Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 399 . mál.


Sþ.

1178. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn frá Inga Birni Albertssyni og Hreggviði Jónssyni um málefni Ölduselsskóla.

1.     Hvernig var staðið að könnun þeirri er ráðuneytið lét gera á samstarfsörðugleikum skólastjóra Ölduselsskóla annars vegar og kennara við skólann og for eldra barna þar hins vegar?

    Deilurnar í Ölduselsskóla áttu sér aðdraganda allt frá því í fyrravor þegar Áslaug Friðriksdóttir sagði starfi sínu lausu sem skólastjóri Ölduselsskóla. Það gerðist með bréfi dags. 28. mars 1988. Staða skólastjóra var auglýst 8. apríl í Ríkisútvarpinu ásamt fleiri skólastjórastöðum. Umsóknarfrestur um stöðuna var til 6. maí.
    4. maí er dagsett áskorun kennararáðs Ölduselsskóla á menntamálaráðherra að setja Reyni Daníel Gunnarsson í stöðuna.
    9. maí er lögð fram í fræðsluráði Reykjavíkur áskorun 59 starfsmanna Ölduselsskóla til stuðnings umsókn Reynis Daníels um stöðuna.
    16. maí er sama skjal lagt fram í fræðsluráði og hafa þá sjö starfsmenn Ölduselsskóla bæst við á áskorendalistann.
    12. maí er lagt fram í fræðsluráði bréf frá foreldrum barna í Ölduselsskóla þar sem skorað er á fræðsluyfirvöld að veita Reyni Daníel stöðuna. Í skjali því sem foreldrarnir undirrituðu segir meðal annars:
    „Árið 1985 var ráðinn nýr yfirkennari að Ölduselsskóla og valdist til starfsins einn af kennurum skólans, Daníel Gunnarsson. Daníel var mjög vinsæll kennari og hafði lengi séð um tómstundasstarf nemenda. Sem yfirkennari hefur Daníel verið mjög vel látinn bæði af nemendum og kennurum og samstarf hans við foreldra barna í skólanum hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Greinilegt er að í Ölduselsskóla er góður starfsandi. Þessi góði starfsandi stafar af því að samstarf skólastjóra, yfirkennara og kennara er mjög gott.“
    Þrátt fyrir þetta ákvað meiri hluti fræðsluráðs Reykjavíkur að ganga gegn eindregnum vilja íbúa hverfisins og starfsmanna skólans. Það gerðist á fundi fræðsluráðs 16. maí 1988. Fulltrúar kennara í fræðsluráði, Jóhannes Pétursson
og Ólöf Arngrímsdóttir, gagnrýndu harðlega afstöðu meiri hluta fræðsluráðsins í sérstakri bókun á sama fundi ráðsins. Málið var einnig sent til umsagnar fræðslustjórans í Reykjavík sem gerði ekki upp á milli umsækjenda, Sjafnar Sigurbjörnsdóttur og Reynis Daníels Gunnarssonar. En í bréfi fræðslustjórans var lögð á það sérstök áhersla að starfshættir í Ölduselsskóla „


    
hafa verið til fyrirmyndar ... Foreldrar hafa aldrei haft samband við fræðslustjóra til að kvarta undan einu né neinu ...“ Og að lokum sagði fræðslustjóri: „Ég hlýt að vona að hið farsæla skólahald megi ríkja áfram í Ölduselsskóla.“
    Daginn eftir fund fræðsluráðs kom starfsfólk Ölduselsskóla saman til fundar og lýsti vonbrigðum sínum með afstöðu meiri hluta fræðsluráðs. Þar var skorað á menntamálaráðherra að setja Reyni Daníel til starfans.
    Sama dag lét stjórn Félags yfirkennara og skólastjóra til sín taka og ritaði menntamálaráðherra bréf 17. maí 1988. Þar er fullyrt að Sjöfn Sigurbjörnsdóttir hafi ekki starfað við grunnskóla í 13 ár og að hún hafi ekki réttindi til starfans. Er skipun hennar til framhaldsskóla talin „umdeilanleg“. „Ölduselsskóli er með stærstu grunnskólum landsins og væri það með algerum einsdæmum ef starfsmaður sem enga kennaramenntun hefur yrði settur þar í stöðu skólastjóra ... Félagið lítur það að sjálfsögðu einnig mjög alvarlegum augum þegar starfsmenn sem hafa reynst frábærir í verkum sínum eru settir hjá vegna stjórnmálaskoðana sinna.“ (Úr bréfi Félags skólastjóra og yfirkennara, dags. 17. maí 1988.)
    23. maí er dagsett bréf til menntamálaráðherra frá foreldrum 759 barna sem rituðu undir áskorun á ráðherrann um að setja Reyni Daníel í stöðu skólastjóra. Hér var um að ræða 92,3% foreldra allra barna í skólanum og 94,8% foreldra þeirra sem til náðist.
    Stjórn Kennarasambands Íslands fjallaði um málið á fundi sínum 27. maí og komst að þessari niðurstöðu:
    „Í ljósi þess sem á undan er rakið beinir stjórn Kennarasambands Íslands því til yðar, herra menntamálaráðherra, að veita Reyni Daníel stöðu þá sem hann hefur sótt um.“
    Stjórn Foreldrafélags Ölduselsskóla skrifaði menntamálaráðherra enn áskorunarbréf 1. júní og ítrekaði afstöðu sína og foreldranna sem fram hafði komið í undirskriftasöfnuninni.
    Þrátt fyrir þessi eindregnu tilmæli allra starfsmanna skólans, nær allra foreldra barnanna við skólann, Félags skólastjóra og yfirkennara og Kennarasambands Íslands ákvað ráðherra að setja Sjöfn Sigurbjörnsdóttur skólastjóra við Ölduselsskóla. Þar með var ljóst að hún var sett í verulegan
vanda andspænis þessari eindregnu afstöðu allra þeirra sem fjalla um þessi mál nema meiri hluta fræðsluráðs Reykjavíkur.
    Eitt fyrsta embættisverk Sjafnar var ráðning yfirkennara. Kaus hún að ráða til verksins kennara án samráðs við kennararáð skólans. Þessi niðurstaða vakti strax deilur í fræðsluráði Reyjavíkur. Eftir ráðningu yfirkennarans kom til deilna innan skólans sem meðal annars leiddu til alvarlegra átaka milli skólastjórans og eins kennara skólans.
    24. september skrifuðu foreldrar barna í 3. bekk HÞ bréf til menntamálaráðherra, fræðslustjórans í Reykjavík og fræðsluráðs þar sem kennari bekkjarins hafði séð sig tilknúinn til þess um stundarsakir að hætta störfum.
    17. október skrifaði kennararáð skólans menntamálaráðherra bréf og rakti þar meðal annars aðdraganda málsins. Í bréfinu segir m.a.: „... aldrei í sögu skóla á Íslandi hafa íbúar skólahverfis sýnt málefnum skóla eins mikinn og virkan áhuga.“ Í bréfi kennararáðs kemur meðal annars formlega fram að allt kennararáð skólans hafi sagt af sér „vegna samskiptaörðugleika við skólastjóra“ og voru þá aðeins örfáar vikur liðnar frá því að skólastarf hófst. Lá afsögn kennararáðsins fyrir þegar kom að fyrsta kennarafundinum 27. september. Í kennararáðinu nýja var skorað á menntamálaráðuneytið að hlutast til um málið en þar segir í lok bréfsins frá 17. október: „Við teljum það skyldu ráðuneytisins að aðhafast í þessu máli og bjarga Ölduselsskóla frá niðurníðslu.“
    21. október kom skólastjóri Ölduselsskóla á fund í ráðuneytinu og gerði deildarstjóra grunnskóladeildar grein fyrir stöðu mála í skólanum eins og þau horfðu við sér. Þar kom fram að hún teldi tímann til þessa hafa verið erfiðan og ástandið í skólanum sér mótdrægt. 24. október kom kennararáðið til fundar í ráðuneytinu og gerði grein fyrir skoðun sinni á málum skólans. Það var m.a. skoðun kennararáðs að settur skólastjóri ætti að hætta störfum sem allra fyrst. Í framhaldi af þessum fundum í ráðuneytinu var ákveðið að ráðherra kallaði skólastjórann fyrir til fundar. Ráðherra ákvað þrátt fyrir álit kennararáðsmanna að leggja áherslu á að láta reyna á skólastarfið undir forustu Sjafnar til þrautar. Skýrði ráðherra skólastjóra frá þessari skoðun sinni.
    5. desember var lögð fram í fræðsluráði kæra á skólastjórann vegna meints brots á reglugerð um kennarafundi og kennararáð, nr. 184/1976. Fræðsluráð vísaði málinu til fræðslustjóra og fræðslustjóri vísaði málinu til menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið aðhafðist ekkert í málinu en lagði áherslu á að reynt yrði að stuðla að jákvæðri þróun innan skólans.
    13. desember skrifar kennararáðið fræðslustjóranum í Reykjavík ítarlegt bréf, en 9. desember hafði skólastjóri gert skriflega grein fyrir skoðun sinni á þróun mála í skólanum. Í bréfi kennararáðs frá 13. desember er m.a. bent á að skólastjórinn hafi kosið að halda áfram kennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti með skólastjórastarfinu sem skólastjórinn taldi á engan hátt óeðlilegt. Bréfinu lauk með þessum orðum: „Það er kominn tími til að þessu ástandi linni og er það krafa okkar að skólayfirvöld grípi inn í gang mála sem allra fyrst.“
    Foreldraráð skólans kom saman til fundar 13. desember og gerði samþykkt sem lauk á þessum orðum:
    „Fulltrúaráðið sér því ekki annað fært en að óska eftir því við menntamálaráðuneytið að það taki málið til athugunar til að firra frekari vandræðum.“
    15. desember var fjallað um þessi mál í fræðsluráði og var þeim vísað til fræðslustjóra. Fulltrúar kennara í ráðinu sögðu í bókun sinni að það væri „... eðlileg krafa að skólayfirvöld grípi inn í og leiti lausna hið allra fyrsta“. Fræðslustjóri var um þessar mundir í veikindaleyfi og var erindi fræðsluráðs því vísað til menntamálaráðuneytisins, sbr. 55. gr. grunnskólalaga.
    Við þessar aðstæður lögðu embættismenn ráðuneytisins til að þess yrði farið á leit við skólastjórann að hún gerði skriflega grein fyrir málinu. Greinargerð frá skólastjóra barst í ítarlegu bréfi hennar, dags. 18. desember, þar sem hún vísaði á bug öllum ásökunum foreldra og kennararáðs. Taldi hún að afstaða kennararáðs fæli í sér „ofsóknir“ í sinn garð.
    2. janúar gerðu embættismenn ráðuneytisins, þau Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri skólamálaskrifstofu, og Sigurður Helgason, deildarstjóri grunnskóladeildar, tillögu til ráðherra um að deiluaðilar yrðu kallaðir fyrir og farið nákvæmlega yfir gang mála og féllst hann á það.
    Á fundi fræðsluráðs 9. janúar var ítarlega fjallað um þessi mál í heild og þar var ákveðið að fela formanni að ræða við skólastjóra Ölduselsskóla, formann foreldrafélagsins og fulltrúa kennararáðs um þau vandamál er þessir aðilar „... telja að uppi séu í skólanum. Formaður geri fræðsluráði grein fyrir þessum viðræðum sínum svo fljótt sem kostur er.“ Á fundi fræðsluráðs var fræðslustjórinn gagnrýndur fyrir að vísa málinu beint til menntamálaráðuneytis, sbr. það sem áður segir. Meiri hluti fræðsluráðs taldi í sérstakri bókun á þessum fundi að nokkrir kennarar hefðu staðið fyrir „stanslausum árásum“ á skólastjórann. Taldi meiri hlutinn að hér væri um „lágkúrulega niðurrifsstarfsemi“ að ræða. Væri hér á ferðinni
"niðurrifsstarfsemi og undirróður nokkurra kennara“ sem „... því miður hefði fengið einhvern stuðning innan stjórnar foreldrafélags Ölduselsskóla og fulltingi eins fulltrúa í fræðsluráði“. Þá er sérstakri gagnrýni beint gegn fulltrúum kennara í fræðsluráði sem hafi tekið undir með þeim sem gagnrýna skólastarfið í Ölduselsskóla.
    Formaður fræðsluráðs hóf síðan viðræður um málið við þá aðila sem nefndir voru fyrr og skilaði hann álitsgerð 16. janúar með von um að skólastarf yrði eðlilegt í skólanum.
    Í lok mánaðarins skrifaði stjórn Foreldrafélagsins til ráðuneytisins og fullyrti að 17 kennarar mundu láta af störfum við skólann ef það ástand, sem ríkt hefði að undanförnu, héldi áfram.
    Er þá komið að niðurstöðunum sem spurt er um í fyrsta tölulið fyrirspurnarinnar: Könnunin fólst í því að áðurnefndir embættismenn ráðuneytisins ræddu við alla deiluaðila og aðra frá 2. janúar þegar hin sérstaka könnun þeirra hófst. Var rætt við fjölda aðila innan skólans og utan um ástæður erfiðleikanna. Rætt var við skólastjóra, kennara, kennararáð, stjórn kennarafélagsins, fyrrverandi skólastjóra og yfirkennara, hjúkrunarfræðing skólans, húsvörð og svo nokkra kennara sem ekki áttu eða eiga sæti í forustusveit kennara skólans. Í þessum viðtölum komu fram þau efnisatriði sem hér hafa að nokkru verið rakin auk fjölmargra annarra þátta sem ekki verða teknir upp hér þar sem varða margvísleg persónuleg matsatriði sem ekki er við hæfi að tína til í skýrslu af þessu tagi.

2.     Hverjar voru niðurstöður könnunarinnar?

    Niðurstöður könnunarinnar voru sem hér segir (lokaorð skýrslu þeirra embættismanna sem unnu að könnun þessari):
    „Af ofangreindu er ljóst að skólastarf í Ölduselsskóla hefur ekki verið með eðlilegum hætti á yfirstandandi skólaári og virðist ágreiningur vera það mikill að um varanlegar sættir geti ekki orðið að ræða þannig að komið verði í veg fyrir að 17 kennarar hverfi frá skólanum. (Skrifleg yfirlýsing frá þessum 17 kennurum lá þá fyrir. — Innskot ráðuneytis.)
    Ráðuneytið stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að 17 reyndir kennarar munu hverfa frá skólanum nú í vor verði núverandi skólastjóri endurráðinn. Er það mat okkar að sú röskun á skólastarfinu, sem brottför þeirra veldur, sé meiri en við verði unað. Teljum við því óhjákvæmilegt að staða skólastjóra Ölduselsskóla verði auglýst laus frá 1. ágúst næstkomandi. Viljum við taka
fram að með þessari tillögu leggjum við ekki mat á hæfni Sjafnar Sigurbjörnsdóttur til að gegna skólastjórastarfi.“

3.     Hver er ástæða þess að ráðherra hefur ákveðið að auglýsa skólastjórastöðuna lausa til umsóknar?

    Svarið við þessari spurningu er raunar þegar komið fram. Það var ekkert annað hægt að gera. Gat ráðherra dregið birtingu auglýsingarinnar? Það var erfitt vegna þess að fjöldi kennara ýmist hafði eða hefði þá ráðið sig annars staðar og sagt upp störfum með uppsögn sem lögð hefði verið inn í skólann fyrir lok marsmánaðar. Það var því miður enginn annar kostur. Skólastarfið allt hafði liðið fyrir þann ágreining sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Því varð að linna. Að mati embættismanna ráðuneytisins voru varanlegar sættir ekki taldar mögulegar. Þess vegna varð að taka ákvörðun um að auglýsa stöðuna.