Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 16 . mál.


Sþ.

1001. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Danfríði Skarphéðinsdóttur og Kristínu Einarsdóttur um tekjur einstaklinga.

    Heildartekjur launafólks á árunum 1985–1987 voru samkvæmt skattframtölum á verðlagi hvers árs sem hér segir (í milljörðum kr.):

    1985 ............         44,7
    1986 ............         60,0
    1987 ............         93,0

    Heildartekjur eru hér skilgreindar sem atvinnutekjur framteljenda samkvæmt skilgreiningu Þjóðhagsstofnunar (sjá sérrit nr. 1, Tekjur karla og kvenna, bls. 15, gefið út af Þjóðhagsstofnun í janúar 1989) að frátöldum reiknuðum launum atvinnurekenda og áætluðum tekjum fyrir þá sem ekki telja fram. Miðað við fyrirliggjandi forsendur um launaþróun á árinu 1988 má gera ráð fyrir að þessi tala sé nálægt 115 milljörðum króna á því ári.
    Tæplega þriðjungur af heildaratvinnutekjum landsmanna kemur í hlut kvenna á umræddu árabili, þ.e. 1985–1987, þó að þær séu u.þ.b. helmingur launþega. Þessi munur skýrist m.a. af því að stór hópur kvenna vinnur hlutastörf. Sem dæmi má taka að séu einungis athugaðir þeir launþegar, sem voru fullvinnandi á árinu 1986, dregur úr þessu ósamræmi þótt það sé enn umtalsvert. Konur, sem eru rúm 38% fullvinnandi launþega, bera þannig úr býtum um 27,5% heildartekna sama hóps árið 1986.
    Í fyrrnefndu sérriti Þjóðhagsstofnunar um tekjur karla og kvenna eru birtar upplýsingar um meðalatvinnutekjur kvenna og karla eftir aldri og raunar einnig hjúskaparstétt fyrir árin 1980 og 1986 (töflur 33–35, bls. 52–53). Þar kemur fram að atvinnutekjur kvenna eru u.þ.b. helmingi lægri en karla bæði árin þótt heldur hafi dregið saman með þeim. Munurinn á milli kynjanna er mestur á aldrinum 30–45 ára, en hann hefur hins vegar minnkað þó nokkuð fyrir þennan aldursflokk frá árinu 1980.
    Þegar skoðaðar eru tölur um tekjudreifingu innan einstakra atvinnugreina og starfsstétta kemur í ljós að meðaltekjur eru einna lægstar í þeim greinum sem að miklum meiri hluta eru mannaðar konum. Er þar um að ræða þjónustu- og verslunargreinar, svo og fiskvinnslu. Svipuðu máli gegnir um einstakar starfsstéttir, en meðaltekjur eru langlægstar hjá ræstingarfólki, starfsliði sjúkrahúsa, barnaheimila og elliheimila. Í þessum greinum eru yfir 90% konur. Sömu sögu má einnig lesa úr atvinnustéttaskiptingunni, þ.e. meðaltekjur eru lægstar hjá ófaglærðu verkafólki og verslunarmönnum.
    Hvorki liggja fyrir upplýsingar um endanlegar tekjur ársins 1988 eftir kyni, aldri né starfsstéttum og er þeirra varla að vænta fyrr en um mitt ár við endanlega álagningu. Nokkrar vonir eru þó bundnar við upplýsingagjöf staðgreiðslukerfisins, en að þeim málum er nú unnið. Að öðru leyti er vísað til sérrits nr. 1., Tekjur karla og kvenna, sem gefið var út af Þjóðhagsstofnun, um nánari upplýsingar um þessi efni.
    Til fróðleiks fylgir hér með tafla sem sýnir laun kvenna sem hlutfall af launum karla hjá ríkinu í október/nóvember 1988, en rétt er að taka fram að hér er eingöngu um að ræða þau laun sem greidd eru af Launaskrifstofu ríkisins.

                            Laun kvenna sem hlut-
         Stöðugildi              fall af launum karla.
              Fjöldi    Karlar    Konur    Dagvinna    Heildarlaun
    BSRB ..........         7.235    41%     59%    92,5     73,1
    BHMR ..........         1.960    66%     34%    87,2     84,6
    HÍK, KÍ .......         3.983    42%     58%    92,8     75,1