Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 446 . mál.


Nd.

806. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Flm.: Þórhildur Þorleifsdóttir, Benedikt Bogason, Árni Gunnarsson.



1. gr.

    2. tölul. 19. gr. laganna orðast svo:
    Tollvarða og áhafna varðskipa og þeirra sem heyra undir lög nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hinn 5. júlí 1986 var undirritaður nýr kjarasamningur Landssambands lögreglumanna, LL, og fjármálaráðherra. Samið var um nokkra leiðréttingu á launum lögreglumanna. Í sérstakri bókun var um það samið að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn en staða þeirra fest með kauptryggingu sem miðuð væri við kjör fjögurra tilgreindra starfshópa. Hagstofunni skyldi falið að reikna út þa nn samanburð á sex mánaða fresti. (Sjá fskj. I.)

Aðdragandi samnings um afnám verkfallsréttar lögreglumanna.
    Ný samningsréttarlög opinberra starfsmanna voru í deiglunni. Fram að þeim tíma hafði verkfallsréttur opinberra starfsmanna verið í höndum heildarsamtakanna, BSRB. Nú lá fyrir að sá réttur færðist úr höndum BSRB til hinna einstöku félaga. Sýnt var að þau félög, sem höfðu óskoraðan verkfallsrétt, mundu styrkjast sem einingar. Heilsugæslu- og öryggisstéttir höfðu búið við mjög takmarkaðan verkfallsrétt og ekki voru talin líkindi til að réttur þeirra yrði rýmkaður í væntanlegum lögum. Flest benti þá til þess að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn með öllu. Verkfallsréttur þeirra var á þann veg að heildarsamtökunum gæti reynst hann notadrjúgur ef til átaka kæmi. Hins vegar var varla talið að óbreyttur réttur yrði öflugt baráttutæki
þegar lögreglumenn væru orðnir einir á báti og því skynsamlegt að reyna að finna aðra leið sem tryggði stéttinni eðlileg kjör. Kom þá til álita að skipta á verkfallsrétti og kauptryggingu. Hlaut sú hugmynd talsvert fylgi meðal lögreglumanna enda margir á þeirri skoðun að skyldur þeirra við ríkisstjórnina, og þá ekki síður við borgarana, væru svo miklar að „alvöruverkfall“ væri nánast óhugsandi.
    Niðurstaðan varð því sú að skipt var á verkfallsrétti og kauptryggingu. Samningurinn var staðfestur með naumum meiri hluta í allsherjaratkvæðagreiðslu innan stéttarinnar.

Framkvæmd samningsins.

    Þann 27. febrúar 1987 var gengið frá viðbótarsamkomulagi um samningsréttarmálin milli fjármálaráðuneytis og LL (fskj. II). Í því fólust aðallega skýrari vinnureglur varðandi framkvæmd samnings frá því í júlí 1986. Lögreglumenn kröfðust þess að réttum aðila, þ.e. Hagstofunni, yrði tafarlaust falið að reikna út upphæð kauptryggingar. Slíkur útreikningur hefði ekki verið gerður þrátt fyrir skýr ákvæði þar um í bókun í júlí 1986. Báru ráðuneytismenn ýmsum vandkvæðum við og var nú undirritað í annað sinn að útreikningur um upphæð kauptryggingar skyldi falinn Hagstofu Íslands tvisvar á ári. Lögreglumenn skyldu 1. janúar og 1. júlí ár hvert fá launahækkun samkvæmt meðalhækkun viðmiðunarhópa.
    Opinberir starfsmenn gerðu nýja kjarasamninga á vordögum 1987. Samningur við LL var undirritaður 22. maí 1987. Í þeim samningaviðræðum kvörtuðu lögreglumenn undan vanefndum á ýmsum atriðum fyrri samnings. Bar þar einna hæst að útreikningur kauptryggingar hefði ekki enn farið fram. Fjármálaráðuneytið lagði þá fram „upplýsingar“ um kauptryggingu. Þar kom fram að lögreglumenn ættu inni 1,25% kauphækkun. Lögreglumenn kröfðust þess að Hagstofa Íslands annaðist útreikninga eins og um hefði verið samið. Var enn gert samkomulag um framkvæmd samnings og undirritað í þriðja sinn að Hagstofa Íslands skyldi annast útreikninga (fskj. III).

Niðurstaða.
    Næsta hálfa árið gekk hvorki né rak í framkvæmd samningsins þrátt fyrir bréfaskriftir og fundahöld. Var þá lögmanni LL falið að leita til dómstóla. Í nóvember 1987 kærði hann vanefndir á kauptryggingarákvæði til Félagsdóms og var málið þingfest 15. desember 1987. Ríkislögmaður óskaði eftir dómsátt og féllst lögmaður LL á það. Var sáttin frágengin 17. desember 1987 (fskj. IV). Ríkið fékk
frest til gagnaöflunar til 20. janúar 1988. Með bréfi til Hagstofunnar, dags. 19. janúar 1988, fór félagsmálaráðuneytið loks fram á að umræddir útreikningar færu fram. Engin gögn voru send með því bréfi.
    Dómsmálaráðherra hlutaðist til um málið með bréfi til Hagstofunnar, dags. 14. febrúar 1988. Hagstofan bað fjármálaráðuneytið þá um gögn og upplýsingar málinu viðkomandi með bréfi, dags. 12. febrúar 1988. Hinn 25. febrúar 1988 liggja útreikningar kauptryggingar fyrir í fyrsta sinn, tæpum tveimur árum eftir undirskrift samnings. En jafnframt lýsti Hagstofan því yfir að samningar um að hún annaðist slíka útreikninga hefðu farið fram án samráðs við hana og ekki sé æskilegt að henni sé falið slíkt hlutverk (fskj. V.)
    Í samningum frá 1986 eru skýr ákvæði um ótvíræða möguleika til endurskoðunar LL á kauptryggingarútreikningum. Tæpum tveimur árum eftir undirritun samnings hafa LL ekki borist nein gögn til endurskoðunar.
    Landssamband lögreglumanna telur að öll samningsréttarákvæði í kjarasamningum frá 1986 séu brostin. Óskar sambandið eftir að samningum verði rift, ákvæðin um kauptryggingu verði úr gildi felld og að lögreglumenn fái verkfallsrétt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt greininni verður sú breyting á lögum nr. 94/1986 að um kjarasamninga lögreglumanna gilda sömu lagaákvæði og um aðra þá sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er gert ráð fyrir að birt verði skrá yfir þá lögreglumenn sem sinna þurfa nauðsynlegustu löggæslu þótt verkfall sé hafið, eins og kveðið er á um í síðari málsgrein 19. gr. laganna.



Fylgiskjal I.


Úr kjarasamningi LL og fjármálaráðherra 1986:


Bókun um samningsréttarmál.



    Aðilar eru sammála um að verkfallsréttur lögreglumanna skuli afnuminn. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því á Alþingi að í lög um lögreglumenn, nr. 56/1972, komi ákvæði er banni verkföll lögreglumanna ríkisins.
    Jafnframt mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að því er varðar sérkjarasamninga lögreglumanna:
    „Náist ekki samkomulag um sérkjarasamning Landssambands lögreglumanna getur hvor aðili sem er í stað þess að vísa málinu til kjaranefndar krafist kjarabreytinga, sem samsvari því sem á vantar að lögreglumenn fái þá meðalhækkun sem eftirtaldir aðilar hafa fengið frá gerð síðasta sérkjarasamnings Landssambands lögreglumanna:
    1. BSRB.
    2. BHMR.
    3. Samband íslenskra bankamanna.
    4. Bandalag kennarafélaga.
    Hagstofa Íslands reikni út framangreindar launabreytingar á sex mánaða fresti, talið frá júlí 1986.“

(Undirskriftir.)



1. Fylgiskjal með bókun um samningsréttarmál.


    Í tilefni af ósk yðar um staðfestingu á skilningi fjármálaráðuneytisins á tilteknu atriði í bókun um samningsréttarmál, sem fylgir sérkjarasamningi félagsins, skal eftirfarandi tekið fram:
    Komi til þess, sbr. bókunina, að mat Hagstofu Íslands á launabreytingum ráði kjarabreytingum hjá Landssambandi lögreglumanna skal annars vegar miðað við launakjör þeirra stéttarsamtaka sem tilgreind eru í bókuninni eins og þau eru í júlí 1986 samkvæmt þeim samningum þeirra sem þá gilda og hins vegar við sérkjarasamning Landssambands lögreglumanna eins og hann er þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda, þ.e. að meðtöldum þeim hækkunum sem gilda frá 1. september 1986.

2. Fylgiskjal með bókun um samningsréttarmál.


(21. júli 1986.)


    Enn fremur skal staðfest að fjármálaráðuneytið lítur svo á að með bókuninni sé réttur Landssambands lögreglumanna til að gera sérkjarasamning í engu skertur og að það geti þrátt fyrir bókunina verið aðili að aðalkjarasamningi með sama hætti og verið hefur.
    Enn fremur er fjármálaráðuneytið reiðubúið til að vinna að því með Landssambandinu að finna annað verklag til að tryggja stöðu lögreglumanna í stað þeirrar viðmiðunar sem í bókuninni er.

I.H.Þ.



3. Fylgiskjal með bókun um samningsréttarmál.


    Samkvæmt beiðni Landssambands lögreglumanna skal eftirfarandi upplýst varðandi túlkun fjármálaráðuneytisins á 2. tölul. bókunar um samningamál lögreglumanna frá 18. júlí sl.
    Fjármálaráðuneytið hefur ætíð litið þannig á að með orðinu meðalhækkun í greindri bókun sé átt við hvers konar kjarabætur sem unnt er að meta til fjár (launahækkana) eða annarra hlunninda, t.d. í formi lengds orlofs, styttri vinnutíma, álagsgreiðslna, starfsaldurshækkana o.s.frv.
    Ráðuneytið mun að sjálfsögðu láta Hagstofu Íslands og Landssambandi lögreglumanna í té öll þau gögn sem nauðsynleg eru til að meta þær meðaltalskjarabætur sem kunna að verða hjá viðmiðunarhópunum.
    Loks ítrekar ráðuneytið að það er reiðubúið til frekari viðræðna um nánari útfærslu á framkvæmd þessa ákvæðis.

F.h.r.


Guðmundur Björnsson.





Fylgiskjal II.


Samkomulag milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðuneytis.



1. gr.

    Landssamband lögreglumanna gerir kjarasamning við fjármálaráðuneytið samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1986.

2. gr.

    Hagstofa Íslands meti breytingar á starfskjörum opinberra starfsmanna, þ.e. þeirra sem taka laun eftir kjarasamningum núverandi aðildarfélaga BSRB, BHMR, BK, svo og Sambandi ísl. bankamanna. Upplýsingar þessar skulu miðaðar við 1. janúar og 1. júlí ár hvert og breytingar á hverju slíku tímabili. Geti Hagstofa Íslands ekki metið einstaka kjarabreytingar hjá viðmiðunarhópunum skal upplýsingum um þau atriði komið til samningsaðila. Mat Hagstofu Íslands skal liggja fyrir innan 30 daga frá ofangreindum dagsetningum.
    Lögreglumenn skulu 1. janúar og 1. júlí fá launahækkun samsvarandi meðalhækkun viðmiðunarhópanna síðasta viðmiðunartímabil.
    Þrátt fyrir að Hagstofa Íslands vísi mati á einstökum kjarabreytingum hjá viðmiðunarhópunum til úrlausnar hjá samningsaðilum skulu lögreglumenn strax fá þær launahækkanir sem kjarabreytingar á viðmiðunartímabilinu gefa tilefni til.

3. gr.

    Mat skv. 2. gr. skal m.a. taka til:
a.     Breytinga á launatöxtum.
b.     Breytinga á röðun í launaflokka.
c.     Breytinga á einstökum kjaraatriðum, svo sem vinnutíma, orlofi, álagsgreiðslum, bótarétti, yfirvinnugreiðslum, hvíldartíma, fæðisfé og öllu öðru sem talist getur til launa og/eða starfskjara hverju nafni sem nefnast.
d.     Við samanburð kjara skal tekið sérstakt tillit til áhrifa af breyttri samsetningu starfsaldurs.

4. gr.

    Við samanburð kjara Landssambands lögreglumanna og viðmiðunarhópa skv. 3. gr. skal í upphafi miðað við laun samkvæmt kjarasamningi Landssambands lögreglumanna á árinu 1986 eins og þau voru þegar þeir voru að fullu komnir til framkvæmda annars vegar og kjör viðmiðunarhópanna eins og þau voru 1. júlí 1986.

5. gr.

    Þriðja hvert ár, í fyrsta skipti í júlí 1988, skal fimm manna nefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum samningsaðila og einum tilnefndum af sáttasemjara ríkisins, taka til athugunar hvort samningur þessi hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast og hvort félagar í Landssambandi lögreglumanna hafi haldið kjaralegri og faglegri stöðu sinni til jafns við aðrar stéttir. Verði það álit meiri hluta nefndarinnar að hallað hafi á félaga í Landssambandi lögreglumanna skal það að fullu bætt frá þeim tíma sem misvísunin varð.
    Aðilar geta skipað í nefndina með öðrum hætti en að ofan greinir náist samkomulag um það.

6. gr.

    Takist ekki samningar milli fjármálaráðuneytis og lögreglumanna, sbr. 1. gr., getur hvor aðili um sig skotið málinu til gerðardóms þegar 45 dagar eru liðnir frá því samningar voru lausir.
    Kjaraatriðum, sem Hagstofa Íslands treystir sér ekki til að meta og samkomulag næst ekki um milli samningsaðila, má vísa til gerðardóms til úrlausnar.

7. gr.

    Gerðardómur skal skipaður þremur mönnum sem tilnefndir eru af Landssambandi lögreglumanna, fjármálaráðuneyti og sáttasemjara ríkisins og skal hann vera formaður dómsins.
    Dóminn má skipa með öðrum hætti náist um það samkomulag milli samningsaðila.
    Dómurinn skal skila úrskurði eigi síðar en 30 dögum eftir að málinu var vísað til hans.
    Úrskurður skal gilda til loka yfirstandandi viðmiðunartímabils nema aðilar verði sammála um önnur tímamörk.

Reykjavík, 27. febr. 1987.



Indriði H. Þorláksson.

Einar Bjarnason.

Guðmundur Björnsson.



Eggert H. Bjarnason.

Geir H. Haarde.

Jóhannes Jónsson.



Þorsteinn Gunnarsson.

Jón Guðmundsson.







Fylgiskjal III.


Landssamband lögreglumanna:


Samkomulag um framkvæmd á samningi frá 27. febrúar 1987.



1.


    Aðilar eru sammála um að útreikningar þeir sem þegar hafa verið gerðir á breytingum launa lögreglumanna og viðmiðunarhópa þeirra, sbr. samninginn, gefi tilefni til að hækka launatöflu LL um 1,25% frá 1. janúar 1987. Tekur sú breyting til launatöflu þeirrar sem gilti fyrir janúar 1987 og þeirrar launatöflu sem tekur gildi 1. febrúar 1987 samkvæmt kjarasamningi undirrituðum í dag.

2.


    Aðilar munu fyrir 5. júní 1987 semja í samráði við hagstofustjóra nánari reglur um hvernig framkvæma skuli reglulega útreikninga á launabreytingum samkvæmt samningnum þannig að þeir lýsi sem best þeim breytingum sem felast í samningum eða ígildi samninga sem gerðir eru eða koma til framkvæmda á hverju útreikningstímabili. Enn fremur reglur um mat á öðrum atriðum sem samningurinn tekur til eftir því sem unnt er.

3.


    Fyrir 15. júní 1987 endurskoði og meti Hagstofa Íslands niðurstöðu skv. 1. tölul.

Reykjavík, 22. maí 1987.



Fyrir fjármálaráðuneytið,

Fyrir Landssamband lögreglumanna,



Indriði H. Þorláksson.

Einar Bjarnason.




Bókun með samkomulagi.


    Samkomulag þetta er til bráðabirgða eins og fram kemur í 3. lið þess. LL vekur sérstaka athygli á því að þau 1,25% sem nefnd eru í texta eru, eins og reyndar kemur fram í textanum, byggð á bráðabirgðaútreikningum, en auk þess gera þau ekki ráð fyrir bótum fyrir þann tíma á árinu sem viðmiðunarhóparnir höfðu þessa hækkun en lögreglumenn ekki. Samþykkt þessa samkomulags byggist á því að endurskoðun Hagstofu Íslands muni einnig taka til þeirrar leiðréttingar sem hér er undanskilin.



Fylgiskjal IV.


    Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og Landssamband lögreglumanna hins vegar gera með sér svofellda

Dómsátt



    Fjármálaráðuneytið mun fara þess á leit við Hagstofu Íslands eigi síðar en 20. janúar 1988 að hún meti breytingar á starfskjörum opinberra starfsmanna sem taka laun eftir kjarasamningum aðildarfélaga BSRB (án Landssambands lögreglumanna), BHMR, BK og SÍB. Þessar breytingar verði metnar fyrir þrjú tímabil: 1. Frá 1. júlí 1986 til 31. desember 1986. 2. Frá 1. janúar 1987 til 30. júní 1987. 3. Frá 1. júlí 1987 til 31. desember 1987. Fundin verður út meðalbreyting kjara þessara heildarsamtaka hvers um sig á umræddum tímabilum. Síðan verði fundin út meðalbreyting kjara þessara samtaka í heild og vægi hvers hóps í því meðaltali miðað við félagsmannafjölda. Loks verði fundnar út með sama hætti breytingar á starfskjörum lögreglumanna miðað við ofangreind tímabil.
    Matið verði unnið í samræmi við bókanir aðila frá 18. júlí 1986, dómskjal nr. 2 og fylgiskjöl með bókuninni á dómskjali nr. 3, samning frá 27. febr. 1987, dómskjal nr. 4 og bókun frá 22. maí 1987, dómskjal nr. 5.
    Aðilar munu semja drög að bréfi til Hagstofu Íslands. Bréf þetta skal sent eigi síðar en 20. janúar 1988, sbr. að ofan, ásamt fylgigögnum. Hvor aðili skal eiga rétt á að láta erindinu fylgja hver þau gögn, kjarasamninga og aðrar upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir matið.
    Geti Hagstofa Íslands ekki metið einstakar kjarabreytingar hjá viðmiðunarhópunum skal upplýsingum um þau efni komið til málsaðila.
    Fjármálaráðuneytið mun sérstaklega óska eftir því að mat Hagstofu Íslands liggi fyrir innan 30 daga frá því að erindi málsaðila berst Hagstofunni.
    Málskostnaður í þessu máli fellur niður.


F.h. fjármálaráðherra,

F.h. Landssambands lögreglumanna,



(Undirskriftir.)

(Undirskriftir.)







Fylgiskjal V.


    Af hálfu Hagstofunnar skal það ítrekað að þær niðurstöður sem hér hafa verið settar fram hljóta ævinlega að vera umdeilanlegar og háðar ýmiss konar fyrirvörum. Auk þess skal á það bent að samningar aðila um hlutverk Hagstofunnar í launaákvörðunum þeirra hafa verið gerðir án samráðs við hana. Þótt Hagstofan hafi nú orðið við óskum aðila um mat á launabreytingum er það alla jafna ekki æskilegt, með hliðsjón af þeirri óhlutdrægnisstöðu sem henni er nauðsynleg, að hún gegni hlutverki einhvers konar kjaradóms eða takist á hendur launaúrskurði af því tagi sem hér um ræðir.

25. febrúar 1988.


Hallgrímur Snorrason


hagstofustjóri.