Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 470 . mál.


Sþ.

1079. Nefndarálit



um till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um efni tillögunnar á fundum sínum og fékk til viðræðna við sig um málið forseta Alþingis, svo og nefnd þá sem vann skýrslu um kaup á Hótel Borg fyrir forseta Alþingis. Einnig komu til viðræðna við nefndina Jón Tómasson og Þorvaldur S. Þorvaldsson frá Reykjavíkurborg og létu nefndinni m.a. í té minnisblað um afstöðu borgarstjórnar eins og henni var lýst á fundi borgarstjóra og starfsmanna hans með forsetum Alþingis.
    Í nefndinni voru menn ekki á einu máli um afstöðu til efnis tillögunnar. Minni hl. taldi rétt að bíða með ákvörðun um að veita heimild til húsakaupa fyrir Alþingi en nota þess í stað næstu vikur og mánuði til þess að skoða nánar ýmsa kosti varðandi húsnæði fyrir Alþingi, bæði leigu og kaup, og jafnframt til þess að skoða breytt fyrirkomulag í Alþingishúsinu sjálfu. Minni hl. mun skila sérstöku nefndaráliti og breytingartillögu í þessa veru.
    Meiri hl. taldi hins vegar rétt að ganga til efnislegrar afgreiðslu málsins. Leggur hann til að hin upphaflega tillaga forseta Alþingis á þingskjali 831 verði samþykkt með viðbótum. Er þar um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi telur meiri hl. að ekki sé rétt að einskorða þá heimild, sem Alþingi veiti forsetum, við kaup á Hótel Borg með því eina húsnæði sem til greina geti komið, heldur leggur meiri hl. til að heimildin sé veitt þannig að hún geti náð til annars húsnæðis í næsta nágrenni Alþingishússins en Hótel Borgar ef við athugun kæmi í ljós að slík húsakaup reyndust hagkvæmari. Í öðru lagi telur meiri hl. rétt að í tillögugreininni sé gert ráð fyrir því að forsetar Alþingis hafi samráð við fjárveitinganefnd um fjárhagslegar skuldbindingar vegna hugsanlegra húsnæðiskaupa og um umfang endurbóta á slíku húsnæði og er það í samræmi við þann hátt sem hafður hefur verið á varðandi ýmsar sambærilegar heimildir til stofnana á sviði framkvæmdarvaldsins.
    Meiri hl. leggur fram breytingartillögu á sérstöku þingskjali um að samþykkt Alþingis á heimild til forseta Alþingis til húsakaupa verði orðuð með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Alþingi, 6. maí 1989.



Sighvatur Björgvinsson,

Margrét Frímannsdóttir,

Óli Þ. Guðbjartsson.


form., frsm.

fundaskr.



Jón Sæmundur Sigurjónsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.