum að skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa sé alveg fortakslaust ákvæði um að slík nefnd skuli skipu ð.

Um 4. gr.


    Rétt þykir að nokkur aðlögunartími sé áður en lögin taka gildi.



Fylgiskjal I.


Flestir vilja lögleiða bílbelti í aftursætum.


(Samkvæmt könnun Hagvangs fyrir tímaritið Heilbrigðismál.)



    Í september síðastliðnum birti tímaritið Heilbrigðismál niðurstöður könnunar Hagvangs á afstöðu fólks til lögbindingar á bílbeltanotkun í aftursætum bifreiða. Af 1159 sem spurðir voru tóku 1087 afstöðu. Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) skyldunotkun bílbelta í aftursætum?
    Svörin skiptust þannig:

     Hlynnt      Andvíg
    Allir, 15–79 ára ...         88%    12%
    Karlar ..............         82%    18%
    Konur ...............         94%    6%

    15–19 ára ..........         85%    15%
    20–29 ára ..........         81%    19%
    30–39 ára ..........         94%    6%
    40–49 ára ..........         88%    12%
    50–59 ára ..........         90%    10%
    60–69 ára ..........         88%    12%
    70–79 ára ..........         95%    5%

    Höfuðborgarsvæði ....         88%    12%
    Þéttbýli úti á landi         88%    12%
    Dreifbýli ...........         89%    11%




Fylgiskjal II.


Úr Fréttabréfi landlæknisembættisins 1989:

Árangur bílbeltanotkunar.


    Aukin notkun bílbelta er þegar farin að skila árangri í minnkandi fjölda ákveðinna tegunda áverka í bílslysum. Áverkar á heila og mænu reyndust mun færri á 14 mánaða tímabili á árunum 1987 og 1988 meðal þeirra er notuðu bílbelti í framsætum en þeirra er ekki nýttu sér þann möguleika. Dregið hefur úr brotum á andlitsbeinum og hrygg og sárum á höfði.
    Þetta kemur fram í meðfylgjandi töflu yfir umferðarslys á Reykjavíkursvæðinu.

Umferðarslys á Reykjavíkursvæðinu


1. mars til 1. okt. 1987 og 1988.



                   1987 og 1988     1987 og 1988
                   Án bílbeltis     Í bílbelti
     Brot:     Höfuð, andlitsbein         16     5
         Hryggur         18     12
                   34     17
     Áverkar:     Heili/mæna         53     22
         Brjóst/kviður         15     13
                   68      45
     Sár:     Augu, andlit, munnur, nef         130     55
         Mörgum stöðum         14     3
                   144     58
     Öll brot:              160     97
     Öll sár:              276     133
     Tognun:     Háls         128     305
         Allar         198     368

    Taflan sem hér er birt var lögð fram með skýrslu um bílbeltanotkun og slys á fjórða landsþingi um slysavarnir, sem haldið var 28. október 1988. Skýrslan var lögð fram af prófessor Gunnari Þ. Jónssyni.
    Í upplýsingum skýrslunnar kemur fram að alvarlegum slysum, þ.e. heila- og mænuáverkum, hefur fækkað um sextíu prósent meðal þeirra er notuðu bílbelti í samanburði við þá er nýttu sér ekki þann möguleika. Sárum og brotum í heild hefur fækkað um tæplega helming.
    Innlögnum á sjúkrahús vegna bifreiðaslysa hefur einnig fækkað.
    Af töflunni hér að ofan má hins vegar sjá að slysatognunum hefur fjölgað verulega. Tognanir á hálsi hafa meir en tvöfaldast og tognanir í heild nær tvöfaldast. Tognunarslys eiga sér helst stað við aftanákeyrslu við of mikinn hraða.
    Á landsþinginu um slysavarnir flutti Sigrún Knútsdóttir erindi. Þar kom m.a. fram að á árunum 1973 til 1987 komu 78 einstaklingar til slysadeildar Borgarspítalans í Reykjavík með mænuskaða. Um sextíu prósent þeirra eru í dag 75% öryrkjar.
    Á tímabilinu 1978 til 1982 hafa fimmtíu manns komið á endurhæfingardeild Borgarspítalans vegna heilaskaða eftir slys. Helmingur þeirra er nú 75% öryrkjar. Helmingur þessa hóps (25 manns) voru undir þrítugu og af þeim höfðu tuttugu og einn lent í umferðarslysi.
    Þeir sem verða fyrir mænuskaða eða heilaskaða liggja að meðaltali 7–9 mánuði á sjúkrahúsi. Meðalkostnaður vegna sjúkrahússlegu þeirra er því á milli þrjár og fjórar milljónir króna.
    Við útskrift af sjúkrahúsi voru einungis fjórir einstaklingar alveg einkennalausir. Skerðing á andlegri hæfni er oft það sem háir viðkomandi einstaklingi einna mest og hindrar að hann komist aftur til fyrra lífernis og starfa.
    Umferðarslys á ungu fólki eru algengasta orsök mænu- og heilaskaða og oftast er um bílslys úti á þjóðvegum að ræða.
    Sýnt hefur verið fram á að fækka má alvarlegum heila- og mænuslysum í umferðinni um liðlega helming. Auk þess að koma í veg fyrir mikla þjáningu má því spara tugi milljóna króna.
    Af gögnum erlendis frá er ljóst að ná má enn betri árangri ef lögleidd yrði notkun bílbelta fyrir farþega í aftursætum.




Fylgiskjal III.


Eiríka Á. Friðriksdóttir og Ólafur Ólafsson:


Reiðhjólaslys í Reykjavík í maí 1981.




Repró af grein.





Prentað upp.