Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 405 . mál.


Ed.

761. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29 29. apríl 1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðist svo:
    Sjóðfélagar samkvæmt lögum þessum eru:
1.     Þeir sem greiða iðgjöld í sjóðinn.
2.     Þeir sem njóta lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum, sbr. 12.–17. gr. laga þessara.
3.     Þeir sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum, en greiða ekki lengur og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum. Þeir teljast þó ekki sjóðfélagar sem fengið hafa iðgjald sitt endurgreitt að fullu eða ef það hefur verið flutt í annan lífeyrissjóð.

2. gr.

    3. gr. laganna orðist svo:
    Þeir sem uppfylla öll eftirgreind skilyrði skulu vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins, nema þeir kjósi að eiga aðild að öðrum lífeyrissjóði:
1.     Allir þeir sem skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum launum.
2.     Þeir sem taka laun á grundvelli samninga eða launaákvarðana samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða lögum nr. 92/1986, um Kjaradóm.
3.     Þeir sem eru ráðnir eða settir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda standi ráðningin eða setningin í minnst eitt ár.
4.     Um aðalstarf þeirra sé að ræða og hlutaðeigandi taki a.m.k. helming þeirra launa sem slíku starfi fylgja fyrir fullan vinnutíma.
    Ef sjóðfélagi gegnir hlutastarfi, en sinnir tímabundið hærra starfshlutfalli en fastráðning gerir ráð fyrir, skal miða iðgjaldagreiðslur við hið fastráðna starfshlutfall nema hið tímabundna hærra starfshlutfall sé fyrirfram umsamið til ekki skemmri tíma en þriggja mánaða. Í því tilviki skal fyrir þann tíma miða við hærra starfshlutfallið.
    Gegni sjóðfélagi tveimur störfum, og ráðning í hvort starfið um sig uppfyllir öll aðildarskilyrði 1. mgr., skal heimilt að greiða iðgjöld af báðum störfunum. Iðgjaldagreiðslur skulu þó samanlagt að hámarki miðaðar við 100% starfshlutfall.
    Aðild að sjóðnum geta enn fremur átt starfsmenn þeirra stofnana sem aðild hafa að sjóðnum samkvæmt eldri lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða á grundvelli sérlaga, enda fullnægi þeir skilyrðum 2. eða 3. mgr. 4. gr. laga þessara, nema hlutaðeigandi stofnun eða stjórn lífeyrissjóðsins segi upp aðild stofnunarinnar að sjóðnum. Þessi heimild takmarkast við þá sem eru í starfi hjá viðkomandi stofnun og greiða iðgjöld til sjóðsins við gildistöku laga þessara.

3. gr.

    4. gr. laganna orðist svo:
    Stjórn sjóðsins skal heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn fræðsluskrifstofa, starfsmenn sveitarfélaga og stofnana, er þeim tilheyra, starfsmenn landshlutasamtaka sveitarfélaga, starfsmenn stofnana í sameign ríkis og sveitarfélaga, sem sérstakan fjárhag hafa, starfsmenn sjúkrasamlaga, starfsmenn stéttarfélaga, sem samningsaðild eiga samkvæmt lögum nr. 94/1986, svo og bandalaga þeirra, samnorrænna stofnana, uppeldis- og heilbrigðisstofnana, sem reknar eru af sjálfstæðum styrktar- og líknarfélögum, starfsmenn Verslunarskóla Íslands, starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands, Byggðastofnunar, Framkvæmdasjóðs Íslands og Þjóðhagsstofnunar, svo og starfsmenn stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi.
    Til þess að öðlast eða eiga aðild að sjóðnum samkvæmt þessari grein skulu þessir starfsmenn uppfylla skilyrði 3. og 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga þessara. Aðild að sjóðnum takmarkast enn fremur við þá sem taka laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm eða launasamninga sveitarfélaga.
    Stjórn sjóðsins getur þó í einstökum tilvikum samþykkt önnur viðmiðunarlaun en þau sem tilgreind eru í 2. mgr. Jafnframt getur stjórnin
ákveðið hámark viðmiðunarlauna. Skal þá höfð hliðsjón af launaákvörðunum skv. 2. mgr.

4. gr.

    Í stað orðanna „Bandalag háskólamanna“ í 6. gr. laganna, komi: Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.

5. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 10. gr. orðist svo:
    Sjóðfélagar skv. 1. tölul. 2. gr. greiða 4% af launum sínum í iðgjald til sjóðsins.

6. gr.

    6. og 7. mgr. 10. gr. falli niður.

7. gr.

    1. mgr. 12. gr. a. orðist svo:
    Vaktavinnufólk, þ.e. þeir sjóðfélagar skv. 1. tölul. 2. gr. sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti, skal fá rétt til sérstaks viðbótarlífeyris (ellilífeyris, örorkulífeyris eða makalífeyris) úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda sé þeim skylt að greiða iðgjald af vaktaálagsgreiðslum til sjóðsins.

8. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 16. gr. falli niður.

9. gr.

    Úr 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. falli niður orðin: „og skylda“.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 15 7. maí 1928, um lífeyri fastra starfsmanna Búnaðarfélags Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á sl. ári ákvað stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að láta semja frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjóðinn. Markmiðið var að færa til betri vegar ýmis ákvæði laganna sem sum hver eru orðin úrelt eða erfið í framkvæmd með því að þau eru óljós og órökrétt.
    Verki þessu varð ekki að fullu lokið m.a. vegna þess að ekki náðist full samstaða um öll þau atriði sem æskilegt þótti að breyta.
    Þrátt fyrir að staðan sé enn óbreytt hvað málið í heild varðar er talin nauðsyn á að gera nú þegar breytingar á skilyrðum fyrir aðild að sjóðnum. Stafar það m.a. af því að eftir athugun lögfróðs aðila, er stjórn sjóðsins leitaði til, er talið að aðild starfsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands samrýmist ekki ákvæðum laganna. Breyti þá engu þótt þau kveði á um skylduaðild ríkisstarfsmanna og heimili aðild starfsmanna sveitarfélaga. Verður að telja eðlilegt að hið sama gildi um starfsmenn stofnana sem ríkið og sveitarfélög eiga eða reka í sameiningu.
    Þá er jafnframt lagt til að heimildir til að greiða í sjóðinn verði nokkuð þrengdar, svo sem fram kemur í athugasemdum við 2.–3. gr. frumvarpsins.
    Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að aflétt verði aðildarskyldu starfsmanna ríkisins, þannig að þeir starfsmenn, sem óska eftir að verða aðilar að öðrum sjóðum, eigi þess kost.
    Efnisatriði þessa frumvarps voru flest í þeim frumvarpsdrögum sem samin voru á síðasta ári. Þykir ekki mega dragast að aðildarskilyrðum sé komið á hreint, svo og öðrum þeim atriðum sem frumvarp þetta hefur að geyma. Aðrar nauðsynlegar breytingar þarfnast frekari úrvinnslu og verða lagðar fram þegar henni er lokið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    2. gr. laganna hefur verið óbreytt allt frá setningu laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 101/1943. Samkvæmt henni eru þeir einir sjóðfélagar sem bæði greiða iðgjöld til sjóðsins og eiga rétt á lífeyri úr honum. Utan sjóðfélagahugtaksins falla þannig þeir sem njóta lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum og þeir sem eiga geymd réttindi í sjóðnum.
    Þótt þessari grein hafi ekki verið breytt síðar hefur sjóðfélagahugtakinu í raun verið breytt í ýmsum samböndum með breytingu á öðrum greinum laganna. Þannig er t.d. ljóst skv. 13. og 14. gr., að þar er sjóðfélagahugtakið notað í víðtækari merkingu en 2. gr. laganna gerir ráð fyrir. Samsvarandi breyting hefur hins vegar ekki verið gerð á 16. gr., svo dæmi sé nefnt. Af þessu hefur hlotist ákveðið misræmi sem stefnt er að leiðréttingu á með þeirri breytingu sem hér er lögð til.
    Jafnframt er lögð til sú breyting að aflögð verði skylda til greiðslu iðgjalda til sjóðsins, sjá einnig athugasemdir með 2. gr. frumvarpsins.
    Af þessari breytingu á sjóðfélagahugtakinu leiða einnig þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði með 5., 7. og 8. gr. frumvarpsins. Athugasemdir með þessari grein og 2. gr. eiga því einnig við um þær greinar.

Um 2. gr.


    Lagt er til að sú breyting verði gerð að ekki verði um skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að ræða fyrir þá sem uppfylla skilyrði til aðildar að sjóðnum. Kjósi menn af einhverjum ástæðum að eiga aðild að öðrum sjóði, eigi þeir þess kost. Komi ekki fram sérstakar óskir um aðild að öðrum lífeyrissjóði skulu þeir sem uppfylla skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. greiða iðgjöld sín til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Jafnframt eru tekin af öll tvímæli um að þeir einir geti greitt iðgjöld til sjóðsins sem taka laun á grundvelli þeirra kjaraákvarðana sem um opinbera starfsmenn gilda. Eru það þá ýmist ríkisstarfsmenn sem eiga aðild að samningum félaga opinberra starfsmanna, eru utan félaga og fá laun ákveðin af ráðherra eða sem taka laun samkvæmt kjaradómi.
    Samkvæmt gildandi lögum geta þeir sem eru í hlutastarfi átt aðild að sjóðnum þó þannig að ekki sé um minna en hálft starf að ræða. Vafi hefur leikið á um stöðu þeirra sem eru í breytilegu starfshlutfalli sem þó fer aldrei niður fyrir hálft starf. Óvissa hefur þar ríkt um við hvað skuli miða. Dæmin eru fjölmörg. Sem dæmi má nefna kennara sem á haustönn er ráðinn í hálft starf, en tekur að sér aukna starfsskyldu á vorönn skólans. Hér er lagt til að meginreglan verði sú að eingöngu sé miðað við það starfshlutfall sem viðkomandi er fastráðinn til en heimilt sé að miða við hið aukna starfshlutfall í því tilviki að fyrirsjáanlegt er að það vari í ákveðinn lágmarkstíma. Við þær aðstæður þykir sanngjarnt að menn geti greitt til lífeyrissjóðsins af launum fyrir hið aukna starfshlutfall.
    Þá hefur einnig ríkt vafi um stöðu þeirra sem gegna tveimur störfum. Vafinn lýtur fyrst og fremst að tveimur atriðum. Annars vegar því hvernig með skuli fara er sjóðfélagi gegnir tveimur störfum sem hvort um sig er hálft starf eða meira. Hins vegar ef annaðhvort starfið eða bæði gera það ekki, en samanlagt fara þau yfir 50% starfshlutfall. Lagt er til að greitt verði úr þeim vafa með þeim hætti sem í frumvarpsgreininni segir.
    Einnig er lagt til að efnisatriðum, sem fram koma í núverandi b-lið 1. mgr. 3. gr., verði breytt nokkuð. Þannig er lagt til að heimild þessarar greinar verði takmörkuð við þá sem þegar eru orðnir sjóðfélagar vegna starfa hjá þeim stofnunum sem þetta á við um. Þessar stofnanir eru t.d.
Alþýðusamband Íslands, Brunabótafélag Íslands, Slysavarnafélag Íslands, BHM, Fríkirkjusöfnuðir, Kirkjugarðar Reykjavíkur, Landakotsskóli, Síldarútvegsnefnd og nokkrir sparisjóðir. Nýir starfsmenn allra þessara aðila munu því greiða í aðra lífeyrissjóði.
    Loks eru tekin af tvímæli um það að lífeyrissjóðurinn geti sjálfur sagt upp aðild þessara stofnana. Eðlilegt er að lífeyrissjóðurinn hafi sömu heimildir gagnvart þeim aðilum sem falla undir 3. gr. laganna og þeim sem falla undir 4. gr. laganna, ef um vanefndir eða önnur brot á skyldum, sem fylgja aðild að sjóðnum, er að ræða.
    Það leiðir af sjálfu sér að ákvæði í II. lið 3. gr. núgildandi laga verður óþarft eftir að skylduaðild að sjóðnum hefur verið afnumin. Eftir sem áður greiða ákveðnir hópar opinberra starfsmanna til annarra lífeyrissjóða sem þeir eiga skylduaðild að.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að nokkur breyting verði gerð á því hverja heimilt sé að taka í tölu sjóðfélaga þegar komið er út fyrir raðir ríkisstarfsmanna.
    Þess ber að geta að á árinu 1980 voru sett lög um skylduaðild launþega og atvinnurekenda að lífeyrissjóðum. Á því sama ári voru sett lög um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Má því segja að með vissum hætti sé ekki lengur forsenda fyrir aðild annarra að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en ríkisstarfsmanna einna. Engu að síður eru hér ekki gerðar tillögur um róttækar breytingar.
    Lagt er til að heimild til handa starfsfólki sparisjóða að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði felld niður. Sú tillaga tengist því að með frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að sú meginstefna ráði að þeir einir geti átt aðild að sjóðnum sem taka laun á grundvelli kjaraákvarðana sem gilda um opinbera starfsmenn. Starfsmenn sparisjóða taka sín laun á grundvelli samninga Sambands íslenskra bankamanna.
    Óþarft er að takmarka aðild starfsmanna stéttarfélaga við aðild félaganna að bandalögum ríkisstarfsmanna, svo sem er í núgildandi lögum. Eðlilegra þykir að starfsmenn aðildarfélaganna, hvort sem þau eru innan bandalaga eða ekki, geti átt sjóðsaðild, svo fremi félögin eigi samningsaðild.
    Þá skal nefnt að í ljós hefur komið við lögfræðilega athugun að óheimilt sé að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands eigi aðild að sjóðnum skv. 4. gr., en þessir aðilar hafa áður verið teknir í tölu sjóðfélaga. Væntanlega á þá hið sama við um starfsmenn sameignarfyrirtækja ríkis og sveitarfélaga. Rétt þykir að taka af tvímæli um þetta atriði með breytingu á þessari grein.
    Loks verður óhjákvæmilegt að telja sérstaklega upp þrjár ríkisstofnanir, þ.e. Byggðastofnun, Framkvæmdasjóð Íslands og Þjóðhagsstofnun. Starfsmenn þessara stofnana greiða nú í sjóðinn á grundvelli skylduaðilar. Þessir starfsmenn taka hins vegar laun samkvæmt kjarasamningum bankastarfsmanna og falla því ekki undir skilgreiningu 2. gr. frumvarpsins. Með því að hér er um ríkisstofnanir að ræða er ekki lagt til að nein breyting verði á stöðu starfsmanna þessara stofnana gagnvart sjóðnum.
    Í reynd er það svo að með því að aðrir lífeyrissjóðir hafa orðið til, sem starfsmenn annarra en ríkisins eiga greiðan aðgang að, hefur stjórn sjóðsins í æ ríkar mæli synjað aðilum utan ríkiskerfisins um inngöngu í sjóðinn.
    Með greininni er áréttuð sú stefna, sem fylgt hefur verið í framkvæmd, að þeim einum verði hleypt inn í sjóðinn sem launaðir eru í öllu verulegu með sama hætti og ríkisstarfsmenn. 2. mgr. þessarar greinar felur í sér samræmingu við 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um ríkisstarfsmenn. Þess ber að geta að þeir aðilar eru innbyrðis ólíkir sem rétt hafa til að greiða í sjóðinn samkvæmt þessari grein. Nauðsynlegt hefur því þótt að hafa heimildir til ákveðinnar aðlögunar. Ákvæði 3. mgr. er tilkomið í ljósi þessa.
    Með 3. mgr. er fyrst og fremst stefnt að tvennu. Í fyrsta lagi að heimila kjarasamninga bankamanna sem viðmiðunarlaun fyrir starfsmenn Byggðastofnunar, Framkvæmdasjóðs Íslands og Þjóðhagsstofnunar, en starfsmenn þessara ríkisstofnana hafa tekið laun samkvæmt þeim kjarasamningum, en ekki kjarasamningum opinberra starfsmanna. Í öðru lagi er stjórninni veitt heimild, ef nauðsyn krefur, að miða viðmiðunarlaun einstakra starfsmanna þeirra stofnana, sem eiga aðild að sjóðnum samkvæmt þessari grein, við tiltekið hámark, en þessar stofnanir hafa hingað til nánast haft sjálfdæmi um það hvaða viðmiðunarlaun það eru sem greidd eru iðgjöld af aðeins ef þau eru kölluð dagvinnulaun. Með þessu hefur skapast ákveðið misræmi þ.e. nokkrir einstaklingar, sem komnir eru inn í sjóðinn á grundvelli heimildarákvæða, geta í krafti ráðningarsamninga sinna öðlast lífeyrisrétt sem er í miklu ósamræmi við það sem almennt gerist hjá sjóðfélögum. Við það er miðað að heimild stjórnarinnar til að ákveða hámark viðmiðunarlauna verði fyrst og fremst nýtt gagnvart þeim sem gerast sjóðfélagar eftir gildistöku laga þessara. Gagnvart þeim, sem þegar eru orðnir sjóðfélagar, verði það nýtt til þess að stöðva frekara ósamræmi á milli þeirra og annarra, en þegar er orðið.

Um 4. gr.


    Samkvæmt breytingum sem orðið hafa á skipulagi Bandalags háskólamanna er Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna nú í reynd samtök flestra þeirra
stéttarfélaga háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem samningsaðild eiga við ríkið. Þessi breyting þykir sjálfsögð afleiðing þeirra skipulagsbreytinga.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að breyting verði gerð til samræmis við þá breytingu sem lagt er til að verði gerð skv. 1. gr. frumvarpsins. Með henni er verið að taka af öll tvímæli um það hvaða sjóðfélagar greiða iðgjöld til sjóðsins.

Um 6. gr.


    Ekki er ástæða til að hafa sérstakar reglur um iðgjaldagreiðslur þeirra launþega sem hér um ræðir. Þessar greinar eru úreltar. Sérreglur um iðgjaldagreiðslur héraðslækna og sóknarpresta voru settar á þeim tíma er aukatekjur höfðu áhrif á föst laun þessarra stétta. Regla 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins getur átt við um starfsmenn stjórnmálaflokka eins og aðra, sé hennar talin þörf.

Um 7. gr.


    Sömu skýringar eiga við hér og þær sem greindi um 5. gr.

Um 8. gr.


    Breyting þessi er í samræmi við breytingar skv. 1. gr. frumvarps þessa, sbr. einnig 5. og 7. gr. Sú setning, sem lagt er til að falli niður, verður óþörf þ.e. hugtakið sjóðfélagi í 16. gr. nær eftir það yfir þá einstaklinga sem fjallað er um í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr., eftir að sjóðfélagahugtaki 2. gr. laganna hefur verið breytt.

Um 9. gr.


    Breyting þessi er í samræmi við þá breytingu á 2. og 3. gr. laganna að fella niður skylduaðild að sjóðnum.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.