Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 503 . mál.


Sþ.

1113. Skýrsla



um tryggingar Landsbanka Íslands vegna skulda Sambands íslenskra samvinnufélaga, samkvæmt beiðni Guðmundar

    Með bréfi dags. 6. þ.m. er Ríkisendurskoðun send beiðni um skýrslu um tryggingar Landsbanka Íslands vegna skulda Sambands ísl. samvinnufélaga, sbr. þskj. 1068.
    Enda þótt Ríkisendurskoðun hafi, sbr. lög nr. 12/1986, fullan aðgang að öllum gögnum Landsbanka Íslands var stjórn bankans og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands skrifað bréf og beðið um upplýsingar varðandi málið. Svör þessara aðila eru á fskj. I–II.
    Ríkisendurskoðun er sammála því sjónarmiði er fram kemur í bréfunum að óheimilt sé að skýra opinberlega frá stöðu einstakra viðskiptavina bankans. Við endurskoðun á ársreikningi Landsbanka Íslands fyrir árið 1988, en Ríkisendurskoðun er aðili að þeirri endurskoðun, var ekki gerð athugasemd vegna trygginga bankans fyrir skuldum Sambands ísl. samvinnufélaga.
    Með bréfi þessu telur Ríkisendurskoðun sig svara þeirri beiðni er fram kemur á þskj. 1068, að svo miklu leyti sem heimilt er.

Halldór V. Sigurðsson.



                                                          —————-
                                                          Sig. Þórðarson.




Fylgiskjal I.


Bréf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til Ríkisendurskoðunar.


(8. maí 1989.)



    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur móttekið bréf yðar, dags. 8. þ.m., þar sem Ríkisendurskoðun óskar eftir því að bankaeftirlitið veiti stofnuninni þær upplýsingar, ef fyrir hendi eru, er varða viðskipti Landsbanka Íslands og Sambands ísl. samvinnufélaga. Er sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort fullnægjandi tryggingar séu fyrir hendi hjá bankanum vegna viðskipta hans við Samband ísl. samvinnufélaga að mati bankaeftirlitsins. Ósk yðar er sett fram vegna beiðni níu alþingismanna um skýrslu Ríkisendurskoðunar um tryggingar Landsbanka Íslands vegna skulda Sambands ísl. samvinnufélaga sem lögð var fram á Alþingi, þskj. 1068. Í bréfi yðar er vísað til laga um Seðlabanka Íslands sem fjalla m.a. um hlutverk bankaeftirlitsins.
    Á grundvelli IV. kafla laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, gerði bankaeftirlitið á árinu 1988 sérstaka athugun á nokkrum þáttum í rekstri og efnahag Landsbanka Íslands miðað við stöðu efnahagsliða pr. 31.12.1987. Meðal þess sem athugað var sérstaklega voru lánveitingar bankans til stærstu lánþega hans og greiðslustryggingar vegna þeirra lána. Athugun var gerð á grundvelli upplýsinga frá Landsbankanum með tilvísun til lánareglna bankans sem settar eru á grundvelli 21. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka.
    Meðal þeirra lánþega, sem féllu undir athugun bankaeftirlitsins, var Samband ísl. samvinnufélaga. Upplýsingar Landsbankans og mat á tryggingum vegna viðskiptanna við þann lánþega gáfu þá ekki tilefni til athugasemda af hálfu bankaeftirlitsins.
    Að gefnu tilefni, vegna framangreindrar fyrirspurnar, vill bankaeftirlitið ítreka sérstaklega ákvæði 38. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, um þagnarskyldu starfsmanna bankans. Að öðru leyti en því sem leiðir af tilvitnuðu ákvæði getur bankaeftirlitið ekki veitt upplýsingar um málefni sem falla undir eftirlit þess samkvæmt lögum.

Virðingarfyllst,



Þórður Ólafsson.

Jóhann Albertsson.






Fylgiskjal II.


Bréf Landsbanka Íslands til Ríkisendurskoðunar.


(8. maí 1989.)



    Vegna bréfs yðar, dags. í dag, vill Landsbanki Íslands taka fram að hann telur sér óheimilt, með vísun til laga, að gera heyrinkunna stöðu einstakra viðskiptavina við bankann.
    Hins vegar er bankinn að sjálfsögðu reiðubúinn að ræða við Ríkisendurskoðun um hvaðeina er bankann varðar og í framhaldi af því gefa henni allar upplýsingar sem hún kynni að óska eftir.

Virðingarfyllst,



Sverrir Hermannsson.

V. Arnþórsson.