Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 505 . mál.


Sþ.

1081. Fyrirspurn



til forsætisráðherra um ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland.

Frá Friðriki Sophussyni.



    Hvað líður undirbúningi stjórnvalda fyrir ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987?

Greinargerð.


    Hinn 18. mars 1987 samþykkti Alþingi eftirfarandi ályktun á grundvelli tillögu sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Gunnar G. Schram, Pétur Sigurðsson og Eyjólfur Konráð Jónsson fluttu:
    „Alþingi ályktar að hvetja til þess að efnt verði til ráðstefnu hér á landi um varnir gegn mengun við Ísland og annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi þar sem sérstaklega verði fjallað um þá hættu sem fiskstofnum og mannvist á þessu svæði er búin vegna mengunar frá geislavirkum efnum. Felur Alþingi ríkisstjórninni að vinna að framgangi málsins.“
    Í lok greinargerðar með þingsályktunartillögunni sagði:
    „Af þessum sökum er það fyllilega tímabært að Íslendingar hafi frumkvæðið að því að kölluð sé saman ráðstefna þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli þar sem rædd verði sú mengunarhætta sem að fiskstofnunum við Ísland og önnur nágrannaríki steðjar, ekki síst vegna geislavirkra úrgangsefna.“
    Ályktun Alþingis var send forsætisráðuneytinu 10. apríl 1987.



Skriflegt svar óskast.