Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 459 . mál.


Ed.

820. Frumvarp til laga



um stjórn fiskveiða.

Flm.: Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Júlíus Sólnes.



1. gr.

    Fiskstofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Stjórn fiskveiða skal stuðla að verndun fiskstofnanna, hámarksnýtingu þeirra og hagkvæmum rekstri sjávarútvegs fyrir land og þjóð.

2. gr.

    Sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn fiskveiða eftir því sem kveðið er á í lögum þessum.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar ákveða fyrir 15. nóvember ár hvert með reglugerð þann afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum við Ísland á komandi ári. Ráðherra er heimilt innan ársins að hækka eða lækka aflamark sem ákveðið er samkvæmt þessari grein sé sú ákvörðun tekin fyrir 15. apríl.
    Ráðherra er og heimilt að ákveða í reglugerð þann afla sem veiða má úr öðrum einstökum stofnum sjávardýra við Ísland á ákveðnu tímabili eða vertíð og skulu veiðileyfi, ef veitt eru skv. 6. gr., miðast við það magn.
    Þá er ráðherra heimilt að kveða á í reglugerð um gerð skipa, útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla.

4. gr.

    Hverju fiskiskipi, sem skráningarskylt er, skal ákveðin sóknargeta þannig að metið sé það aflamagn sem skipið hefur burði til að veiða á hverju ári.
    Siglingamálastofnun ríkisins skal mæla sóknargetu fiskiskipa. Ráðherra setur reglur um mat á sóknargetu fiskiskipa í samráði við Siglingamálastofnun ríkisins, Landssamband íslenskra útvegsmanna, samtök sjómanna og Fiskifélag Íslands.
    Sóknargeta hvers fiskiskips skal tilgreind í aðalskipaskrá með öðrum upplýsingum sem þar er að finna.
    Siglingamálastofnun ríkisins skal birta með skipaskrá samanlagða sóknargetu fiskiskipastólsins.

5. gr.

    Nú er sóknargeta fiskiskipastólsins meiri en þarf til hámarksnýtingar þess aflamagns sem heimiluð er veiði á, sbr. 3. gr., er þá óheimilt að auka sóknargetuna.
    Nú er óheimilt að auka sóknargetuna, sbr. 1. mgr., en skip bætist við fiskiskipastólinn, hvort heldur smíðað eða keypt nýtt eða gamalt til landsins, eða endursmíðað skip svo að sóknargeta þess aukist, og skal útrýma á móti skráningarskyldu skipi í eigu sömu útgerðar, hvort heldur með úreldingu eða sölu úr landi, svo að sóknargeta þess sem kemur verði ekki meiri en sóknargeta þess sem lagt er.
    Siglingamálastofnun ríkisins hefur umsjón með að fullnægt sé fyrirmælum 2. mgr. Ef misbrestur verður þar á er óheimil veiði þess skips sem átti að bæta við fiskiskipastólinn.

6. gr.

    Heimilt er ráðherra að ákveða að enginn megi stunda veiðar á öðrum tegundum en botnfiski, svo sem rækju, humar, skelfiski, síld og loðnu, nema að fengnum sérstökum leyfum. Við úthlutun leyfanna getur ráðherra ákveðið skiptingu hámarksafla úr einstökum stofnum sjávardýra milli ákveðinna gerða veiðarfæra, gerða fiskiskipa, einstakra skipa og vinnslustöðva. Getur ráðherra ákveðið skiptingu á hámarksafla milli skipa, m.a. með hliðsjón af fyrri veiðum þeirra, stærð eða gerð, og milli vinnslustöðva, m.a. með hliðsjón af fyrri framleiðslu og afkastagetu.
    Við úthlutun leyfa til veiða á úthafsrækju samkvæmt skilgreiningu Hafrannsóknastofnunar getur ráðherra flokkað veiðiskip í sérstaka flokka með hliðsjón af öðrum veiðiheimildum þeirra og fyrri veiðum samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Leyfisveitingar til sérveiða skv. 1. mgr. skulu miða að því að ekki sé fleiri skipum veitt veiðileyfi en sem nemur þörf til hagnýtingar leyfilegs aflamagns af hverri tegund sjávardýra skv. 2. mgr. 3. gr. Meðan ekki má auka sóknargetu, sbr. 1. mgr. 5. gr., er skipum, sem leyfi hafa til sérveiða, óheimil veiði botnfisktegunda nema til komi sérstakt veiðileyfi sem takmarka skal við ákveðinn hámarksafla á skip að teknu tilliti til veiðiþols fiskstofna og til hagnýtingar skipsins til sérveiða.

7. gr.

    Stofna skal úreldingarsjóð fiskiskipa í því skyni að styrkja útgerðir til að taka af skipaskrá og úrelda skip sem ekki eru lengur hagkvæm til reksturs.

8. gr.

    Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum og útflytjendum, er skylt að láta ráðuneytinu ókeypis í té og í því formi, sem óskað er eftir, allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.

9. gr.

    Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum fulltrúa tilnefndum af samtökum útvegsmanna, auk formanns, sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi framkvæmd laga þessara og reglugerðar settar samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.

10. gr.

    Ráðherra skal setja nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.

11. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa, ef til koma, varðar sektum að upphæð 2.000–14.000 gullkrónur, sbr. lög nr. 4 11. apríl 1924, og upptöku afla samkvæmt lögum nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla.
    Ráðuneytinu er enn fremur heimilt vegna brota gegn ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa, ef til koma, að svipta skip heimild til veiða í tiltekinn tíma og varða veiðar eftir leyfissviptingu viðurlögum skv. 1. mgr. Sama gildir verði vanskil á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla sem sætt hefur upptöku.

12. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, skulu veiðar með vörpu heimilaðar á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt reglum er ráðherra setur.

13. gr.

    13. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu dragnótaveiðar heimilaðar samkvæmt almennum leyfum ráðherra. Getur ráðherra bundið leyfi þessi og úthlutun þeirra þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Jafnframt eru felld úr gildi lög nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, og 10. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976.

Greinargerð.


    Fiskveiðar eru undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og hlýtur svo að vera um ófyrirsjáanlega framtíð. Fiskimiðin umhverfis landið eru sú auðlind sem allt veltur á. Þessi fiskimið eru grundvöllur búsetu í landinu og fullveldis þjóðarinnar. Nauðsyn krefur að nýta þessa auðlind af kostgæfni og varúð. Óheft sókn í þessa auðlind leiðir, þegar til lengdar lætur, til ofnýtingar á fiskstofnunum. Það verður að stuðla að verndun fiskstofnanna, hámarksnýtingu þeirra og hagkvæmum rekstri sjávarútvegs fyrir land og þjóð. Til þess að svo megi verða þarf að stjórna fiskveiðum.
    Undirrót vandans sem við hefur verið fengist á undanförnum árum er of mikil sóknargeta fiskiskipastólsins. Þessi sóknargeta hefur boðið heim ofnýtingu fiskstofnanna, einkum þorsks. Við þessu er ekki nema tvennt til. Annaðhvort verður að setja hömlur á hagnýtingu fiskiskipanna eða fækka þeim. Gefur auga leið að hagkvæmara er fyrir þjóðarbúið að binda ekki meiri verðmæti í fiskiskipum en nauðsyn krefur til fullnýtingar fiskstofnanna. Hagkvæmara er að fara þá leið að takmarka fjárfestingu við þörfina fremur en að takmarka not þeirrar fjárfestingar sem stofnað er til umfram þarfir.
    Með lögum nr. 82 frá 28. desember 1983 urðu þáttaskil í stjórn fiskveiða. Áður hafði sjávarútvegsráðherra vald til þess að ákveða heildarkvóta ef fiskstofn var hættulega ofveiddur og viðkoma hans því í yfirvofandi hættu. Með lögunum frá 1983 var ráðherra auk þess veitt heimild til að skipta heildarafla milli einstakra skipa og er það sú skipan sem nefnd hefur verið kvótakerfi. Þessi lög voru sett til bráðabirgða í tilraunaskyni og giltu árið 1984. Lögin voru síðan endurnýjuð fyrir árið 1985. Og enn var þessi nýskipan um aflatakmörk á einstök skip framlengd um tvö ár og síðan um þrjú ár og eiga nú samkvæmt þessu að gilda til ársloka 1990.
    Tilgangur hinnar nýju skipunar um aflakvóta á skip var yfirlýstur sá að koma mætti við betri stjórn og takmörkunum á fiskveiðum. Reynslan sýnir nú ótvírætt hvaða árangri kvótakerfið hefur skilað.
    Í stað þess að minnka sóknargetu fiskiskipastólsins hefur hún stórum aukist þann tíma sem kvótakerfið hefur verið við lýði. Á fylgiskjali I eru upplýsingar frá Siglingamálastofnun ríkisins fyrir tímabilið 1984 til 1988 sem greinir flokkun skipastólsins eftir stærð, breytingum, sem hafa orðið á tímabilinu, og varða fjölda skipa, rúmlestafjölda, nýsmíði, stækkun og endursmíði og úreldingu. Þar kemur í ljós að fiskiskipum hefur samtals fjölgað um 121 skip og smálestatala aukist um 9879, auk þess sem opnum vélbátum fjölgaði um 162 og smálestatala þeirra jókst um 1725. Þannig hefur fiskiskipastóllinn aukist frá því að kvótakerfið kom til og afkastageta hans langt fram úr því sem aukning smálestatölu bendir til. Það hefur komið í ljós að í kvótakerfinu er innbyggður hvati til að halda á floti hverju fleyi því að hvert haffært skip á sinn útdeilda skammt af afla, hversu óhagkvæmur sem rekstur þess kann að vera, og ekki er svo hrörlegt skip að ekki gagnist til að hljóta úthlutun á veiðiheimild sem hagnýta má sem söluvöru, ef ekki vill betur til.
    Þetta hefur leitt til þeirrar öfugþróunar að fiskiskipastóllinn hefur stöðugt orðið vannýttari. Blasir þetta hvarvetna við og kemur t.d. skýrt fram í reglugerð um stjórn botnfiskveiða 1989 þar sem úthaldsdagar togara á sóknarmarki eru ákveðnir 245 á árinu. Og vitað er að togarar á aflahámarki þurfi ekki svo marga daga til að ná sínum leyfilega afla. Hér er orðin mikil breyting til hins verra frá því sem áður var þegar úthaldsdagar togara voru að jafnaði 330 til 360 dagar á ári. Gefur auga leið að þetta ástand er óþolandi fyrir rekstur útgerðarinnar. Og þjóðhagslega er ástandið óviðunandi þegar svo er komið að framleiðslutæki, sem fjárfest hefur verið í, má ekki nota þriðjung úr ári.
    Þá hefur aukin stjórn, sem ætlað var að tryggja framkvæmd fiskveiðistefnu til verndar fiskstofnunum, ekki skilað árangri heldur sýnt sig í fullkomnu haldleysi. Á fylgiskjali II er að finna upplýsingar frá Fiskifélagi Íslands um veiði helstu botnfisktegunda. Þar má sjá tillögur sem fiskifræðingar gerðu um veiði hvers árs, ákvörðun stjórnvalda um leyfilegan heildarafla og þá veiði sem raunverulega átti sér stað. Kemur þá í ljós að á kvótatímabilinu hefur stjórnunaraðferðin ekki dugað til að fylgt væri þeim veiðitakmörkunum sem stjórnvöld höfðu ákveðið. Á árunum 1984 til 1988 fór veiði þorsks árlega 54–73 þús. smálestir fram úr því sem stjórnvöld höfðu ákveðið. Þetta segir að
veiðin hafi þessi ár farið 17,5% til 29,2% fram yfir það sem ákveðið hafði verið. Hér er um að ræða öll fimm árin sem kvótakerfinu hefur verið beitt.
    Þessar upplýsingar segja sína sögu svo að ekki verður um villst. Kvótakerfið er ekki til þess fallið að koma í veg fyrir ofnýtingu fiskstofnanna, hvort heldur er með því að minnka sóknargetuna með fækkun skipa eða veiðitakmörkunum á hvert skip. Það orkar ekki tvímælis að kvótakerfið þjónar ekki þeim tilgangi sem því var ætlað. Heldur þvert á móti. Er þá ekki nema tvennt til, annaðhvort að stíga miðstýringarskrefið til fulls eða hverfa frá þessari skipan.
    Fyrri kosturinn felur í sér að með stjórnvaldsráðstöfunum sé séð um að sóknargetan verði ekki meiri en þarf til að fullnýta fiskstofnana. Þetta merkir í framkvæmd að komið verði á ströngu skömmtunarkerfi þar sem stjórnvöld ákveði hvað fiskiskipastóllinn skuli vera stór, hvaða skip skuli úrelda, hve mörg ný skip megi koma til, hvaða skip skuli endurbyggð, hver skuli vera eigandi að hverju skipi og frá hvaða verstöð skuli gera það út. Með þannig framkvæmd kvótakerfis má hugsa sér að hægt sé að forðast ofnýtingu fiskstofnanna. En þessi leið er dýrkeypt. Þá væri ekki lengur fyrir hendi sú frjálsa samkeppni í fiskveiðum landsmanna sem skapaði þá eindæma framleiðni sem hefur verið undirstaða velmegunar þjóðarinnar. Fyrirmæli stjórnvalda fela ekki í sér neina tryggingu fyrir hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins. Þvert á móti skortir þessa aðferð það sem nauðsyn krefur til að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni. Engin miðstýring eða ríkisforsjá getur í eðli sínu verið fær um að gæta þess. Samkvæmt eðli málsins hljóta ákvarðanir stjórnvalda í þessum efnum að vera að meira eða minna leyti geðþóttaákvarðanir.
    Hinn kosturinn, að hverfa frá kvótakerfinu, er fólginn í því að aflatakmarkanir séu ekki bundnar við skip heldur sé hverju einstöku skipi frjálst að afla og flytja þá björg í bú sem það er fært um innan þeirra marka sem hámarksafli úr hverjum einstökum fiskstofni leyfir. Með þessum hætti verður sókn og keppni sjómanna komið við og heilbrigðri endurnýjun í stéttinni. Afburðamennirnir fá að njóta sín. Skip með góðan rekstrargrundvöll fá að skila þeim arði í þjóðarbúið sem efni standa til. Úrelding bíður þeirra skipa sem haldið hefur verið á floti einungis vegna kvótakerfisins. Kaup og sala skipa verður óhindruð af kvótahagsmunum. Verstöðvar fá að njóta aðstöðu sinnar til fiskimiðanna þannig að stuðlað sé að hagkvæmri verkaskiptingu í atvinnulífi landsmanna eftir byggðarlögum og með því eflt þjóðhagslegt gildi og heildarafrakstur fiskveiða.
    Þessi skipan felur í sér það úrval sem þarf að fara fram til að fækka fiskiskipum og minnka þannig sóknargetuna til samræmis við það sem nægir til að fullnýta fiskstofnana. Slíkt úrval geta engar stjórnvaldsákvarðanir gert. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða. Þeir halda velli sem kunna best til verka. Hinir falla út. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins. Þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Þannig gæti sóknargetunni miðað, þegar til lengdar lætur, í átt til jafnvægis við fiskstofnana svo að beita þurfi
sem minnstum veiðitakmörkunum.
    Til að flýta fyrir þessari þróun og að fiskiskipaflotinn verði ekki stærri að sóknargetu en hámarksnýting fiskstofnanna krefur og stuðla að því að svo geti jafnan verið þarf að gera sérstakar ráðstafanir. Þess vegna er gert ráð fyrir að stofnaður verði úreldingarsjóður fiskiskipa til að styrkja útgerðina til að taka af skipaskrá skip sem ekki eru hagkvæm til reksturs. Tekjur úreldingarsjóðs mættu vera af gjaldi sem lagt væri á hverja útgerð í hlutfalli við aflahlut. En sú gjaldtaka væri léttbær útgerðinni borið saman við þá aflaskerðingu og kaup á veiðiheimildum sem hún þarf að búa við meðan kvótakerfið er við lýði. Þarf þá að vera skilyrði fyrir aðstoð úr úreldingarsjóði að ekki komi til ný skip í stað þeirra sem úrelt eru. Slíkur úreldingarsjóður nær tilgangi sínum þegar aflétt hefur verið tregðunni á samdrætti í fiskiskipastólnum sem fylgir kvótakerfinu. Þá eru sköpuð skilyrði til þess að gera myndarlegt átak sem fljótlega leiddi til verulegrar minnkunar sóknargetu fiskiskipastólsins.
    En til frambúðar varðar mestu að ekki verði ótímabær aukning á sóknargetu fiskiskipastólsins. Verða því að vera fyrir hendi reglur um endurnýjun skipastólsins ef á þarf að halda. Til öryggis er því lagt til að komið verði á þeirri skipan að endurnýjun fiskiskipastólsins megi ekki leiða til stækkunar hans meðan sóknargetan er umfram það sem nægir til að tryggja hámarksnýtingu fiskstofnanna.
    Samt sem áður verður ekki hjá því komist að beita áfram tímabundnum veiðibönnum. En það á að vera í stöðugt minnkandi mæli eftir því sem fiskiskipastóllinn minnkar og leitar jafnvægis við veiðiþol fiskstofnanna. Það er mælikvarði á góða fiskveiðistjórn að skipin þurfi ekki að vera bundin við landfestar langtímum saman og fjárfesting í þessum framleiðslutækjum megi verða sem arðbærust.
    Hins vegar verður að gæta hagsmuna fiskvinnslunnar eftir því sem þörf krefur með því að beita sóknarbanni eftir veiðitímabilum til að stuðla að sem jafnastri hráefnisöflun og vinnslu fyrirtækjanna. Slíkt stjórnunarkerfi hefur stoð í gildandi lögum, en er óháð kvótakerfinu sem svarar ekki þessum þörfum.
    Þá er aldrei of mikil áhersla lögð á þann þátt fiskveiðistjórnar sem varðar beinar ráðstafanir til verndar og friðunar hrygningar- og uppeldisstöðva með svæðisbundnum og tímabundnum veiðibönnum.
    Núverandi kvótakerfi var sett til reynslu. Eftir fimm ár hefur það sýnt sig að megintilgangur þessa kerfis hefur ekki náðst. Það dugar ekki til að framkvæma þá fiskveiðistefnu sem þörf krefur og stuðlar auk þess að minnkandi framleiðni í sjávarútvegi. Auk þess hafa komið í ljós margs konar erfiðleikar og vandamál í framkvæmd.
    Kvótakerfinu var talið til gildis að það tryggði jafnvægi milli landshluta. Vísdómur ríkisforsjárinnar átti að sýna sig í svæðaskiptingunni og útreikningi þorskígildanna. En reynslan hefur sýnt að kvótakerfið hefur raskað stöðu einstakra byggðarlaga og stofnað til meiri metings og illdeilna milli verstöðva og landshluta en dæmi eru til. Eru það mikil viðbrigði frá því sem áður var þegar sjávarútvegurinn lagaði sig sem frjáls atvinnuvegur að rekstrargrundvelli eftir landsháttum og fiskimiðum. Hver landshluti gat notið sinna fiskimiða. Rekstrarhagkvæmni réð því í hve ríkum mæli og með hverjum hætti menn sóttu sjóinn. Það fór óhindrað eftir aðstæðum til hagnýtingar fiskimiða og fiskigengd.
    Með kvótakerfinu fá hæfileikar og atgervi sjómanna og útgerðarmanna ekki að njóta sín nema til jafns við meðalmennskuna. Í nauðvörn gegn frelsisskerðingunni og viðleitni til að brjótast út úr hnappheldunni er ráðið fyrir þá, sem vilja lyfta sér yfir meðalmennskuna, að verða sér úti um viðbótarkvóta. Þá er stofnað til viðskipta sem ríkisvaldið býður upp á og gerir óhjákvæmileg til að gera ástandið bærilegra og halda kvótakerfinu gangandi. Þessi viðskipti eiga sér ekkert fordæmi meðal siðmenntaðra þjóða. Réttindi, sem veitt eru endurgjaldslaust með stjórnvaldsráðstöfunum, eru gerð að verslunarvöru. Hér er ekki einungis um að ræða beina verslun með kvótann heldur og óbeina í formi uppsprengds skipaverðs. Réttarvitund Íslendinga þolir ekki slíka ráðstöfun á almannaeign sem fiskurinn í sjónum er.
    Grundvallargalli kvótakerfisins er að aflatakmörk eru sett á hvert einstakt skip. Það er ekki hægt að bæta þetta kerfi. Meiri miðstýring væri að fara úr öskunni í eldinn. Stjórnvöld standa ráðlaus gegn vandanum meðan þau ekki afnema kvótakerfið því að það er undirrót vandans.
    Reynslutíma kvótakerfisins ætti nú að ljúka. Það er ekki að sakast um framkvæmdina. Kerfið er í eðli sínu óhæft. Öllum er fyrir bestu þegar til lengdar lætur að horfið verði frá kvótakerfinu áður en í meira óefni er komið. Þjóðarhagur krefst þess. Af þessum ástæðum er frumvarp þetta borið fram.
    Meginbreytingar og nýmæli, sem frumvarp þetta felur í sér, eru eftirfarandi:
1.     Horfið er frá núverandi kvótakerfi með skiptingu heildarafla og aflahámarki á hvert einstakt skip.
2.     Í stað stjórnar með veiðileyfum kemur stjórn á stærð fiskiskipastólsins.
3.     Fiskveiðar eru gerðar frjálsar innan þeirra marka sem hámarksafli á hverja fisktegund leyfir.
4.     Ráðherra hefur heimild til að ákveða að áfram skuli gilda sama kerfi og verið hefur um veiði annarra sjávardýra en botnfisktegunda, svo sem rækju, humars, skelfisks, síldar og loðnu.
5.     Sóknargeta fiskiskipastólsins er aðlöguð hámarksnýtingu fiskstofna með því að takmarka fjárfestingu í skipum við þörfina fremur en takmarka not þeirrar fjárfestingar sem stofnað er til umfram þarfir.
6.     Sett eru fyrirmæli um mat á sóknargetu hvers og eins skips.
7.     Samanlagðri sóknargetu fiskiskipastólsins eru sett mörk sem kveða á um hvernig skipastóllinn samsvarar veiðiþoli fiskstofnanna.
8.     Settar eru reglur um endurnýjun fiskiskipastólsins þegar sóknargetan er meiri en þarf til hámarksnýtingar fiskstofnanna.
9.     Gert er ráð fyrir úreldingarsjóði fiskiskipa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá núgildandi lögum um stjórn fiskveiða.

Um 2. gr.


    Hér er beint tekið fram að framkvæmd laganna sé undir yfirstjórn sjávarútvegsráðherra.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um heildarafla fisktegunda. Greinin samsvarar 2. gr. gildandi laga. Er engin breyting gerð, hvorki á ákvæðum sem skylda ráðherra
til að ákveða heildarafla úr botnfisktegundum né heimildarákvæðum um aðra stofna sjávardýra. Hins vegar kemur hér fram sú grundvallarbreyting að ekki er gert ráð fyrir veiðileyfum og aflamörkum á einstök skip sem stunda botnfiskveiðar.
    Þá er ráðherra heimilað að kveða á í reglugerð um gerð skipa, útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla, sbr. 3. gr. gildandi laga. Hér er um að ræða víðtækar heimildir til veiðistjórnar svo að nýta megi sem best leyfilegan hámarksafla hverrar fisktegundar svo sem með því að skipta árinu í veiðitímabil, banna veiðar á ákveðnum tímum og svæðum og eftir því hvers konar fiskiskip eiga í hlut, bátafloti eða togarafloti. Þessi ákvæði eru þeim mun mikilvægari fyrir stjórn fiskveiða þegar ekki er beitt veiðileyfum og aflamörkum á hvert skip. Þá er þetta stjórnkerfi ekki síður mikilvægt fyrir
fiskvinnsluna með því að gera mögulega sem jafnasta hráefnisöflun og þar með hagkvæman rekstur fyrirtækjanna.

Um 4. gr.


    Hér er um að ræða nýjung sem felur í sér grundvallarbreytingu. Í gildandi lögum er snúist við of mikilli sóknargetu fiskiskipastólsins með því að takmarka veiði hvers skips. Í staðinn er frekar farin sú leið að takmarka stærð fiskiskipaflotans og stefna að því að fjárfesting þjóðarinnar í fiskiskipum nýtist sem best með því að takmarka ekki notin af skipunum.
    Til þess að framkvæma þessa stefnu er nauðsynlegt að fyrir liggi sem gleggst hver sóknargeta fiskiskipastólsins er á hverjum tíma. Í þessari grein er kveðið á um mælingu á sóknargetu hvers skips. Til grundvallar þessu mati má leggja stærð skips, burðarmagn, vélarafl og annan útbúnað eftir því sem við á og varðar hæfni til veiða. Má þá hugsa sér að sá háttur sé hafður á að hverju skipi sé gefið stig eftir ákveðnum mælikvarða sem megi umreikna í smálestir af afla eftir fiskstofnum. Siglingamálastofnun ríkisins er ætluð framkvæmd þessa verks. Í samráði við Siglingamálastofnunina, Landssamband íslenskra útvegsmanna, samtök sjómanna og Fiskifélag Íslands skal sjávarútvegsráðherra setja reglur um staðal um mat á sóknargetu fiskiskipa.
    Með þessum hætti eiga að geta legið fyrir á hverjum tíma sóknargeta hvers skips og hver samanlögð sóknargeta fiskiskipastólsins er. Þannig þjónar þessi grein þeim tilgangi að handhægar upplýsingar geti jafnan verið fyrir hendi þegar til þarf að taka við stjórn fiskveiða. Réttur útgerðar til endurnýjunar skips liggur þá ljós fyrir án þess að til þurfi að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun. Ákvæði þessarar greinar miða þannig að því að tryggja,
þegar kvótakerfið er aflagt, sem best stjórn á stærð fiskiskipastólsins meðan sóknargetan er of mikil í stað stjórnar með veiðileyfum.

Um 5. gr.


    Hér er um að ræða ný ákvæði um framkvæmd þeirrar stefnu að takmarka fjárfestingu í skipum fremur en takmarka nýtingu þeirra skipa sem fjárfest hefur verið í.
    Þegar sóknargeta er meiri en fiskstofnarnir þola þarf að takmarka fiskiskipastólinn. Hins vegar er nauðsynlegt að sóknargetan sé það mikil að jafnan sé mögulegt að fullnýta fiskstofnana. Og allur er varinn góður. Þess vegna verður sóknargetan að vera umfram það aflamagn sem heimiluð er veiði á. Er þá borð fyrir báru ef á þarf að halda, svo sem vegna hugsanlegrar aukningar aflaheimildar. Ef sóknargetunni er hins vegar ofgert má beita stjórnunaraðgerðum skv. 3. gr. eftir því sem þörf krefur, sbr. umsögn um þá grein.
    Í 2. mgr. er sett fyrirmæli um þær reglur um endurnýjun skipastólsins sem beita skal þegar skilyrðum 1. mgr. er fullnægt. Er reglan sú að sóknargetu fiskiskipastólsins má þá ekki auka, sbr. 3. mgr. Ef útrýma þarf skipi til mótvægis við sóknargetu nýs skips verður að vera um að ræða skip sem skráningarskylt er og ekki hefur áður verið afmáð af skipaskrá. Siglingamálastofnun ríkisins er ætlað að hafa eftirlit með að þessum fyrirmælum sé fylgt.
    Í 3. mgr. er Siglingamálastofnun ríkisins gert að hafa umsjón með að fullnægt sé fyrirmælum 2. mgr. Tekið er fram að óheimil sé veiði þess skips sem átti að bæta við fiskiskipastólinn ef út af bregður frá reglunni í 2. mgr.

Um 6. gr.


    Hér er um að ræða heimildargrein. Ráðherra er heimilað að áskilja veiðileyfi til skipa sem stunda aðra veiði en á botnfisktegundum, svo sem rækju, humar, skelfiski, síld og loðnu. Þetta heimildarákvæði samsvarar heimildarákvæðinu um heildarafla þessara tegunda, sbr. umsögn um 3. gr.
    Ef þessari heimild er beitt fer um framkvæmdina eins og verið hefur skv. 3. gr. og 2. mgr. 12. gr. gildandi laga, nema nú er ráðherra heimilað að auki að skipta hámarksafla milli vinnslustöðva.
    Í 3. mgr. er að finna nýmæli sem eiga að stuðla að sem bestri hagnýtingu þeirra skipa sem stunda þessar sérveiðar. Aftur á móti er skipum, sem leyfi hafa til þessara veiða, óheimil botnfiskveiði meðan ekki má auka stóknargetuna
nema sérstakt veiðileyfi ráðherra komi til. Þó má aldrei veita slíkt leyfi nema takmarkað sé við aflahámark á hvert skip og fara skal eftir ástandi fiskstofna og nýtingartíma skipsins við hinar leyfðu sérveiðar.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að sett verði sérlög um úreldingarsjóð fiskiskipa, tekjur hans og ráðstöfun fjármuna. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að beinu átaki til að minnka fiskiskipaflotann með því að veita styrki til úreldingar fiskiskipa og beita ráðum til að selja skip úr landi. Skilyrði fyrir opinberri aðstoð í þessu skyni verður að vera að ekki komi ný skip í fiskiskipastólinn í stað þeirra sem hefur verið lagt.

Um 8. gr.


    Grein þessi er samhljóða 17. gr. gildandi laga.

Um 9. gr.


    Grein þessi er efnislega hliðstæð 15. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Greinin er samhljóða 18. gr. gildandi laga, nema 2. mgr. þeirrar greinar, sem fjallar um þorskaflahámark á einstök skip, er felld niður þar sem því er ekki til að dreifa í frumvarpi þessu.
    Þá er þess að gæta að í 1. mgr. er ekki gert ráð fyrir leyfisbréfum nema beitt sér heimild 6. gr. Sama er að segja um 2. mgr.

Um 12. gr.


    Greinin er óbreytt frá 19. gr. gildandi laga.

Um 13. gr.


    Greinin er óbreytt frá 20. gr. gildandi laga, nema um er a° ræða almenn leyfi en ekki sérstök leyfi.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Siglingamálastofnun ríkisins:



Yfirlit um fiskiskipaflota Íslendinga.



Tafla Gutenberg.






Fylgiskjal II.



Fiskifélag Íslands:


Yfirlit um veiði helstu botnfisktegunda.


(Afli í þús. tonna.)




Tafla í Gutenberg.