Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál þó að margt hafi þegar verið um það sagt. Það kann að vera að ekki sé þörf að binda það í lögum sem hér er lagt til. Hins vegar held ég að málið sé af hinu góða, ekki síst vegna þess að það vekur umræðu og efni þess hvetur heimamenn til meiri þátttöku og jafnframt til meiri ábyrgðar á ferðaþjónustu, en enginn vafi leikur á því að það er ein af framtíðaratvinnugreinum bæði í dreifbýli og þéttbýli. Þá á ég við hvar þjónustan er veitt og hvar hún er skipulögð.
    Það er enginn vafi á því að ferðaþjónusta bænda, sem hér hefur verið minnst á, er nýbreytni sem nýtur vaxandi vinsælda. Sjálf hef ég reynt hana ítrekað og ber henni afar gott orð. Ég er viss um að útlendingar kunna mjög vel að meta slíka gistingu og telji sig á þann hátt komast í nánari snertingu við fólkið í landinu og lífshætti þess. Þannig má t.d. stofna til vináttukynna sem eru þeim jafnvel meira virði heldur en hefðbundin ferðalög sem fela í sér gistingu á hótelum. Á ferðum mínum og annarra kvennalistakvenna um landið í sumar, bæði í vor og svo aftur í haust, þá var það ítrekað æ ofan í æ í hverju byggðarlaginu á fætur öðru hversu fábreytni atvinnuhátta úti á landi er knýjandi vandi, vandi sem vex og hvetur til þess að fólk streymir hingað á suðvesturhornið. Það gildir nefnilega það sama úti á landi og hér í Reykjavík. Það þarf tvo til að framfleyta fjölskyldunni. Mig langar til að minna hv. þm. á það að fábreytni atvinnuhátta úti á landi bitnar ekki síst á konum og ef konurnar hafa ekki tök á því að vinna fyrir heimilinu eins og mennirnir, þá eru miklu ríkari ástæður til þess og líklegra að fjölskyldan flytjist í burtu. Ferðaþjónusta í víðum skilningi skapar fjölbreytt störf, ekki síst fyrir konur. Þess vegna tel ég að hún geti stuðlað að því að byggð haldist sem víðast um landið því það hlýtur að vera markmið okkar allra að vilja halda sem stærstum hluta landsins í hagkvæmri byggð, þ.e. byggð sem er hagkvæm fyrir fólkið í landinu. Ég held því að erindi þessa frv. sé af hinu góða og geti vakið upp hvetjandi umræður og aukna virkni, ekki síst heima í héraði. Það er auðvitað líka af hinu góða að málið sé rætt hér og ef það verður til þess að styrkja stöðu ferðaþjónustunnar úti á landi að binda þetta í lög, þá tel ég að betur sé af stað farið en heima setið og ég vil lýsa stuðningi við erindi þessa frv.