Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 344 . mál.


Nd.

1031. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. l. nr. 109/1988.

Frá 2. minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og borist um það fjöldi umsagna, auk skýrslu frá félagsmálaráðuneytinu. Í skýrslunni er greinargerð um kynningarfundi ráðuneytisins um húsbréf og vaxtabætur með 17 aðilum á vinnumarkaði o.fl., minnisblað um almenna húsnæðislánakerfið, töflur yfir útlán Húsnæðisstofnunar og samanburður við Noreg, minnisblöð um húsbréf, vaxtabætur, greiðslubyrði og afföll, álitsgerð sérfræðinganefndar um áhrif húsbréfakerfis á fasteigna- og fjármagnsmarkað og athugun Félagsvísindastofnunar á högum umsækjenda um lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá eftirtöldum: Húsnæðisstofnun ríkisins, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands, Húseigendafélaginu, Félagi fasteignasala, Kaupþingi hf., Verktakasambandi Íslands, Fasteignamati ríkisins, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Landssambandi lífeyrissjóða, Vinnumálasambandi samvinnufélaga, Alþýðusambandi Íslands, Verkamannasambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Iðju, félagi verksmiðjufólks, bæjarstjórn Hafnarfjarðar og fimm stjórnarmönnum í Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Á fund nefndarinnar komu Pétur H. Blöndal frá Kaupþingi, Sigurður B. Stefánsson frá Verðbréfamarkaði Iðnaðarbankans, Gunnar Helgi Hálfdánarson frá Fjárfestingarfélaginu, Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun, Haraldur Sumarliðason, Þórleifur Jónsson og Guðlaugur Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Björn Þórhallsson viðskiptafræðingur, Ásmundur Hilmarsson frá ASÍ og Bjarni Bragi Jónsson og Eiríkur Guðnason frá Seðlabanka Íslands. Með nefndinni starfaði Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur.
    Annar minni hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Breytingar þessar eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar en þó eru lagðar til tvær efnisbreytingar. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu við m-lið 4. gr. (62. gr.) sem felur í sér
að auk þess sem húsbréfadeild geri tillögu til félagsmálaráðherra um verðtryggingarskilmála, endurgreiðsluform, lánstíma og vexti í hverjum verðbréfaflokki geri húsbréfadeild einnig tillögu til félagsmálaráðherra um heildarfjárhæð í hverjum verðbréfaflokki. Með þessu er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin geti betur fylgst með því að rekstur húsbréfakerfisins sé í samræmi við sett markmið í efnahagsmálum. Í öðru lagi er gildistíma laganna breytt á þann veg að þau taki gildi 15. nóvember 1989 í stað 1. september 1989.
    Annar minni hl. vill leggja á það áherslu að félagsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd sem hafi það verkefni að fylgjast með undirbúningi að framkvæmd laganna og gera, ef nauðsyn krefur, tillögur um breytingar áður en lögin taka gildi 15. nóvember nk.
    Það er skilningur nefndarinnar að b-liður 4. gr. (51. gr.) taki af öll tvímæli um það að yfirstjórn húsbréfadeildar sé í höndum húsnæðismálastjórnar og að allar ákvarðanir deildarinnar séu háðar samþykki þeirrar yfirstjórnar.
    Á fylgiskjali með nefndaráliti þessu er prentað samkomulag um húsnæðismál milli ríkisstjórnarinnar og Kvennalistans.

Alþingi, 2. maí 1989.



Jón Sæmundur Sigurjónsson,

Guðrún Helgadóttir,

Jón Kristjánsson.


form., frsm.

fundaskr.







Fylgiskjal.


Samkomulag um húsnæðismál.



    Athuganir innan ríkisstjórnarinnar og viðræður við Kvennalistann hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að samþykkt frumvarps til laga um húsbréfakerfi verði tengt húsnæðismálum í stærra samhengi.
    Samkomulag er um eftirfarandi:
1.     Skipan nefndar á vegum félagsmálaráðherra til að endurskoða hinn félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Nefndin skili niðurstöðu fyrir 1. nóvember nk. Hlutverk nefndarinnar er að leggja fram tillögur um endurbætur á fyrirkomulagi lánveitinga til félagslegra íbúðabygginga með það fyrir augum að einfalda lánafyrirkomulag og auka skilvirkni félagslega íbúðalánakerfisins. Nefndinni er falið að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á stjórnun og úthlutun á félagslegri aðstoð í húsnæðiskerfinu. Jafnframt er nefndinni falið að gera tillögur um framkvæmd ráðstafana og leita leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis og til að jafna húsnæðiskostnað leigjenda til samræmis við húseigendur.
2.     600 millj. kr. raunaukningu á framkvæmdafé til félagslega hluta íbúðakerfisins. Á árinu 1989 verði 100 millj. kr. raunaukning á framlögum auk þess sem felst í bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamninga 1. maí 1989. Á árinu 1990 verði svo 500 millj. kr. raunaukning framkvæmdafjár.
3.     Vextir á lánum, sem úthlutað hefur verið úr Byggingarsjóði ríkisins, verði ekki hækkaðir þegar húsbréfakerfið kemst í framkvæmd.
4.     Þingflokkur Kvennalistans mun taka þátt í undirbúningi gildistöku húsbréfakerfisins og fylgjast með þeirri reglugerðarsmíð sem fram þarf að fara.
    Samkomulag er um ofangreind atriði milli ríkisstjórnarinnar og Kvennalistans og munu þau koma fram í nefndarálitum félagsmálanefnda við afgreiðslu húsbréfamálsins á Alþingi.

1. maí 1989.