Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 470 . mál.


Sþ.

1088. Nefndarálit



um till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg.

Frá minni hl. fjárveitinganefndar.



    Nefndin varð eigi sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. vill samþykkja tillöguna að mestu óbreytta, en undirritaðir nefndarmenn flytja breytingartillögur á sérstöku þingskjali.
    Minni hl. er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að athuga það mjög vandlega hvaða möguleikar séu til þess að koma betri og hagkvæmari skipan á húsakost Alþingis heldur en nú er. Flestir virðast þó sammála um að slíkar ráðstafanir, sem mundu felast í kaupum eða leigu á auknu húsnæði, væru aðeins hugsaðar til bráðabirgða, e.t.v. sem svaraði einum áratug. Að þeim tíma liðnum telja flutningsmenn tillögunnar, þ.e. forsetar Alþingis, líklegt að hægt verði að taka í notkun hentuga nýbyggingu fyrir þá starfsemi Alþingis sem nú fer fram í sjö húsum utan Alþingishússins. Miðað við bráðabirgðaráðstafanir af þessu tagi er enn meiri ástæða til en ella að stofna ekki til óhóflegs kostnaðar.
    Hugmyndin um að kaupa Hótel Borg er vissulega ein af þeim leiðum sem til greina koma í framangreindum tilgangi. Við, sem að þessu nefndaráliti stöndum, erum þó andvíg því að í þau kaup verði ráðist nú og án frekari athugunar.
    Í fyrsta lagi er hér um dýra bráðabirgðalausn að ræða. Þó að húsið sjálft verði ekki talið dýrt, ef nota ætti til frambúðar, er það dýrt til þess að leysa mál til bráðabirgða. Auk þess er afar ólíklegt að kostnaður við breytingar og endurbætur á húsinu verði eigi meiri en 60 millj. kr. Líklegra er að sá kostnaður verði miklu meiri.
    Í öðru lagi eru fleiri möguleikar til þess að leysa húsnæðisþörf Alþingis og koma hagkvæmara skipulagi á starfsemi þess. Þeir möguleikar eru a.m.k. taldir vera við Vonarstræti, Pósthússtræti og Austurstræti og e.t.v. víðar í næsta nágrenni Alþingishússins. Þessa kosti hefur ekki verið litið á, en þá þarf að athuga og bera saman kostnað, notagildi og hagkvæmni.
    Í þriðja lagi hefur borgarráð Reykjavíkur lýst áhyggjum sínum yfir
hugmyndum um að leggja niður hótelrekstur í miðborg Reykjavíkur með hugsanlegum kaupum Alþingis á Hótel Borg. Eðlilegt er að taka tillit til vilja borgaryfirvalda í Reykjavík, eftir því sem fært er, þótt vafasamt sé að afstaða borgarráðs geti ráðið úrslitum ef um brýna hagsmuni Alþingis er að ræða.
    Við leggjum því til að nú verði forsetum Alþingis falið að kanna hvaða möguleikar kunni að vera til þess að koma við aukinni hagkvæmni í húsnæðismálum Alþingis með leigu eða kaupum á húsnæði í grennd Alþingishússins og skila um það skýrslu til formanna allra þingflokka á næsta haustþingi. Þar verði gerð grein fyrir þeim kostum sem mögulegir séu og þeir bornir saman m.a. með tilliti til stofnkostnaðar, hagkvæmni í rekstri og notagildis. Enn fremur hvað af núverandi húsnæði Alþingis megi rýma og hvernig ýmsir kostir gætu haft áhrif á starfshætti í sjálfu Alþingishúsinu.
    Hér er lagt til að Alþingi vandi vinnubrögð varðandi sín eigin húsnæðismál. Við lýsum andstöðu við að flaustrað sé ákvörðunum um kaup á Hótel Borg án þess að aðrir kostir séu athugaðir. Eigi verður séð að þessum málum verði stefnt í nokkra hættu, nema síður sé, þótt ákvörðun dragist til haustþingsins. Vafasamt er einnig að um nokkra frestun málsins sé að ræða í raun því að í fjárlögum þessa árs er ekki gert ráð fyrir neinu fé til kaupa á húsnæði fyrir Alþingi eða til breytinga og endurbóta á slíku húsnæði.
    Við undirrituð leggjum því til að mál þetta verði afgreitt á þann hátt að tillögugreininni verði breytt eins og fram kemur í breytingartillögum okkar á þskj. 1089.

Alþingi, 7. maí 1989.



Pálmi Jónsson,

Alexander Stefánsson.

Málmfríður Sigurðardóttir.


frsm.



Egill Jónsson.