Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 428 . mál.


Nd.

788. Frumvarp til laga



um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Við Fiskveiðasjóð Íslands skal starfa sérstök þróunardeild er hefur það hlutverk að veita lán til rannsóknar- og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Deildinni er og heimilt að veita styrki í sama tilgangi enda verði henni séð fyrir sérstökum tekjum í því skyni.

2. gr.

    Lán úr þróunardeild skulu veitt gegn þeim tryggingum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi og er hún í þeim efnum óbundin af ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 44/1976.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra setur reglur um lán- og styrkveitingar úr deildinni.

4. gr.

    Deildin tekur yfir eignir og skuldir Fiskimálasjóðs. Skal yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda 1. júlí 1989.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Með lögum þessum eru numin úr gildi lög nr. 89 5. júní 1947, um Fiskimálasjóð, sbr. 5. gr. laga nr. 27 17. maí 1976, lög nr. 10 11. mars 1971 og lög nr. 104 29. desember 1980.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem lauk vorið 1986, voru gerðar róttækar breytingar á sjóðum sjávarútvegsins. Með lögum 24/1986 var sett á fót greiðslumiðlunarkerfi og afnumin lög um útflutningsgjald af
sjávarafurðum. Við afnám útflutningsgjaldsins féll niður aðaltekjustofn Fiskimálasjóðs. Í greinargerð með lögum nr. 24/1986 var ráð fyrir því gert að Fiskimálasjóður myndi sameinast Fiskveiðasjóði Íslands. Með frumvarpi þessu er skrefið stigið til fulls og lagt til að lög nr. 89/1947, um Fiskimálasjóð, sbr. 5. gr. laga nr. 27/1976, verði afnumin. Þess í stað verði stofnuð við Fiskveiðasjóð Íslands sérstök þróunardeild er taki við eignum og skuldum sjóðsins. Deildin veiti lán eða styrki til rannsókna og þeirra nýjunga sem orðið gætu til að efla markaðsstöðu íslensks sjávarútvegs. Styrkveitingar eru þó háðar því að deildin fái sérstakar tekjur til að standa undir þeim.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um heiti deildarinnar og hlutverk. Hlutverk deildarinnar er einkum að veita þeim aðilum sem vinna að nýjungum og framförum í sjávarútvegi lán til þróunar- og rannsóknarverkefna. Er hér gert ráð fyrir að deildin verði hluti af Fiskveiðasjóði Íslands og lúti sömu yfirstjórn. Um deildina gildi einnig að öðru leyti lög nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.

Um 2. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að aðrar reglur gildi um tryggingar á lánum úr deildinni en almennt gilda um lán úr Fiskveiðasjóði. Fiskveiðasjóður er stofnlánasjóður og veitir skv. 11. og 12. gr. lán til fiskiskipa tryggð með 1. veðrétti í skipum eða gegn veði sem er innan 60% af matsverði annarra eigna. Er því lagt til að stjórn sjóðsins meti tryggingar fyrir lánum úr deildinni hverju sinni eða marki sér reglur í þessum efnum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Samkvæmt bráðabirgðaefnahagsreikningi 31. des. 1988 námu eignir Fiskimálasjóðs um 44 m.kr. Á móti stóðu skuldir að fjárhæð um 35 m.kr. Höfuðstóll Fiskimálasjóðs um sl. áramót var því um 9 m.kr. Hér er gert ráð fyrir að Fiskveiðasjóður yfirtaki eignir og skuldir Fiskimálasjóðs 1. júlí nk. og við það miðað að endanlegt uppgjör fari fram sem fyrst eftir þann tíma.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.