Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 412 . mál.


Nd.

772. Frumvarp til laga



um skógvernd og skógrækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



I. KAFLI

Tilgangur laganna, orðskýringar og yfirstjórn.

1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að því:
1.     að skóglendi verði verndað, aukið og bætt,
2.     að nýir skógar verði ræktaðir, þar sem henta þykir,
3.     að fólk verði frætt og því leiðbeint um meðferð og ræktun skóga, skjólbelta og annars trjágróðurs.

2. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     Skóglendi: Land sem að mestu eða öllu leyti er vaxið trjágróðri, náttúrulegum eða ræktuðum, skógi eða kjarri.
     Skógarjörð: Jörð eða jarðarhluti þar sem skógur er ræktaður á stærra landi en 25 ha.
     Nytjaskógur: Skógur að nánar tilteknu lágmarksflatarmáli sem ræktaður er til búdrýginda og framleiðslu skógarafurða.
     Skjólbelti: Röð eða raðir af trjám og runnum sem ræktaðar eru til þess að draga úr vindhraða á nálægum svæðum.
     Skógarlundur: Land þar sem skógur er ræktaður á 1–25 ha lands.
     Löggirðing: Girðing sem gerð er samkvæmt ákvæðum girðingarlaga.
     Skógfræðingur: Sá sem hefur lokið háskólaprófi í skógfræði frá viðurkenndri skógfræðsludeild.
     Skógtæknifræðingur: Sá sem lokið hefur námi frá viðurkenndum skógtækniskóla.
     Búfé: Nautgripir, hross, sauðfé og geitur.

3. gr.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.

II. KAFLI

Um Skógrækt ríkisins.

4. gr.

    Skógrækt ríkisins annast framkvæmd þessara laga og hefur eftirlit með því, fyrir hönd landbúnaðarráðuneytisins, að þeim sé fylgt. Aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skulu vera á Fljótsdalshéraði.
    Skógrækt ríkisins hefur umsjón með skóglendum, gróðrarstöðvum og skógarjörðum í eigu ríkisins og löndum sem það leigir samkvæmt sérstökum samningum. Skal hún hafa forustu í öllu því er lýtur að ræktun, notkun og nytjun skóga á þeim lendum og vera til ráðgjafar og eftirlits með nytjaskógum.
    Skógrækt ríkisins annast rannsóknir, kennslu og leiðbeiningar um skógvernd og skógrækt í samstarfi við aðra aðila sem með þau mál fara.

5. gr.

    Skógrækt ríkisins skal hafa þriggja manna stjórn.
    Stéttarsamband bænda, Skógræktarfélag Íslands og fastir starfsmenn Skógræktar ríkisins tilnefna hver um sig einn mann í stjórn.
    Ráðherra skipar stjórnina til fjögurra ára í senn og velur formann hennar.

6. gr.

    Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og tekur ákvarðanir um meginatriði í stefnu hennar og starfi.

7. gr.

    Forseti Íslands skipar skógræktarstjóra og skal skipun hans lengst vera til sex ára í senn. Skógræktarstjóri skal vera skógfræðingur og fer hann með daglega stjórn Skógræktar ríkisins.
    Skógræktarstjóri ræður sérmenntaða starfsmenn Skógræktar ríkisins í samræmi við skipulag stofnunarinnar. Þeir skulu vera skógfræðingar, skógtæknifræðingar eða hafa lokið háskólaprófi í öðrum greinum.
    Aðra starfsmenn ráða forstöðumenn deilda að höfðu samráði við skógræktarstjóra.

III. KAFLI

Um skógvernd og friðun.

8. gr.

    Á land það, sem Skógrækt ríkisins hefur til friðunar og skógræktar, má ekki beita búfé. Skógræktarstjóra er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu, ef sérstakar ástæður mæla með.
    Um girðingar um skóglendi og hlið á þeim fer eftir ákvæðum girðingalaga, nr. 10 25. mars 1965.
    Liggi alfaravegur um friðuð skóglendi skulu vegfarendur loka þeim hliðum, sem á girðingum um löndin eru, svo að öruggt sé að hliðin opnist ekki af sjálfsdáðum. Týni vegfarendur búfé í skógargirðingum, eru þeir skyldir til að koma því út úr girðingunni svo fljótt sem unnt er.
    Komist búfé inn í friðað skóglendi utan heimalands jarða skal það meðhöndlað samkvæmt lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Þó er ráðherra heimilt að ákveða að sveitarfélög á viðkomandi svæði taki þátt í smölun og kostnaði sem af því leiðir.

9. gr.

    Komist búfé inn á skógræktarsvæði, sem girt er löggirðingu, má umsjónarmaður svæðisins taka það í gæslu og láta merkja það. Skal hann tafarlaust tilkynna hreppstjóra/lögreglustjóra hverjir séu eigendur búfjárins og hvernig það sé merkt. Hreppstjóri/lögreglustjóri skal gera eigendum eða umsjónarmönnum boð ef búfé þeirra er tekið í gæslu og gefa þeim kost á að vitja þess innan ákveðins tíma. Sé búfjárins ekki vitjað ákveður hreppstjóri/lögreglustjóri hvar því skuli sleppt.
    Komist sama búfé aftur inn á skógræktarsvæðið, án þess að snjóalögum verði um kennt, getur umsjónarmaður svæðisins tekið það í sína vörslu og gert kröfu um að eigendur greiði kostnað af smölun, svo og uslagjald samkvæmt mati fjögurra manna er hreppstjóri/lögreglustjóri tilnefnir. Hafi eigendur búpeningsins ekki sinnt þessu innan tveggja sólarhringa getur umsjónarmaður krafist þess að fénaðurinn verði seldur á opinberu uppboði. Uppboðsandvirði, að frádregnu uslagjaldi, smölun og öðrum kostnaði, greiðir hreppstjóri/lögreglustjóri búfjáreiganda.
    Nú verða óvenjuleg snjóalög svo hætta er á að löggirðingu fenni í kaf. Getur þá umsjónarmaður girðingarinnar tilkynnt búfjáreigendum í nágrenni hennar á hvaða svæði girðingin sé ótrygg vörn og ber þá búfjáreigendum að hafa gætur á búfé sínu og halda því frá þessum svæðum, uns girðing telst
fjárheld á ný. Á sama hátt ber búfjáreigendum að gera skógareiganda eða umboðsmanni hans aðvart ef þeir verða þess varir að skógargirðing sé ótrygg vörn.
    Komist hreindýr inn á skógræktarsvæði, sem girt er löggirðingu, og valdi skemmdum á skógi, skal tjón bætt af ríkissjóði samkvæmt mati dómkvaddra manna, náist ekki samkomulag um bætur. Jafnframt getur skógarvörður í samráði við landeiganda og fulltrúa menntamálaráðuneytis krafist þess að eftirlitsmaður hreindýra í viðkomandi sveitarfélagi aflífi dýrin, ef aðrar ráðstafanir duga ekki til.

10. gr.

    Skógræktarstjóra er heimilt að banna alla beit í skóglendi utan heimalanda frá 1. nóvember til 1. júní ár hvert.
    Hagi svo til að gripahús standi í skóglendi eða við jaðra þess er eiganda þeirra eða notanda skylt að girða í hæfilegri fjarlægð frá húsunum svo að búpeningur komist ekki í skóglendið á tímabilinu 1. nóvember til 1. júní, enda taki eigandi skóglendisins þátt í kostnaði af slíkri girðingu að hálfu.

11. gr.

    Þar sem stór landsvæði, svo sem heilar sveitir eða sveitarhlutar, eru teknir til skógræktar er sveitarstjórn heimilt að setja reglur um vörsluskyldu búfjár og skiptingu kostnaðar sem af því leiðir.
    Fallist sveitarstjórn ekki á að koma á vörsluskyldu búfjár geta þeir, sem eiga hlut að skógræktinni, leitað til landbúnaðarráðherra sem er þá heimilt að mæla fyrir um vörsluskyldu búfjár á svæðinu og kostnað sem af því leiðir.

12. gr.

    Nú er yfirvofandi hætta á að skóglendi eyðist og alger friðun þess fyrir beit er nauðsynleg að mati skógræktarstjóra og ber honum þá að leita eftir samningum við eigendur um friðun og uppsetningu girðingar um svæðið. Gera skal sérstakan samning um slíka friðun lands sem m.a. kveði á um greiðslu á kostnaði við gerð og viðhald girðingar um landið.
    Alþingi heimilar fé í þessu skyni með sérstakri fjárveitingu, enda liggi fyrir Alþingi tillögur skógræktarstjóra um friðun slíkra skóglenda til fimm ára í senn, ásamt kostnaðaráætlun.

IV. KAFLI

Um meðferð skóglendis.

13. gr.

    Skylt er eiganda eða notanda skóglendis að takmarka svo notkun þess að það rýrni hvorki að stærð né gæðum. Bannað er að leggja eld í skóglendi og aldrei má brenna sinu í sveitum þar sem nytjaskógrækt er stunduð í miklum mæli eða annars staðar svo nærri skóglendi að hætta sé á að eldur geti borist þangað.
    Hlífa skal nýgræðingi trjágróðurs.

14. gr.

    Skóg má ekki höggva nema fyrir liggi samþykki Skógræktar ríkisins. Rækta skal nýjan skóg í stað hins höggna nema skógræktarstjóri samþykki annað.

15. gr.

    Gróðurverndarnefndir, samkvæmt lögum nr. 17/1965, um landgræðslu, skulu senda Skógrækt ríkisins skýrslu um ástand og meðferð skóglendis í viðkomandi sýslu þyki þeim ástæða til eða sé um hana beðið af skógræktarstjóra.

16. gr.

    Starfsmenn Skógræktar ríkisins skulu, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með því hvort farið sé eftir ákvæðum og fyrirmælum um verndun og friðun skóglendis og hvort brotið sé gegn ákvæðum laga þessara og þeim reglugerðum, sem settar kunna að verða um meðferð skóglendis samkvæmt lögum þessum. Þeir skulu, jafnskjótt og þeir verða slíks varir, gera skógræktarstjóra grein fyrir málinu.

17. gr.

    Þar sem landeyðing og skógeyðing fara saman á stórum svæðum skulu Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins hafa samvinnu um friðunaraðgerðir.

V. KAFLI

Um ræktun nytjaskóga.

18. gr.

    Í þeim héruðum landsins þar sem skógræktarskilyrði eru vænleg styrkir ríkissjóður ræktun nytjaskóga innan skógræktaráætlana sem Skógrækt ríkisins hefur gert og lögð er til grundvallar við afgreiðslu fjárlaga.

19. gr.

    Styrkur skv. 18. gr. má nema allt að 90 af hundraði stofnkostnaðar við undirbúning skógræktarlandsins og ræktun skógarins. Ráðherra ákveður í reglugerð hvaða framkvæmdir verði styrktar samkvæmt þessari grein. Jarðeigandi leggur fram sem nemur 10% af heildarstofnkostnaði.
    Þar sem eigendur samliggjandi landa koma sér saman um að girða land af og rækta á því skóg, eftir samþykktri áætlun, greiðir ríkissjóður allan stofnkostnað að frátöldum kostnaði við girðingar.
    Hlutur ríkissjóðs greiðist eftir stofnkostnaði á hvern hektara lands hverju sinni, enda liggi fyrir samningur skv. b-lið 20. gr.
    Til að efla atvinnu í dreifbýli skulu bændur sem aðstöðu hafa til, sitja fyrir með að rækta plöntur til nytjaskóga, skjólbelta og skógarlunda, sem styrks njóta.

20. gr.


    Styrk má því aðeins veita að fullnægt sé eftirtöldum skilyrðum:
a.     Að Skógrækt ríkisins hafi gert sérfræðilega athugun á skógræktarskilyrðum á svæðinu og skógræktarstjóri staðfest skógræktaráætlun fyrir þau lönd er til greina koma. Áður en skógræktarstjóri staðfestir áætlun skal afla umsagnar viðkomandi búnaðarsambands og samþykkis jarðanefndar, sveitarstjórnar og Skipulags ríkisins á ráðstöfun lands til ræktunar nytjaskóga samkvæmt skógræktaráætlun.
b.     Að fyrir liggi samningur milli Skógræktar ríkisins og viðkomandi ábúanda og/eða jarðeiganda, staðfestur af landbúnaðarráðuneyti. Í þeim samningi skal m.a. kveðið á um stærð og mörk skógræktarlandsins, framkvæmdir, skiptingu stofnkostnaðar, meðferð landsins og skyldur samningsaðila. Jafnframt skal kveðið á um hvernig með skuli fara ef landeigandi vill leysa land sitt frá skyldum, sem á því hvíla samkvæmt samningnum, svo og skyldu jarðeiganda eða ábúanda til að endurgreiða Skógrækt ríkisins 3% af brúttóandvirði afurða þegar þær falla til og rennur það fé í sérstakan sjóð í vörslu Skógræktar ríkisins til endurnýjunar sama skóglendis.
    Samningi skv. b-lið þessarar greinar skal þinglýsa sem kvöð á viðkomandi jörð áður en styrkur er greiddur.

21. gr.

    Girðingar um nytjaskóga skulu vera löggirðingar. Um meðferð nytjaskóga skal fara eftir ákvæðum III. kafla laga þessara.

22. gr.

    Óheimilt er landeiganda eða ábúanda, án samþykkis Skógræktar ríkisins, að leigja eða heimila öðrum afnot af landi sem ráðstafað hefur verið til skógræktar með samningi nema viðkomandi jörð sé leigð til ábúðar samkvæmt ábúðarlögum, nr. 64 31. maí 1976.
    Um mat á framkvæmdum sem ábúandi á leigujörð gerir vegna ræktunar nytjaskóga skal fara eftir 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976, en styrkur samkvæmt þessum kafla skal þó jafnan koma til frádráttar ásamt verðbótum.
    Nú vill landeigandi leysa land sitt undan skyldum sem á því hvíla samkvæmt samningi sem gerður er á grundvelli laga þessara, sbr. b-lið 20. gr., er honum það heimilt, enda endurgreiði hann þá öll framlög sem innt hafa verið af hendi.

23. gr.

    Við aðilaskipti að réttindum yfir landi, sem hefur verið ráðstafað til skógræktar með samningi skv. b-lið 20. gr., fyrir kaup, gjöf, skipti, nauðungarsölu á uppboði, þar með talin útlagning til veðhafa, búskipti, félags- og sameignaslit og fyrirframgreiðslu arfs skal Skógrækt ríkisins eiga forkaupsrétt að landinu eða hluta þess næst á eftir lögboðnum forkaupsréttarhöfum skv. 30. gr. jarðalaga, nr. 65 31. maí 1976. Skógrækt ríkisins öðlast þó ekki forkaupsrétt þegar jarðareigandi ráðstafar jörðinni í heild, enda taki viðkomandi jörðina til ábúðar og fullra nytja.
    Neyti Skógrækt ríkisins forkaupsréttar skal kaupverð miðað við verð á sambærilegu landi án skógræktar, að viðbættum verðmætisauka vegna skógræktarinnar, en að frádregnum styrk samkvæmt þessum kafla, ásamt verðbótum miðað við byggingarvísitölu. Náist ekki samkomulag um kaupverð er hvorum aðila um sig heimilt að óska eftir mati tveggja dómkvaddra manna og gildir það þá sem söluverð.
    Skógrækt ríkisins er heimilt, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, að selja skógræktarland, sem hún hefur eignast skv. 1. mgr., eiganda viðkomandi jarðar til ræktunar nytjaskóga.

24. gr.

    Skógrækt ríkisins sér um gerð skógræktaráætlana fyrir nytjaskóga og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.
    Nefnd þriggja manna skal stjórna framkvæmd skógræktaráætlunar skv. 20. gr. Skal nefndin skipuð fulltrúum Skógræktar ríkisins, viðkomandi bænda og sveitarstjórna á svæðinu. Fulltrúi Skógræktar ríkisins skal vera formaður nefndarinnar.

25. gr.

    Skógrækt ríkisins skal, að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið, gera tillögu til fjárveitingavaldsins um framlög til skógræktaráætlana og lætur fylgja þeim tillögum rökstudda greinargerð ásamt framkvæmdaáætlun. Alþingi skiptir því fé, sem veitt er til verkefna samkvæmt staðfestum áætlunum, skv. 20. gr.

VI. KAFLI

Um ræktun skjólbelta og skógarlunda.

26. gr.

    Skógrækt ríkisins er heimilt, umfram það sem 19. gr. ákveður, að styrkja einstaklinga og félagasamtök til skógræktar eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum, enda njóti viðkomandi ekki styrks til slíks samkvæmt öðrum lögum.
    Heimilt er að greiða styrk til ræktunar skógarlunda, skjólbelta og til friðunar og ræktunar lands undir skóg. Styrkur má nema allt að 75% kostnaðar við trjáplöntukaup og 50% kostnaðar við girðingar vegna ræktunarinnar.

27. gr.

    Styrkur greiðist aðeins á framkvæmdir á landi sem telst vel fallið til skógræktar að mati skógræktarstjóra og viðkomandi starfsmanns Skógræktar ríkisins og er minnst 3 ha innan girðingar.

28. gr.

    Skógrækt ríkisins setur reglur um vörslu og hirðu svæða sem styrks njóta samkvæmt framanskráðu og ber öllum sem hluta eiga að máli að hlíta þeim.

VII. KAFLI

Um sölu og skiptingu skógarjarða og skóglendis.

29. gr.

    Skógarjarðir má ekki selja án vitundar Skógræktar ríkisins. Skal hún hafa forkaupsrétt að skógarjörðum, að frágengnum þeim sem forkaupsrétt hafa samkvæmt jarðalögum, nr. 65/1976.

30. gr.

    Skóglendi má ekki hluta í sundur skipta upp í lóðir eða taka undir mannvirki, svo sem sumarhús, veitulagnir, vegi o.þ.h., nema með leyfi ráðherra, að fenginni umsögn skógræktarstjóra.

VIII. KAFLI


Um Skógræktarfélag Íslands.


31. gr.

    Skógræktarfélag Íslands er viðurkennt sem samband skógræktarfélaga í landinu.
    Styrkur sá, sem veittur er í fjárlögum til skógræktarfélaga, er bundinn því skilyrði að þau séu deildir í Skógræktarfélagi Íslands.
    Ráðherra úthlutar styrknum að fengnum tillögum skógræktarstjóra og formanns Skógræktarfélags Íslands.

IX. KAFLI

Um sektir, málsmeðferð o.fl.

32. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum til ríkissjóðs og fer um mál út af þeim brotum að hætti opinberra mála.

33. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

34. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 3/1955, 22/1966 og 76/1984.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. verða aðalstöðvar Skógræktar ríkisins áfram í Reykjavík enn um sinn, en flutningi þeirra á Fljótsdalshérað skal vera lokið fyrir 1. janúar 1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um skógrækt eru nr. 3 6. mars 1955. Með lögum nr. 22 16. apríl 1966 var settur viðauki við þau lög sem kvað á um skjólbeltaræktun og styrki til hennar. Með lögum nr. 76 30. maí 1984 var lögunum frá 1955 síðan breytt þannig að bætt var við nýjum kafla með ákvæðum um ræktun nytjaskóga á bújörðum.
    Markmið þessa frumvarps er einkum að fella saman framangreinda þrjá lagabálka um skógrækt og skógvernd í ein lög, auk breytinga á gildandi löggjöf sem voru orðnar mjög aðkallandi. Langt er um liðið síðan lög um skógrækt voru samþykkt og hafa breyttar aðstæður leitt af sér nokkur nýmæli og breytingar, eins og rakið er í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins. Árið 1979 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að endurskoða lög nr. 3/1955, um skógrækt. Sú nefnd vann um tíma að endurskoðun laganna en lauk ekki störfum. Síðan var endurskoðunin tekin upp að nýju og unnið að verkinu í samráði við starfsmenn Skógræktar ríkisins og stjórn Skógræktarfélags Íslands og er þetta frumvarp árangur af þeirri samvinnu.
    Frumvarp til laga um skógvernd og skógrækt var fyrst lagt fram á 108. löggjafarþingi og hverju þingi síðan, án þess að hljóta afgreiðslu. Frumvarpið, eins og það er nú lagt fram, er breytt frá því sem áður var og hefur verið unnið að breytingum af landbúnaðarráðuneytinu í samráði við Skógrækt ríkisins, Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


Tilgangur laganna, orðskýringar og yfirstjórn.


Um 1. gr.


    Greinin fjallar um tilgang laganna og er sama efnis og 1. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að Skógrækt ríkisins er ekki nefnd í texta, enda eru ákvæði um Skógrækt ríkisins í II. kafla frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Greinin er nýmæli í lögum um skógrækt og þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um II. kafla.


Um Skógrækt ríkisins.


Um 4. gr.


    Efni greinarinnar er upptalning á verkefnum Skógræktar ríkisins sem eru skilgreind betur en í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að Skógrækt ríkisins hafi með höndum rannsóknir á sviði skógræktarmála í samvinnu við aðra aðila er stunda rannsóknir í þágu atvinnuveganna og er það nýmæli frá því sem gildandi lög kveða á um. Þá er það nýmæli að lögin kveði á um að aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skuli vera á Fljótsdalshéraði og byggist það á ályktun Alþingis frá 11. maí 1988.

Um 5. gr.


    Greinin er nýmæli og byggist m.a. á ábendingum frá hagsmunasamtökum bænda um að stofnunin hafi sérstaka stjórn.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Greinin er nýmæli að því leyti, að gert er ráð fyrir að skógræktarstjóri sé skipaður tímabundið, lengst til sex ára í senn.
    Þá er gert ráð fyrir því nýmæli að við Skógrækt ríkisins starfi sérmenntaðir starfsmenn, er hafi tilskilda lágmarksmenntun, háskólapróf eða próf frá skógtækniskóla. Gert er ráð fyrir að sérmenntaðir starfsmenn Skógræktar ríkisins hafi með höndum rannsóknarverkefni og áætlanagerð, eftirlit með meðferð skóga á ákveðnum afmörkuðum svæðum landsins og eignaumsýslu fyrir Skógrækt ríkisins.

Um III. kafla.


Um skógvernd og friðun.


    Kafli þessi svarar efnislega mest til III. kafla núgildandi laga, en efnið er þó sett fram með talsvert öðrum hætti en í gildandi lögum.

Um 8. gr.


    Greinin svarar til 14. og 15. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að
skógræktarstjóri hafi einn heimild til að veita undanþágu frá banni fyrstu málsgreinar og er það breyting frá því sem nú gildir.

Um 9. gr.


    Efni greinarinnar svarar til 17. gr. gildandi laga en hér er þó um að ræða mun einfaldari ákvæði í framkvæmd en eru í núgildandi lögum. Hér er lagt til að heimilt verði að selja það búfé á uppboði, sem fer inn á girt skógræktarsvæði a.m.k. í tvígang, vitji eigandi þess ekki og greiði smölunarkostnað og uslagjald. Samkvæmt eldra ákvæði þurfti búfé að gera enn frekari usla í skógræktarsvæði áður en umsjónarmaður gat krafist uppboðssölu.
    Í 4. mgr. er nýmæli sem tilkomið er vegna knýjandi nauðsynjar á að stemma stigu við því geigvænlega tjóni sem hreindýr valda á ungskógi í skógræktargirðingum á Austurlandi. Lagt er til að ríkissjóður bæti tjón sem skapast af völdum hreindýra samkvæmt mati dómkvaddra manna.

Um 10. gr.


    Í fyrri málsgrein greinarinnar felst heimild til handa skógræktarstjóra til að banna alla beit í skóglendum utan heimalanda á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. júní ár hvert og er ákvæðið hliðstætt 8. gr., fyrsta málslið, gildandi laga. Önnur málsgrein hefur hins vegar að geyma nýmæli, sem tekur til þeirrar sérstöðu, þegar gripahús eru í eða við skóglendi og er þá eiganda eða notanda gripahússins skylt að hindra með girðingu að búfé komist í skóglendið á nefndu tímabili. Sú skylda er þó háð því skilyrði að eigandi skóglendis kosti slíka girðingu að hálfu.

Um 11. gr.


    Greinin er nýmæli í lögum um skógvernd og skógrækt og er að sumu leyti til komin eftir ábendingu frá Stéttarsambandi bænda fyrir hönd ýmissa bænda sem hyggja á nytjaskógrækt.

Um 12. gr.


    Greinin svarar efnislega til 21. gr. gildandi laga. Þó er nú gert ráð fyrir að heimild til friðunaraðgerða, vegna yfirvofandi hættu á að skóglendi eyðist verði hjá skógræktarstjóra, að fengnu samþykki ráðherra, í stað ráðherra áður, sbr. 1. mgr.
    Friðunin byggist á samningi skógræktarstjóra og landeiganda og á í slíkum samningi að kveða sérstaklega á um greiðslu á kostnaði við gerð og viðhald girðingar um landið.
    Þá er ákvæði 2. mgr. nýmæli, en þar er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri leggi fyrir Alþingi fimm ára áætlun um friðunaraðgerðir í þessu skyni.

Um IV. kafla.


Um meðferð skóglendis.


    Efni IV. kafla svarar til efnis II. kafla núgildandi laga.

Um 13. gr.


    Greinin er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Efni þessarar greinar er mun fortakslausara en svipuð ákvæði eldri laga. Skýlaust bann er við skógarhöggi án samþykkis Skógræktar ríkisins. Þá er ótvírætt skilyrði sett um að rækta skal skóg í stað þess sem höggvinn er, nema skógræktarstjóri samþykki annað, og er það nýmæli.

Um 15. gr.


    Greinin er nýmæli sem gerir ráð fyrir að gróðurverndarnefndir geti haft frumkvæði um sérfræðilegt mat á ástandi og meðferð skóglendis, jafnframt því sem skógræktarstjóri getur leitað til nefndanna og óskað eftir skýrslu til Skógræktar ríkisins um ástand skóglendis og meðferð þess.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa. Er sama efnis og 24. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að ekki er lengur gert ráð fyrir að hreppstjórar hafi eftirlit með því hvort ákvæðum laganna sé fylgt.

Um 17. gr.


    Greinin er nýmæli og gerir ráð fyrir samvinnu Landgræðslu ríkisins, sbr. lög nr. 17/1965, og Skógræktar ríkisins um friðunaraðgerðir, þegar svo háttar að saman fara landeyðing og skógeyðing á stórum svæðum.

Um V. kafla.


Um ræktun nytjaskóga.


    Efni kaflans svarar til 3. gr. laga nr. 76 30. maí 1984 um breytingu á lögum nr. 3/1955, um skógrækt, en með þeirri grein var nýjum kafla „ Um ræktun nytjaskóga á bújörðum“ bætt við lög nr. 3/1955. Þó er það nýmæli í frumvarpi
þessu að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga er ekki einungis bundið við bújarðir heldur getur það, ef skilyrðum kaflans er fullnægt, einnig nýst öðrum jörðum, jafnframt því sem lagt er til að framlag hækki úr 80% í 90% stofnkostnaðar. Þá er í 2. mgr. 19. gr. gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði allan stofnkostnað, fyrir utan kostnað við girðingar, þegar margir landeigendur koma sér saman um að rækta skóg eftir samþykktri áætlun og því fylgir friðun á landi í stórum stíl. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem styrks njóta endurgreiði Skógrækt ríkisins hluta af verðmæti afurða þegar þær falla til og skal það fjármagn, sem þannig fæst, renna í sérstakan endurnýjunarsjóð viðkomandi skóglendis sem Skógrækt ríkisins varðveitir. Þá er það enn fremur nýmæli í þessu frumvarpi að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga greiðist á hvern ha lands hverju sinni, en í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir því fyrirkomulagi. Það atriði er til þess fallið að einfalda stórlega framkvæmd laganna. Þá er nýmæli í þessum kafla að landeiganda er gert kleift að leysa land sitt undan þeim skyldum sem á það eru lagðar, vegna ræktunar nytjaskóga með því að endurgreiða það framlag, sem innt hefur verið af hendi, sbr. ákvæði 3. mgr. 22. gr.
    Að öðru leyti þarfnast einstakar greinar kaflans ekki skýringa.

Um VI. kafla.


Um ræktun skjólbelta og skógarlunda.


    Um efni þessa kafla eru ákvæði í lögum nr. 22 16. apríl 1966, um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt. Í þessum kafla er þó gert ráð fyrir talsverðum breytingum á stuðningi við skógrækt.
    Auk stuðnings samkvæmt þessum kafla er að finna ákvæði um framlög til skjólbeltaræktunar í 10. gr. jarðræktarlaga, nr. 56/1987, og reglugerð um jarðrækt, nr. 344/1985.

Um 26. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að Skógrækt ríkisins hafi með höndum styrkveitingar til einstaklinga og félagasamtaka til skógræktar og hafi til þess fé á fjárlögum. Það skilyrði er sett í greininni að viðkomandi styrkþegi njóti ekki styrks samkvæmt öðrum lögum.
    2. mgr. hefur að geyma fyrirmæli um hvaða framkvæmdir er heimilt að styrkja. Efni 2. mgr. er hliðstætt 6. gr. laga nr. 22/1966. Þó er gert ráð fyrir verulega hærri styrk til trjáplöntukaupa en samkvæmt núgildandi ákvæði.

Um 27. gr.


    Hér er gert ráð fyrir því skilyrði fyrir styrkveitingu að land það, sem ætlað er til skógræktar, sé a.m.k. 3 ha að stærð og sé auk þess vel fallið til skógræktar að mati viðkomandi starfsmanns Skógræktar ríkisins og skógræktarstjóra.

Um 28. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um VII. kafla.


Um sölu og skiptingu skógarjarða og skóglendis.


Um 29. gr.


    Í þessari grein felst það nýmæli að bannað er að selja skógarjarðir án vitundar Skógræktar ríkisins. Eigandi skógarjarðar sem hyggst selja jörð sína verður því að bjóða Skógrækt ríkisins hana til kaups með þeim hætti er greinir í 32. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, sbr. l. nr. 90/1984, næst á eftir sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem eignin er, sbr. 30. gr. jarðalaga.

Um 30. gr.


    Greinin er nýmæli og leggur bann við skiptingu skóglendis eða að það sé tekið undir mannvirki án leyfis ráðherra.

Um VIII. kafla.


Um Skógræktarfélag Íslands.


    Efni kaflans svarar til V. kafla laga nr. 3/1955, sbr. 4. gr. laga nr. 76 30. maí 1984.

Um IX. kafla.


Um sektir, málsmeðferð o.fl.


    Kaflinn skýrir sig sjálfur. Það nýmæli felst í 30. gr frumvarpsins, að gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð.