Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 423 . mál.


Sþ.

783. Tillaga til þingsályktunar



um viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada.

Flm.: Óli Þ. Guðbjartsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Benedikt Bogason.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd er fái það hlutverk að kanna möguleika á að efla viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada.
    Nefndin skili áfangaskýrslu um störf sín fyrir árslok 1989.

Greinargerð.


    Samskipti við byggðir Vestur-Íslendinga hafa án efa verið nokkur allt frá þeim tíma að fjöldi fólks fluttist vestur um haf á seinni hluta síðustu aldar. Trúlega hafa þó samskiptin verið strjál vegna fjarlægðar og erfiðra samgangna en hafa þó einkum orðið vegna fjölskyldutengsla.
    Það er fyrst á seinustu áratugum sem efnt er til fjölmennra ferða Vestur-Íslendinga hingað til lands og jafnframt því að héðan er farið í heimsóknir vestur af ýmsu tagi, bændaferðir, kórar í söngferðalög og annað í þeim dúr.
    Flestir forsetar lýðveldisins munu hafa sótt byggðir Vestur-Íslendinga heim einhvern tíma á ferli sínum.
    Lítið mun hins vegar hafa verið um skipulagðar heimsóknir skólafólks eða vinabæjatengsl eins og tíðkast á milli Norðurlandanna. Sáralítið mun hafa verið um tilraunir til viðskiptasambanda á milli þessara aðila. Væri þó út af fyrir sig forvitnilegt að kanna það sérstaklega hvort finna mætti þar einhverja leið sem jafnframt gæti orðið til að efla þessi samskipti til muna frá því sem nú er. Í þeim tilgangi sérstaklega er tillaga þessi til þingsályktunar flutt.