Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 447 . mál.


Sþ.

807. Tillaga til þingsályktunar



um kennslu í þjóðháttafræðum við Héraðsskólann í Skógum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Jón Helgason, Guðni Ágústsson,


Þorsteinn Pálsson, Eggert Haukdal, Óli Þ. Guðbjartsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að komið verði á reglubundinni kennslu í þjóðháttafræðum við Héraðsskólann í Skógum.

Greinargerð.


    Þjóðháttafræði voru tekin upp sem námsgrein í framhaldsdeild Skógaskóla sl. haust samkvæmt heimild menntamálaráðuneytisins. Kennari var ráðinn í hálft starf. Notaði kennarinn tímann til jóla til að undirbúa námsefni og kennsluáætlun, bæði fræðilega og verklega, í tengslum við safnið í Skógum.
    Áætlað er að halda þessu áfram næsta haust og taka þá líka þjóðháttafræði upp sem valgrein í 9. bekk skólans. Þá er ákveðið að halda í sumar eða haust námskeið í Skógum fyrir starfandi safnverði og fleiri aðila tengda byggðasöfnum.
    Rætt er um að í Skógum megi síðar halda önnur námskeið í þjóðháttafræðum fyrir aðkomuhópa úr ýmsum skólum og reka þá starfsemi með skólabúðasniði.
    Aðstaðan í Skógum, en þar er ágætt byggðasafn, býður upp á mikla möguleika á þessu sviði. Þar er líka gott rými í heimavist og mötuneyti.
    Reynslan, sem fengist hefur af þessu starfi í vetur, lofar góðu og full ástæða er til þess að halda kennslu í þjóðháttafræðum áfram. Því er tillaga þessi flutt um að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að þessu starfi verði haldið áfram, það fest í sessi og heimild veitt til að vinna að áframhaldandi skipulagningu og þróun kennslunnar.