Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það vekur athygli mína að hæstv. starfandi utanrrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Ýmsir munu þó hyggja sem svo að ástæða væri til þess að hann fylgdist með umræðu af þessu tagi og gerði e.t.v. Alþingi grein fyrir stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Ég hef það á tilfinningunni að í ýmsu efni hafi þar verið sögð fleiri orð en hægt sé að tengja við raunverulegar athafnir. En ekki síst af þeim sökum hefði verið ástæða til þess að hafa hæstv. starfandi utanrrh. viðstaddan þessa umræðu.
    Við höfum á undanförnum árum upplifað gífurlega breytingu í afvopnunarmálum. Árangur í þeim efnum má fyrst og fremst rekja til stefnu Atlantshafsbandalagsins sem hefur að sönnu verið virkasta friðarbandalag á undanförnum áratugum. Grundvallarstefna þess um staðfestu í varnarmálum samhliða viðræðum um afvopnun hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að menn eru nú að taka stærri skref í afvopnun en flesta hefði dreymt um fyrir fáeinum árum. Þá fór talsvert mikið fyrir friðarhreyfingum af ýmsu tagi sem reyndu að knýja á um breytta stefnu og undanhald frá grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins um staðfestu samhliða viðræðum um afvopnun. Þessar hreyfingar náðu hingað og jafnvel hingað inn á Alþingi þar sem krafist var einhliða afvopnunar og frystingar kjarnorkuvopna.
    Allir sjá nú hversu það hefði verið mikil skammsýni að hlaupa á eftir þeim hugmyndum því að stefna Atlantshafsbandalagsins hefur knúið menn til aðgerða á þessu sviði og því fagna menn mjög hvarvetna í heiminum. Og við Íslendingar hljótum að freista þess að leggja okkar af mörkum í þeirri umræðu sem hér á sér stað. Það skiptir okkur auðvitað miklu máli hvernig ástatt er um vígbúnað í höfunum kringum Ísland, bæði út frá okkar eigin öryggissjónarmiðum og eins vegna umhverfismála.
    Ég hygg að það hafi verið Geir Hallgrímsson, þáv. utanrrh., sem fyrstur íslenskra stjórnmálamanna hóf á alþjóðavettvangi að vekja athygli á þeim brýnu hagsmunum Íslendinga að stórveldin færu að huga að afvopnun í höfunum einmitt með tilliti til þeirrar umhverfisáhættu sem kjarnorkubúnaður í kafbátum getur haft í för með sér og þá ekki síst fyrir fiskveiðiþjóð eins og Íslendinga. Frá því að Geir Hallgrímsson hóf þessa umræðu á alþjóðavettvangi af okkar hálfu hefur henni verið fylgt eftir af öðrum sem til þess hafa haft aðstöðu og ég tel mjög mikilvægt og brýnt að svo verði gert. En að hinu leytinu hlýtur Ísland hér eftir sem hingað til að taka fullan þátt í störfum Atlantshafsbandalagsins og standa við skuldbindingar sínar í þeim efnum. Við höfum fyrir augunum árangurinn af þeirri staðfestu sem Atlantshafsbandalagið hefur sýnt og getum fyrst og fremst treyst því ef þeirri stefnu verður framfylgt að þá náum við raunhæfum árangri í afvopnun með gagnkvæmum samningum þeirra aðila sem í hlut eiga.

    Dæmin sanna og reynslan sýnir að krafan um einhliða aðgerðir af þessu tagi fær ekki staðist og með þeim hætti ná menn ekki árangri. Þetta eru menn víðast hvar að viðurkenna á erlendum vettvangi, jafnvel öflugir stjórnmálaflokkar víða í Evrópu sem höfðu einhliða afvopnun á dagskrá og á stefnuskrám sínum, eru nú að hverfa frá þessum sjónarmiðum, þó að þeirra gæti enn innan Alþb. á Íslandi sem er einhver afturhaldssamasti stjórnmálaflokkur í Evrópu, bæði í utanríkismálum, í afstöðu sinni til alþjóðasamvinnu og stjórnunar efnahagsmála.
    Það er ljóst að Sovétmenn hafa mjög verið að auka vígbúnað sinn í höfunum og kjarnorkuflota sinn í höfunum hér norður af Íslandi. Þess vegna skiptir varnarhlutverk og eftirlitshlutverk Atlantshafsbandalagsins og varnarliðsins hér miklu máli. Það gegnir mikilvægu hlutverki í því að spyrna við fótum. Og því virkara sem eftirlitshlutverk varnarliðsins er því fremur megum við ætla að við náum árangri í þeirri viðleitni að draga úr kjarnorkuvígbúnaði í höfunum í kringum landið. Einmitt þess vegna þurfum við að leggja áherslu á þá grundvallarþætti sem fram til þessa hafa ráðið utanríkis- og varnarstefnu Íslands. Eitt atriði kemur til álita og skoðunar í þessu efni og það eru þær hugmyndir sem hafa verið uppi um varaflugvöll í þeim tilgangi að styrkja eftirlitshlutverkið sem einmitt miðar að því þá að stemma stigu við vaxandi kjarnorkuvígbúnaði Sovétmanna hér í norðurhöfum. Ég hygg að þar sé um mikilvægan þátt að ræða í þeirri viðleitni sem menn almennt eru sammála um að nauðsynleg sé af Íslands hálfu.
    Þjóðviljinn lýsti því yfir sl. vor að Alþb. hefði kveðið niður allar hugmyndir um það að heimila forkönnun og forathugun á þessum varaflugvelli og hugmyndir utanrrh. þar að lútandi hefðu verið brotnar á bak aftur. Utanrrh. lýsti því þá yfir hér í ræðustól á Alþingi ef ég man rétt, eitthvað á þá leið að reynslan mundi skera úr um hvort Alþb. hefði tekist þetta. Nú bendir flest til þess að Þjóðviljinn hafi haft rétt fyrir sér og hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., hafi í þessu efni sem ýmsum öðrum látið undan stefnu og kröfum Alþb. í núv. hæstv. ríkisstjórn, enda hefur formaður Alþfl. lýst því yfir að hann hafi það á tilfinningunni þegar hann heyri Ólaf Ragnar Grímsson tala, hæstv. fjmrh., að þá sé hann að tala við sjálfan sig. Og ýmislegt bendir til þess að einmitt þetta ástand ríki þegar umræður fara fram innan hæstv. ríkisstjórnar um varaflugvöll.
    En nú vil ég inna eftir því hvort það sé í raun og veru svo að hæstv. utanrrh. hafi vegna kröfu frá Alþb. fallið frá þessum hugmyndum. Ég vil inna hv. formann utanrmn. eftir því hvort af hálfu hans og Framsfl. hafi ekki verið gengið eftir því að hæstv. utanrrh. taki ákvarðanir í þessu efni. Ég tel nauðsynlegt að upplýsingar af þessu tagi komi fram við þessa umræðu og áður en lengra verður haldið.