Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 469 . mál.


Ed.

830. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75 2. desember 1980, um þingfararkaup alþingismanna.

Flm.: Jón Helgason, Guðrún Agnarsdóttir, Karl Steinar Guðnason,


Salome Þorkelsdóttir, Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Afsali þingmaður sér þingmennsku og hverfi til annarra launaðra starfa fellur réttur hans til biðlauna niður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt núgildandi lögum um þingfararkaup alþingismanna, nr. 75/1980, nýtur alþingismaður biðlauna er hann hættir þingmennsku, í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu en í sex mánuði eftir tíu ára eða lengri þingsetu. Lögin kveða hins vegar ekki sérstaklega á um það hvort alþingismaður skuli njóta biðlauna ef hann afsalar sér þingmennsku og tekur við öðru starfi. Eftir upphaflegum tilgangi laganna var ekki ætlunin að þingmenn, sem segja af sér þingmennsku og hverfa til annarra launaðra starfa, nytu biðlauna eins og fram kom í umræðum á Alþingi á sínum tíma. Tíðkast hvorki á almennum vinnumarkaði né hjá ríkinu að sá er segir upp störfum njóti launa eftir að hætt er störfum. Í frumvarpi þessu er því lagt til að kveðið sé skýrt á um að réttur til biðlauna falli niður afsali þingmaður sér þingmennsku fyrir lok kjörtímabils og taki við öðru starfi. Þessi breyting hefur hins vegar engin áhrif á rétt þingmanna til biðlauna að kjörtímabili loknu.
    Frumvarp þetta er flutt í samráði við þá þingforseta sem sæti eiga í neðri deild.