Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 479 . mál.


Sþ.

912. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kristínar Halldórsdóttur um flugöryggi í verkfalli veðurfræðinga.

1.     Hvaða reglur gilda um veðurupplýsingar fyrir flug hér á landi?
    Viðbætir nr. 3 (Annex 3) við sáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fjallar um veðurþjónustu fyrir flug og skyldur ríkja til þess að veita veðurupplýsingar og veðurspár fyrir alþjóðlega flugstarfsemi. Veðurspár og veðurupplýsingar eru til hægðarauka og öryggis fyrir flugstarfsemi en ekki forsenda hennar.
    Um flug í atvinnuskyni hér á landi gilda ákvæði 4.3.5. gr. í Viðbæti nr. 6 við sáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Greinin hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    4.3.5. Veðurskilyrði. Ekki skal hefja flug sem framkvæma skal samkvæmt sjónflugsreglum, nema nýjustu veðurfréttir, eða nýjustu veðurfréttir og nýjustu veðurspár sameiginlega, bendi til að veðurskilyrði á leiðinni eða hluta af leiðinni, sem fljúga á samkvæmt sjónflugsreglum, muni vera með þeim hætti að unnt sé að fylgja þessum reglum á viðeigandi tíma.
    4.3.5.2. Eigi skal hefja flug, sem framkvæma skal samkvæmt blindflugsreglum, nema fyrir liggi upplýsingar sem benda til þess að skilyrði á þeim flugvelli, sem áætlað er að lenda á, eða að minnsta kosti á einum varaflugvelli, verði á áætluðum komutíma jöfn eða betri en flugvallarlágmark hlutaðeigandi flugvallar.
    4.3.5.3. Eigi skal hefja flug þar sem áætlað er að fljúga á leið þar sem kunnugt er um eða búast má við ísingu nema flugvélin sé til þess búin að standast slík skilyrði.

2.     Er fyllsta öryggis gætt að mati loftferðaeftirlitsins þegar engar flugveðurspár eru gerðar í verkfalli veðurfræðinga? Á hvaða hátt er það öryggi tryggt?
    Loftferðaeftirlitið telur að öryggi flugs sé ekki stefnt í hættu þótt flugveðurspár sem slíkar séu ekki gerðar fyrir flugmenn í verkfalli veðurfræðinga meðan önnur veðurþjónusta og upplýsingar eru fyrir hendi sem flugstjóri telur nægja hverju sinni með þeim takmörkunum sem flugrekendur setja sér vegna hins óvenjulega ástands.
    Veðurathuganir eru gerðar reglulega allan sólarhringinn á öllum veðurathugunarstöðum landsins. Þær upplýsingar eru aðgengilegar fyrir flugmenn. Flugveðurspár og flugveðurkort eru gerð af erlendum veðurstofum og nýtast að nokkru leyti hér á landi með fjarskiptum.
    Svonefndar SIGMET-upplýsingar eru gefnar út þótt verkfall sé, en það eru upplýsingar frá veðurstofu um að á flugleið sé kunnugt um eða búist við sérstökum veðurskilyrðum sem gætu haft áhrif á öryggi flugs.
    Flugstjóri ber samkvæmt lögum ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á fartíma stendur og tryggir öryggi þess. Það er flugstjóri sem endanlega ákveður og metur hvort nægjanlegar veðurupplýsingar séu fyrir hendi og hvort flug skuli hafið.

3.     Hver er ábyrgur ef óhöpp verða í flugi sem rekja má til þess að veðurspár eru ekki gerðar?
    Flugstjóri er ábyrgur fyrir undirbúningi og framkvæmd hvers flugs. Meðal annars skal hann sannfæra sig um að fyrir liggi fullnægjandi gögn, þar með taldar veðurfréttir og veðurspár, er bendi til að veðurskilyrði á leiðinni eða hluta af leiðinni, sem fljúga á, muni vera með þeim hætti að unnt sé að fylgja viðeigandi flugreglum á hverjum tíma.

4.     Er veðurstofu flotans á Keflavíkurflugvelli heimilt að sinna flugveðurþjónustu fyrir annað flug en sem honum við kemur?
    Veðurstofa hersins á Keflavíkurflugvelli sér ekki um flugveðurþjónustu fyrir annað flug en það sem viðkemur hernum.