Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 400 . mál.


Sþ.

753. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu fræðslustarfs í grunnskólum og framhaldsskólum um björgunarmál og slysavarnir.

Flm.: Óli Þ. Guðbjartsson, Alexander Stefánsson, Sighvatur Björgvinsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Auður Eiríksdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.


Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra, félagsmálaráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að skipa starfshóp er fái það verkefni að efla til muna kynningar- og fræðslustarf um björgunarmál og slysavarnir í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.
    Starfshópurinn leiti í þessum tilgangi samstarfs við hjálpar- og björgunarsveitir sem og slysavarnadeildir og hverja aðra þá aðila, sem starfa á þessum vettvangi, um að skipuleggja og efla enn betur en nú er a.m.k. árlegt kynningar- og fræðslustarf í öllum grunnskólum og framhaldsskólum á landinu.
    Kostnaður við þessa fræðslu greiðist sem hluti annars rekstrarkostnaðar skólanna.

Greinargerð.


    Framkvæmd slysavarna og björgunarmála hefur um langan aldur hvílt mjög á óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða hér á landi. Enda þótt nokkur opinber stuðningur hafi verið við ýmsa þætti þessara mála hafa sjálfboðaliðar borið hitann og þungann, ekki síst þegar mest hefur á reynt er slys eða annan vanda hefur borið að höndum.
    Þessi starfsemi hefur orðið æ margþættari á undanförnum árum, einkum vegna margháttaðra tækniframfara, t.d. á sviði fjarskipta og hvers konar annars búnaðar í þessu sambandi. Þá hefur og önnur þróun í þjóðfélaginu aukið gildi og jafnframt margbreytni þess starfs sem slysavarnadeildir og björgunarsveitir vinna víða um land. Leitarsvæði eru stundum afar stór, hvort sem er á sjó eða
landi, og ætíð er kallað til sjálfboðaliðanna án nokkurs fyrirvara.
    Það er þess vegna fátt þýðingarmeira en að þessir aðilar séu stöðugt í viðbragðsstöðu og njóti svo góðrar þjálfunaraðstöðu sem frekast er kostur. Einnig skiptir miklu máli að eðlileg og stöðug endurnýjun geti orðið á sem flestum sviðum þessa starfs, hvort sem varðar mannafla og þekkingu hans og þjálfun ellegar tækjabúnaðar og alla þróun í þeim efnum. Loks skiptir ekki litlu máli að stöðugt sé viðhaldið kynningu og áhuga almennings á gildi þessarar starfsemi og sífelldum stuðningi við hana.
    Það er skoðun flutningsmanna þeirrar tillögu til þingsályktunar, sem hér er fram borin, að efling hvers konar kynningarstarfs og skipulagðrar fræðslu í skólum landsins sé vænlegasta leiðin til áframhaldandi framfara á þessum sviðum. Í þeim tilgangi er tillaga þessi flutt.