Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 418 . mál.


Nd.

778. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Á eftir orðinu „sjávarútvegsráðuneyti“ í 1. mgr. 4. gr. bætist umhverfisráðuneyti.

2. gr.

    7. gr. orðist svo:
    Ráðherra kveður á um skiptingu ráðuneytis í skrifstofur og starfsdeildir eftir verkefnum.

3. gr.

    11. gr. orðist svo:
    Heimilt er að skipa skrifstofustjóra eða deildarstjóra ráðuneytis aðstoðarráðuneytisstjóra þess ráðuneytis.
    Aðstoðarráðuneytisstjóri tekur við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans.
    Skrifstofu ráðuneytis stýrir skrifstofustjóri og starfsdeild deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra.
    Nú er starfsmaður ráðuneytis skipaður skrifstofustjóri eða deildarstjóri þess ráðuneytis og þarf þá eigi að gæta ákvæða 5. gr. laga nr. 38/1954.
    Ráðherra setur aðstoðarráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra erindisbréf, þar sem meðal annars skal kveðið á um starfssvið þeirra og starfsskyldur.

4. gr.

    12. gr. orðist svo:
    Auk ráðuneytisstjóra, aðstoðarráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra eru starfsmenn ráðuneyta fulltúar, bókarar og ritarar eftir ákvörðun ráðherra.

5. gr.

    13. gr. orðist svo:
    Forseti Íslands veitir embætti ráðuneytisstjóra og aðstoðarráðuneytisstjóra til sex ára í senn.
    Ráðherra skipar aðra starfsmenn ráðuneytis til sama tíma.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1989.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um umhverfismál er gerir ráð fyrir að stofnað verið sérstakt umhverfisráðuneyti. Í upptalningu á ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands í 4. gr. laga nr. 73/1969 er því nauðsynlegt að bæta umhverfisráðuneyti við.
    Nokkrar aðrar minni háttar breytingar eru einnig gerðar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Er í fyrsta lagi tekið upp ákvæði í frumvarpið um skiptingu ráðuneytis í skrifstofur og starfsdeildir í stað starfsdeilda eingöngu áður. Í öðru lagi er gert ráð fyrir heimild til að skipa aðstoðarráðuneytisstjóra úr hópi skrifstofu- eða deildarstjóra ráðuneytis. Gegnir aðstoðarráðuneytisstjóri störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans. Í þriðja lagi er fellt niður að forseti Íslands veiti embætti skrifstofustjóra og deildarstjóra, en veiti hins vegar embætti aðstoðarráðuneytisstjóra auk embættis ráðuneytissstjóra. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að veiting og skipun starfa sé aðeins til sex ára í senn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í upptalningu á ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands er umhverfisráðuneyti bætt við.

Um 2. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir skiptingu ráðuneytis í skrifstofur og starfsdeildir í stað skiptingu áður í starfsdeildir eingöngu. Eru þegar dæmi þess í einstökum ráðuneytum að sérstakar skrifstofur starfi þar undir stjórn skrifstofustjóra.

Um 3. gr.


    Í fyrstu málsgrein er tekin upp heimild til skipunar sérstaks aðstoðarráðuneytisstjóra úr hópi skrifstofustjóra eða deildarstjóra ráðuneytis er tekur sjálfkrafa við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans. Fellt er niður að skrifstofustjóri taki við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans, enda eru þeir í sumum ráðuneytum fleiri en einn. Er ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi neina fjölgun starfsmanna í för með sér.
    Önnur málsgrein tekur af allan vafa um hver gengur næstur ráðuneytisstjóra.
    Þriðja málsgrein er efnislega samhljóða núgildandi 1. mgr. 11. gr. að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að skrifstofu ráðuneytis stýri skrifstofustjóri.
    Fjórða málsgrein er samhljóða núgildandi 3. mgr.
    Í fimmtu málsgrein er bætt við heitinu aðstoðarráðuneytisstjóri í núgildandi 4. mgr.

Um 4. gr.


    Í núgildandi 12. gr. er bætt heiti aðstoðarráðuneytisstjóra.

Um 5. gr.


    Í 13. gr. er fellt brott að forseti Íslands veiti embætti skrifstofustjóra og deildarstjóra. Forseti Íslands veitir hins vegar embætti ráðuneytisstjóra eins og verið hefur og embætti aðstoðarráðuneytisstjóra. Nýmæli er að veiting starfa og skipun er nú tímabundin til sex ára í senn.

Um 6. gr.


    Gildistaka er sama og í frumvarpi til laga um umhverfismál.