Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 467 . mál.


Sþ.

828. Tillaga til þingsályktunar



um takmörkun á sauðfjárbúskap í þéttbýli.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að setja reglur sem takmarka sauðfjárbúskap í þéttbýli.

Greinargerð.


    Samdráttur í framleiðslu á kindakjöti hefur valdið sauðfjárbændum miklum erfiðleikum. Við gerð búvörusamninga milli ríkisstjórnar Íslands og Stéttarsambands bænda var stefnt að því að minnka framleiðsluna um 2000–2500 tonn. Til þess að gera þetta mögulegt hefur framleiðsluréttur verið keyptur upp eða leigður af opinberum aðilum, auk þess sem sauðfé hefur verið skorið niður vegna riðuveiki. Aðgerðir stjórnvalda til mótvægis, þar sem bændur hafa verið styrktir til að taka upp breytta búskaparhætti, hafa ekki vegið upp á móti samdrættinum.
    Telja verður eðlilegt að við þessar aðstæður sé sauðfjárbúskapur takmarkaður við lögbýli og þá aðila eina sem sækja lífsviðurværi sitt í þessa atvinnugrein. Það hefur ekki verið gert. Þrátt fyrir mikinn samdrátt hjá þeim bændum, sem byggja afkomu sína á sauðfjárrækt og hafa fáa aðra möguleika til atvinnu, hefur lítið verið gert til að draga úr sauðfjárhaldi í þéttbýli. Þar stunda menn sauðfjárbúskap, aðallega sér til ánægju, og framleiða töluvert magn af kindakjöti til neyslu innan lands án fullvirðisréttar.
    Óeðlilegt er að þessi búfjáreign frístundabænda skuli í raun skerða möguleika þeirra sem eru háðir sauðfjárrækt um lífsviðurværi og því rétt að tillit sé tekið til þess þegar ákvarðanir eru teknar um takmörkun á framleiðslu kindakjöts.
    Ágangur af völdum búfjár í þéttbýli skapar einnig önnur vandamál víða um land. Má þar nefna skemmdir á görðum og lóðum, umferðarhættu og gróðurskemmdir vegna beitar. Þá takmarkar sauðfjárhald í þéttbýli aðra nýtingu lands, svo sem til skógræktar og útivistar.