Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 499 . mál.


Ed.

1125. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir vegna kjarasamninga.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir vegna kjarasamninga er í samræmi við þá efnahags- og atvinnustefnu sem fylgt hefur verið og felst í hallarekstri fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum.
    Frumvarpinu fylgja afrit af bréfum forsætisráðherra til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaga og til Alþýðusambands Íslands. Margt er kunnugt í bréfum forsætisráðherra en um einstaka efnisþætti á það við að þeir verða ekki metnir fyrr en úr því fæst skorið hvort og hvernig úr efndum verður. Sumir af þessum minnispunktum hafa gengið aftur í öllum yfirlýsingum sem ríkisstjórnin hefur gefið í tilefni af endurteknum efnahagsaðgerðum.
    Í fylgiskjali endurtekur forsætisráðherra fyrri yfirlýsingar sínar um að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum. Við 1. umr. gaf forsætisráðherra yfirlýsingu um að „gengið mun að sjálfsögðu síga eitthvað á næstu vikum til þess að ná þeirri samkeppnisstöðu sem heitið er“. Þá er í 1. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins fái heimild fyrir lántöku að fjárhæð 400 millj. kr. vegna frystra afurða, en ekki er ljóst hvort fyrirheit hafi verið gefið um að lánið endurgreiðist úr ríkissjóði eins og gert var sl. haust. Að öðru leyti liggur ekki fyrir hvernig rekstrarstaða sjávarútvegsins verður bætt, en hann hefur verið rekinn með verulegum halla.
    Í yfirlýsingu forsætisráðherra er ekki vikið sérstaklega að þeim erfiðleikum sem samkeppnisiðnaðurinn á í, en hann býr nú við minnkandi markaðshlutdeild. Er þessi þögn dæmigerð fyrir það skilningsleysi sem iðnaðurinn hefur átt að mæta í ríkisstjórninni. Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að rekstrarlegt umhverfi iðnaðarins sé vel viðunandi og batnandi með hliðsjón af þeim breytingum sem nú eru að verða á helstu samkeppnismörkuðum.
    Efling innlends iðnaðar er ríkur þáttur í nauðsynlegum aðgerðum til að halda uppi sómasamlegum lífskjörum og skapa svigrúm fyrir það unga fólk sem kemur inn á vinnumarkaðinn frá ári til árs.
    Með frumvarpinu er lagt til að fella niður sumt af þeim sköttum sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir að lögfestir væru á jólaföstu. Það er lýsandi fyrir tregðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að dagsetningum á lækkun skattanna, svo sáralítil sem hún er miðað við allar hækkanirnar, er dreift fram eftir árinu eða dregnar til næsta árs. Sjálfsagt er, bæði til að koma í veg fyrir mismunun og til að valda sem minnstri röskun í atvinnulífinu, að skattalækkanir þær sem tillaga er gerð um í frumvarpinu komi til framkvæmda um leið og frumvarpið verður samþykkt sem lög frá Alþingi. Minni hl. flytur brtt. í samræmi við það. Þótt hér sé um kákaðgerðir að ræða verða þær líklega að teljast spor í áttina. Minni hl. mun því greiða fyrir afgreiðslu málsins.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir hefur setið fundi nefndarinnar og er samþykk nefndaráliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 10. maí 1989.



Halldór Blöndal,

Ey. Kon. Jónsson.

Júlíus Sólnes.


frsm.