Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum, en till. þessi er á þskj. 12, 12. mál þessa þings. Flm. að tillögunni ásamt mér eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hafa frumkvæði að því að kveðja hið fyrsta saman alþjóðlega ráðstefnu til að ræða um afvopnun á höfunum og undirbúa samningaviðræður með sérstöku tilliti til kjarnorkuafvopnunar á norðurhöfum. Jafnframt verði leitað eftir því við ríki sem eiga kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúin skip í norðurhöfum að þau takmarki umferð þeirra í grennd við Ísland og að aðrar tiltækar ráðstafanir verði gerðar til að bægja frá hættu af geislamengun vegna slysa og óhappa.``
    Þetta er efni þessarar þáltill. Hún var flutt seint á síðasta þingi í framhaldi af því að tíðindi bárust um veruleg óhöpp í norðurhöfum til viðbótar við það sem áður hafði fram komið í kjarnorkukafbátum, þar sem sovéskur kjarnorkukafbátur fórst í Norður-Íshafi suðvestur af Bjarnarey þann 7. apríl og með honum 40 sjóliðar. Þetta kjarnorkuslys minnti á þá stórfelldu hættu sem auðvitað hefur fyrir löngu verið ljós Íslendingum og öðrum þjóðum við norðanvert Atlantshaf og alveg sérstaklega þeim sem byggja efnahag sinn á sjávarauðlindum er búin af umferð kjarnorkuknúinna skipa, kafbáta þar með talinna og skipa með kjarnorkuvopn innanborðs.
    Þetta mál var tekið hér upp á Alþingi í svipuðu formi fyrir einum 2--3 árum þegar hv. þm., nú hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson flutti þáltill. um það að ríkisstjórn væri falið að efna til alþjóðaráðstefnu þar sem tekið yrði á undirbúningi að því að hrinda af stað afvopnunarviðræðum varðandi kjarnorkubúnað í norðurhöfum. Frá því að það mál var upp tekið á sínum tíma hefur enn frekar komið í ljós hversu knýjandi það er fyrir okkur Íslendinga að taka frumkvæði í þessum málum og beita okkur með öllu afli hvarvetna á alþjóðavettvangi þar sem við getum ýtt á eftir kjarnorkuafvopnun, stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar auðvitað og afvopnun með skipulegum hætti. Um þetta fjallar tillagan. Með henni er ríkisstjórninni falið frumkvæði í þessum málum.
    Nú er sjálfsagt að halda því til haga sem getið er um í greinargerð með þessari tillögu að bæði forsrh. og utanrrh. Íslands hafa á undanförnum árum lagt á það áherslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sérstaklega að afvopnun á höfunum sé sérstakt áhugamál Íslendinga og hafa lýst áhyggjum yfir þróun í gagnstæða átt.
    Núv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hefur tekið afvopnun á höfunum upp á alþjóðavettvangi auk þess að minna á málið rækilega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur tekið á því m.a. innan Atlantshafsbandalagsins en ekki fengið þær

undirtektir við óskum íslenskra stjórnvalda um þetta efni sem æskilegt væri og nauðsyn krefur.
    Ég þarf hér ekki, virðulegur forseti, að fjölyrða um eðli þeirrar hættu sem við búum við að þessu leyti. Ég ætla ekki að taka tíma í að ræða það sérstaklega svo augljós sem hún hlýtur að vera öllum Íslendingum. Hitt vildi ég ræða nokkru nánar hver staðan er í þessum efnum, hvar hindranir og fyrirstaða virðast vera gegn því að tekið sé á afvopnun á höfunum varðandi kjarnorkubúnað í afvopnunarviðræðum milli stórvelda, en þess sér lítinn stað nema í sambandi við stýriflaugar og slíkan búnað í kafbátum sem eru ekki útilokaðar sem viðfangsefni í sambandi við START-viðræðurnar svokölluðu. Það hefur hins vegar komið fram mjög ótvírætt á undanförnum árum að það eru Bandaríkin öðrum fremur sem forusturíki í NATO sem hafa ekki viljað taka afvopnun á höfunum með inn í afvopnunarviðræður risaveldanna. Þetta er ekkert umdeilt atriði. Þetta liggur fyrir og hefur verið staðfest margoft á sama tíma og hitt risaveldið, Sovétríkin, hafa ítrekað lýst áhuga sínum og vilja til þess að kjarnorkuafvopnun á höfunum verði felld inn í afvopnunarferli milli risaveldanna. Ég gæti minnt á marga staði þar sem þetta hefur komið fram með ótvíræðum hætti, t.d. í þeirri yfirlitsmynd sem sjónvarpið sýndi á sl. vetri varðandi vígbúnaðarmál, en Albert Jónsson, starfsmaður Öryggismálanefndar, hafði hönd í bagga um gerð hennar. Þar kom þetta fram með skýrum og ótvíræðum hætti, m.a. af hálfu yfirmanna Atlantshafsbandalagsins.
    Það hefur líka komið fram nú nýlega á vettvangi þingmannasamtaka sem Íslendingar eru aðilar að, þ.e. Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins, að áhuginn á kjarnorkuafvopnun hjá risaveldinu í austri er áframhaldandi og verulegur en ekki undir það tekið eins og þyrfti að vera af hálfu Bandaríkjanna. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson greinir þannig frá því í viðtali við Morgunblaðið 11. okt. sl. að hann hafi beint fsp. á vettvangi Þingmannasamtaka NATO til sovésks hershöfðingja um þessi efni og frásögn Morgunblaðsins sem ég leyfi mér að vitna hér til er með þessum hætti:
    Eftir ræðuhöldin, (þ.e. á þessum vettvangi þingmanna Atlantshafsbandalagsins) lagði Guðmundur fram fyrirspurn til Lobovs
hershöfðingja. ,,Hann sagði í ræðu sinni að Sovétríkin væru mjög ákveðin í því (þetta er tilvitnun í mál Guðmundar) að hrinda í framkvæmd afvopnun, sérstaklega í sambandi við hefðbundin vopn. Einnig sagði hann að það væri mjög þýðingarmikið að til þess að umbótastefnan mætti takast þyrfti slík afvopnun að eiga sér stað. Ég spurði hann því um stefnu hans í uppbyggingu flotans og bætti því við að svo virtist sem Sovétríkin væru sífellt að byggja fleiri kjarnorkukafbáta með miklum tilkostnaði og að sovéski flotinn yrði sífellt athafnasamari á Norður-Atlantshafi``, sagði Guðmundur. ,,Ég spurði hvernig þetta samræmdist stefnu hans í afvopnun og hinni nýju umbótastefnu. Lobov (þetta er frásögn

Morgunblaðsins) svaraði því til að hann væri reiðubúinn að skýra flotastefnu Sovétríkjanna í löngu máli. Síðan sagði hann að Sovétríkin væru langt á eftir Bandaríkjunum, sérstaklega hvað varðaði kafbáta og flugmóðurskip. Hann sagði að Bandaríkin ættu þrisvar sinnum fleiri kafbáta auk flugmóðurskipa, en Sovétríkin ekkert. Og hann sagði jafnframt að engin stefnubreyting hefði orðið hjá Sovétmönnum um eflingu sovéska flotans, en þeir væru ávallt reiðubúnir til hugsanlegra viðræðna um afvopnun á höfunum.
    Galvin hershöfðingi taldi þetta mál of yfirgripsmikið til að ræða um það á stuttum fundi en vildi vekja athygli á að ekki væri hægt að leggja málið fyrir eins og Lobov hefði gert. (Galvin hershöfðingi er sá bandaríski.) Menn yrðu að hafa í huga að Vestur-Evrópa og Bandaríkin væru háð Atlantshafinu og ef eitthvað kæmi upp á yrðu þau að hafa sitt öryggi og sitt vald á þessu svæði með sambærilegum hætti og Sovétríkin hefðu í Asíu og Austur-Evrópu.
    Varðandi viðræður um afvopnun á höfunum væri ekki hægt að taka Norður-Atlantshafssvæðið út úr, heldur yrði að fjalla um mörg svæði þegar rætt væri um afvopnun.``
    Þetta læt ég nægja sem tilvitnun í þessa frásögn Morgunblaðsins, en hv. þm. er hér viðstaddur og getur kannski varpað frekara ljósi á það sem þarna kom fram.
    Ég vísa einnig til upplýsinga sem fram hafa komið, það mat vestrænna afla að um aukningu sé að ræða í sambandi við kafbátaflota Sovétríkjanna. M.a. verði fjölgað kafbátum sem þeir hleypi af stokkunum á þessu ári og vitnað til árásarkafbáta og gagneldflaugakafbáta í því sambandi. Þetta er auðvitað mikil öfugþróun og mjög slæm þróun og þeim mun brýnna er það að sjálfsögðu að knúið verði á um að þessir þættir verði teknir inn í afvopnunarviðræður. Og þegar fyrir liggja yfirlýsingar um það, ítrekaðar af hálfu Sovétmanna sem standa fyrir þessum aukna vígbúnaði á höfunum. Hvers vegna í ósköpunum tekur Atlantshafsbandalagið ekki undir í þessum efnum og fellst á það loksins að taka þennan þátt mála inn í afvopnunarferli milli risaveldanna? Það er ekki lengur frambærilegt að vera að vitna sí og æ í stöðuna hjá gagnaðilanum, að ekki megi raska jafnvægi o.s.frv. Menn hafa sem betur fer fyrir sér afvopnunarferlið, þá hreyfingu sem orðið hefur í sambandi við samskipti risaveldanna á undanförnum árum, en þarna liggja höfin eftir. Þetta er sérstakt áhyggjuefni okkar Íslendinga og hlýtur að vera áhyggjuefni okkar allra. Þess vegna er þessi tillaga hér flutt.
    Ég minni jafnframt, virðulegur forseti, á það sjónarmið sem kom fram hjá fyrrv. yfirmanni herliðsins á Keflavíkurflugvelli, McWadons aðmíráls sl. vor, þegar hann kvaddi Ísland og hætti störfum hér, að eftir því sem hermönnum fækkaði á meginlandi Evrópu, eftir því sem miðaði í afvopnun í hefðbundnum herafla á meginlandi Evrópu, þeim mun mikilvægari væri aðstaða Atlantshafsbandalagsins hér á Íslandi. Það var að heyra á þessum yfirmanni

Atlantshafsbandalagsins hér og bandaríska hersins sérstaklega að eftir því sem friðvænlegra yrði og fækkað yrði í herliði á meginlandinu, þeim mun styrkari stöðu teldu Bandaríkin sig þurfa hér á landi. Hér er það bandaríski flotinn sem hefur með höndum yfirstjórn herstöðvanna og það er hann sem stendur fyrir því gagnkafbátaeftirliti og vígbúnaði sem tengist þessu hér á landi. Og það eru auðvitað ekki litlar upplýsingar þegar slíkt mat kemur fram eins og þarna liggur fyrir, að afvopnun í Evrópu þýði að mati Bandaríkjanna sem hafa hér samning við Ísland um þessi efni að auka þurfi hernaðarumsvif og vígbúnað í herstöðvum hér á Íslandi.
    Við sem flytjum þessa tillögu gerum þá kröfu til ríkisstjórnarinnar, og það verða væntanlega margir sem undir það taka, að hún hafi frumkvæði í þessum efnum að kveðja hér til alþjóðlegrar ráðstefnu til að taka á þessum málum og leiti eftir því að ríki sem eiga kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúin skip á Norðurlöndum takmarki umferð þeirra í grennd við Ísland og aðrar ráðstafanir verði gerðar til að bægja frá þeirri geigvænlegu hættu sem vofir yfir okkur hvern dag að óbreyttu ástandi.
    Ég geri tillögu um það, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu um tillögu þessa verði henni vísað til hv. utanrmn.