Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 306 . mál.


Sþ.

752. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Birnu K. Lárusdóttur um gerð brúar yfir Gilsfjörð.

    Í Gilsfirði hafa verið til athugunar tveir kostir um veglínur yfir fjörðinn til samanburðar við endurbætur vega fyrir fjörðinn.
    Þessar tvær leiðir yfir fjörðinn eru:
    Af Kaldrana yfir í Króksfjarðarnes, stytting 16–17 km.
    Af Ólafsdalseyrum í Digramúla, stytting 8 km.
    Gróft kostnaðarmat og arðsemisamanburður bentu til þess að báðar þessar leiðir gætu verið þjóðhagslega hagkvæmar. Þær frumrannsóknir, sem fara hafa fram undanfarið, hafa beinst að því að safna upplýsingum um báðar leiðirnar, með nokkurri áherslu á ytri leiðina, enda væri mest samgöngubót að henni. Var við það miðað að fyrstu úrvinnslu rannsókna væri lokið í vetur þannig að nota mætti niðurstöður til að ákveða framhaldið þegar vegáætlun verður endurskoðuð síðla vetrar.
    Rétt er að geta þess að undirbúningsrannsóknir við svo stóra og flókna mannvirkjagerð eins og í Gilsfirði eru mjög umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Eru þær jafnan unnar í áföngum og reynt í hverjum áfanga að velja úr vænlegustu kostina. Er byrjað á frumrannsóknum og yfirlitsathugunum. Undirbúningur í Gilsfirði er enn á þessu stigi. Endanleg ákvörðun um staðsetningu og tilhögun mannvirkja krefst umfangsmikilla rannsókna til viðbótar þeim sem þegar hafa farið fram. Þessar rannsóknir mundu væntanlega taka nokkur ár þó að nægilegt fjármagn væri fyrir hendi.

1.     Hefur brúarstæði yfir Gilsfjörð verið ákveðið og ef svo er, hvar mun það verða?
    Brúarstæðið á Gilsfirði hefur ekki verið ákveðið og eru báðar leiðirnar enn til athugunar.

2.     Hafa farið fram:
. a.     líffræðiathuganir á lífríki Gilsfjarðar,
    Gerðar hafa verið athuganir á lífríki Gilsfjarðar og liggur fyrir skýrsla um það: Forkönnun á lífríki Gilsfjarðar. Líffræðistofnun Háskólans. Fjölrit nr. 26. Reykjavík 1989. Í skýrslunni er fjallað um botn neðan fjöru, fjöruna og lífríki hennar og fuglaathuganir. Áður en farið yrði í framkvæmdir sem leitt gætu til verulegrar röskunar á vatnaskiptum þyrfti væntanlega að gera frekari lífríkiskannanir.

. b.     jarðvegsrannsóknir við væntanlegt brúarstæði,
    Fyrstu jarðvegsrannsóknir á svæðinu hafa farið fram.

. c.     dýptar- og bergmálsdýptarmælingar með tilliti til brúarstæðis skv. 1. lið frá Kaldrana í Króksfjarðarnes?
    Fyrstu bergmálsdýptarmælingar hafa farið fram.

3.     Hve miklu fé á að verja á árinu 1989 til rannsókna á fyr irhuguðu brúarstæði?
    Samkvæmt gildandi vegáætlun er ekki veitt fé til rannsókna í Gilsfirði á yfirstandandi ári. Við fyrirhugaða endurskoðun vegáætlunar á þessu ári þarf að taka afstöðu til fjárveitinga til frekari rannsókna. Mun Vegagerðin leggja fram tillögur í þeim efnum.

4.     Hvenær er sérstök fjárveiting fyrirhuguð til brúargerðar yfir Gilsfjörð?
    Í vegáætlun er ekki tekin afstaða til fjárveitinga til rannsókna eða framkvæmda í Gilsfirði eftir 1989.