Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 415 . mál.


Nd.

775. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 80/1984, um Íslenska málnefnd.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Í Íslenskri málnefnd eiga sæti nítján menn, skipaðir af menntamálaráðherra. Auk þess er málnefndinni heimilt að bjóða einstaklingi, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns.
    Háskólaráð, heimspekideild Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans tilnefna einn mann hvert í nefndina og skipar ráðherra úr þeirra hópi formann og varaformann nefndarinnar.
    Ráðherra skipar átta nefndarmenn samkvæmt tilnefningu Örnefnanefndar, Kennaraháskóla Íslands, Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins, Staðlaráðs Íslands, Samtaka móðurmálskennara, Rithöfundasambands Íslands og Blaðamannafélags Íslands. Loks skal ráðherra skipa aðra átta menn frá öðrum stofnunum, félögum eða samtökum sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings og skal a.m.k. einn þeirra vera úr röðum íðorðafólks.
    Innan málnefndar starfar fimm manna stjórn. Í stjórninni eiga sæti þeir þrír menn sem skipaðir eru skv. 2. mgr. og tveir menn sem málnefndin kýs úr hópi nefndarmanna. Formaður og varaformaður málnefndar eru jafnframt formaður og varaformaður stjórnar.
    Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.

2. gr.

    7. gr. laganna breytist þannig:
    a. 1. mgr. orðast svo:
    Íslensk málnefnd kemur saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári og ella þegar formaður boðar til fundar eða meiri hluti málnefndarmanna óskar þess.
    b. Við bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. og orðist svo:
    Stjórn málnefndarinnar hefur forustu fyrir starfsemi nefndarinnar. Stjórnin beitir sér fyrir einstökum málræktarverkefnum og annast í umboði
nefndarinnar og í samvinnu við málstöðina afgreiðslu þeirra mála er nefndinni berast. Stjórnin heldur fundi eftir þörfum. Skylt er formanni að boða til stjórnarfundar ef stjórnarmaður eða forstöðumaður málstöðvar óskar þess.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Frá þeim degi lýkur skipunartíma þeirrar nefndar er nú situr.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 80/1984 og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Markmiðið með þessu frumvarpi er að víkka þann grundvöll sem Íslensk málnefnd starfar á og auka tengsl hennar við aðila sem tengjast starfi hennar og hlutverki eins og því er lýst í 2. gr. málnefndarlaganna, nr. 80/1984. Íslenskri málnefnd var fyrst komið á fót 1964 og er hún því 25 ára um þessar mundir. Framan af starfaði nefndin í nánum tengslum við Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans. En á 25 ára tímabili hefur nefndinni vaxið fiskur um hrygg og hafa umsvif hennar aukist stórlega. Stærsti áfanginn á þessari leið var setning laganna árið 1984 og stofnun Íslenskrar málstöðvar sem málnefndin rekur í samvinnu við Háskóla Íslands. Forstöðumaður málstöðvarinnar er jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands. Málstöðin hefur orðið málræktarstarfi í landinu mikil lyftistöng og þar fer nú fram öflug starfsemi sem lýtur einkum að vexti orðaforðans, stafsetningarmálum og alhliða málfarsráðgjöf. Málstöðin annast útgáfu ritraðar málnefndarinnar og tímarits hennar, Málfregna. Tekist hefur gott samstarf milli málstöðvarinnar og orðanefnda ýmissa sérfræðifélaga. Með stofnun málstöðvarinnar má segja að lagður hafi verið góður grundvöllur að nýyrða- og íðorðastarfi, en með íðorðastarfi er átt við starf að sérfræðilegum og starfsbundnum orðaforða sem er veigamikill þáttur í íslenskri málrækt.
    Enda þótt málstöðin sinni daglega erindum fjölda manna sem þangað leita eftir leiðbeiningum um málfarsleg efni er það án efa til bóta að tengja málræktarstarfið enn fleiri aðilum í þjóðfélaginu. Með breyttum þjóðfélagsháttum lendir máluppeldi meira en áður á skólum og fjölmiðlum og er mikilvægt að þessir aðilar tengist málræktarstarfinu þannig að sem flestir geti verið samstiga. Einnig er mikilvægt að íðorðanefndir og ýmis félög og stofnanir, sem málræktarstarfinu tengjast beint eða óbeint, komist í formlegt samband við starfsemina.
    Starfsemi málnefndarinnar er víðfeðm og er þar í mörg horn að líta, en einn mikilvægasti þáttur starfseminnar er málfarsleg ráðgjöf og stjórn ýmissa málræktarverkefna eins og lýst er allnáið í 2. gr. málnefndarlaganna frá 1984. Þess vegna er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir að innan nefndarinnar starfi sérstök stjórn sem hafi forustu fyrir starfsemi nefndarinnar. Þessi stjórn verði skipuð sérfróðum mönnum sem að hluta til eru tilnefndir af sérfræðistofnunum og að hluta kosnir úr röðum nefndarmanna. Þessi stjórn skal í umboði nefndarinnar og í samvinnu við málstöðina annast afgreiðslu mála sem nefndinni berast. Stjórn málnefndarinnar verður skipuð á svipaðan hátt og málnefndin var skipuð samkvæmt lögunum frá 1984, en það fyrirkomulag hefur gefist vel svo langt sem það nær.
    Við skipun annarra nefndarmanna skal leita til fleiri aðila og er gert ráð fyrir að málnefndin í heild móti stefnu málræktarstarfsins. Samkvæmt frumvarpi þessu á málnefndin að koma saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári en fundir geta orðið fleiri ef formaður eða meiri hluti málnefndarmanna telur ástæðu til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Meginefni frumvarpsins felst í þessari grein. Í henni er mælt fyrir um verulega fjölgun í málnefndinni, úr fimm mönnum í nítján hið minnsta, og vísast til almennra athugasemda hér á undan um ástæður fyrir þeirri breytingu.
    Samkvæmt greininni veljast eftirtaldir aðilar í nefndina:
    a. Fulltrúar þriggja háskólastofnana.
    b. Átta fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka sem samkvæmt lögum eða vegna eðlis síns hafa mikil áhrif á málfar almennings.
    c. Átta fulltrúar annarra félaga og stofnana eða samtaka sem „fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings.“
    d. Einn eða tveir einstaklingar sem nefndin sjálf getur valið til setu í henni.
    Samkvæmt 2. mgr. eru þrír menn skipaðir eftir tilnefningu háskólaráðs, heimspekideildar Háskóla Íslands og Orðabókar Háskólans og skulu varaformaður og formaður nefndarinnar vera úr hópi þessara manna. Eins og segir í 4. mgr. skulu þessir nefndarmenn, ásamt tveim öðrum sem kosnir eru úr hópi málnefndarmanna, mynda stjórn Íslenskrar málnefndar. Þessi stjórn, sem er skipuð á svipaðan hátt og málnefndin er nú samkvæmt lögunum frá 1984, verður kjarninn í starfi nefndarinnar. Henni er ætlað að sinna jafnharðan þeim málum sem vísað er til nefndarinnar og vera eins konar stjórn málstöðvarinnar, en eins og segir 1. gr. málnefndarlaganna rekur málnefndin hana í samvinnu við
Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir því að stjórnin verði skipuð sérfróðum mönnum. Þetta er eðlilegt þar sem dagleg ráðgjafarstörf Íslenskrar málnefndar um málfarsleg efni, sem nefndinni er ætlað að sinna samkvæmt lögunum, eru sérfræðilegs eðlis og geta verið álita- og deilumál og er eðlilegt að stjórnin skeri þar úr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skipun annarra málnefndarmanna. Annars vegar eru þar taldar upp átta stofnanir og félög sem skulu eiga fulltrúa í nefndinni. Þetta eru stofnanir sem annaðhvort samkvæmt lögum eða samkvæmt eðli sínu hafa mótandi áhrif á opinbert málfar og málfar almennings. Hins vegar er gert ráð fyrir að ráðherra skipi átta menn til viðbótar í nefndina sem tilnefndir eru af öðrum stofnunum, samtökum og félögum sem svipað gildir um. Það þykir þó ekki fært að binda nöfn þessara aðila í lögum og kemur þar tvennt til, annars vegar að aðstæður í málræktarstarfi geta breyst með skjótum hætti og hins vegar að sum félög og samtök, sem hér koma til álita, eru næsta óformleg svo að orkar tvímælis að binda nöfn þeirra í lög. Við tilnefningu þessara átta nefndarmanna er ráðherra þó bundinn við það ákvæði greinarinnar að stofnanirnar, félögin og samtökin fáist við málræktarstörf eða hafi mikil áhrif á málfar almennings. Hér má nefna orðanefndir einstakra félaga, aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar en Ríkisútvarpið, Fóstrufélag Íslands, bókaútgefendur, leikhús önnur en Þjóðleikhúsið, samtök leikara, Hagþenki (félag höfunda fræðirita), samtök auglýsenda, Námsgagnastofnun og Íslenska málfræðifélagið. Fleira mætti nefna en þessi upptalning ætti að gefa skýra bendingu um hvers konar fulltrúa æskilegt þykir að fá til starfa í nefndinni. Til viðbótar þeim nítján mönnum, sem skipaðir eru á þann hátt sem hér hefur verið lýst, er nefndinni heimilt skv. 1. mgr. að kveðja til einn eða tvo einstaklinga, sem hún telur gagnlegt að fá til samstarfs, t.d. sakir sérstaks áhuga á málrækt eða lærdóms.

Um 2. gr.


    Nauðsynlegt er að breyta 7. gr. því að nefndinni er ekki ætlað eftir að hún hefur verið stækkuð að halda jafntíða fundi og málnefndin hefur haft fram að þessu. Í greininni er kveðið á um að fundir skuli eigi vera færri en einn á ári. Hins vegar er stjórninni skylt að halda fundi þegar tilefni eru til slíks. Almennir málnefndarfundir ættu því frekar að vera vettvangur fyrir stefnumörkun og mikilsverðar ákvarðanir í málræktarstarfi en stjórnin sinnti fremur þeim verkefnum sem afgreiða þarf án langrar tafar eða eru sérfræðilegs eðlis. Er lagt til að við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein með sérstökum
ákvæðum um hlutverk og störf stjórnarinnar.

Um 3. gr.


    Þeim breytingum, sem ráðgerðar eru með frumvarpi þessu, er ætlað að taka gildi um næstu áramót. Nauðsynlegt er að gefa nokkurn umþóttunartíma, m.a. til að endurskoða reglugerð um Íslenska málnefnd og starfsemi Íslenskrar málstöðvar og velja fulltrúa til setu í nefndinni. Um næstu áramót ætti ný málnefnd að geta tekið til starfa og þá jafnframt leyst hina gömlu af hólmi.