Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 465 . mál.


Ed.

1084. Breytingartillögur



við frv. til l. um búfjárrækt.

Frá landbúnaðarnefnd.



1.     Við 2. gr. Síðasta málsgrein orðist svo:
.      Búnaðarsamband er samband búnaðarfélaga á ákveðnu svæði og eftir atvikum einnig búfjárræktarfélaga eða búgreinafélaga.
2.     Við 4. gr. Í stað orðanna „að fenginni umsögn“ í síðari málsgrein komi: með samþykki.
3.     Við 5. gr. Greinin orðist svo:
.      Búfjárræktarnefndir skipuleggja ræktunarstarf vegna einstakra búfjártegunda fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands. Í búfjárræktarnefnd sitja fimm menn og jafnmargir til vara, kosnir til tveggja ára í senn. Búnaðarþing kýs tvo nefndarmenn úr hópi héraðsráðunauta og aðra tvo úr hópi starfandi bænda í búgreininni. Starfi búgreinasamtök, sem ná til landsins alls, hafa innan vébanda sinna að minnsta kosti 2 / 3 starfandi bænda í búgreininni og hafa sett sér búfjárræktarsamþykkt, kjósa þau í stað búnaðarþings tvo bændur í búfjárræktarnefnd búgreinarinnar. Fimmti fulltrúinn er landsráðunautur Búnaðarfélags Íslands í búgreininni (héraðsráðunautur ef landsráðunautur er ekki starfandi), tilnefndur af stjórn þess og er hann formaður nefndarinnar.
.      Heimilt er að ákveða að í búfjárræktarnefnd sé tveimur fulltrúum færra en áskilið er í 1. mgr. eða tveimur fulltrúum fleira ef sérstakar ástæður mæla með. Þó skulu hlutföll haldast óbreytt milli héraðsráðunauta og bænda.
.      Sé starfandi fagráð í búgrein sem bæði viðkomandi búgreinasamtök og Búnaðarfélag Íslands eru aðilar að getur Búnaðarfélag Íslands með samþykki ráðherra falið því verkefni búfjárræktarnefndar í þeirri grein.
4.     Við 6. gr. D-liður orðist svo:
.      Að undirbúa verk- og kostnaðaráætlanir um búfjárræktarstarfið í viðkomandi grein.
5.     Við 8. gr.
. a.     A-liður 2. mgr. verði b-liður, en b-liður verði a-liður.
. b.     Orðin „eða fjárveitingar eru takmarkaðar“ í b-lið 2. mgr. falli brott.
. c.     Á eftir orðinu „ferðakostnað“ í síðustu málsgrein bætist: héraðsráðunauta.
6.     Við 9. gr. Í stað orðanna „sambærileg við laun“ í b-lið komi: jafnháum launum.
7.     Við 11. gr.
. a.     Í stað „0,7%“ í 2 málsl. 1. mgr. komi: 1%.
. b.     Í stað orðanna „stjórn hlutaðeigandi sambands“ í lok 2. málsl. 1. mgr. komi: aðalfundur búnaðarsambands.
8.     Við 12. gr.
. a.     Upphaf 2. mgr. orðist svo:
..      Ríkissjóður greiði árlega framlag er að lágmarki jafngildir 22,5 milljónum króna á verðlagi 1988 til búfjárræktarstarfa á grundvelli búfjárræktarsamþykkta, sbr. 7. gr. Búnaðarfélag Íslands skilar verk- og kostnaðaráætlun komandi árs o.s.frv.
. b.     Við bætist ný málsgrein er hljóði svo:
..      Á framlög þau, er ákveðin eru í þessari grein, skal greiða verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu er sýni breytingar á tilkostnaði framkvæmda frá meðalkostnaði þeirra á árinu 1988. Hagstofa Íslands ákveður grundvöll vísitölu þessarar í samráði við Búnaðarfélag Íslands og reiknar hana síðan árlega miðað við meðalkostnað hvers árs.
9.     Við 16. gr.
. a.     Í stað orðanna „genbankanefnd Íslands fyrir búfé“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: erfðanefnd búfjár.
. b.     Í stað orðsins „genbankanefndar“ í 2. mgr. komi: nefndarinnar.
. c.     Í stað orðsins „genbankanefndar“ í síðustu málsgrein komi: erfðanefndar búfjár.
10.     Við 19. gr. Í stað „60–63. gr.“ komi: 60.–62. gr.
11.     Fyrirsögn III. kafla orðist svo: Um verndun erfðaeiginleika í íslensku búfé og um útflutning búfjár.