Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram. Það var vissulega þörf á því að fá fram upplýsingar um skipan þessara nefnda hér og ég vil taka undir með hv. 6. þm. Vesturl. og hv. 12. þm. Reykv. sem gerðu athugasemdir við skipan þessara nefnda og það ekki að ástæðulausu.
    Það kom hér fram hjá hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands að hann hefur aðeins séð að sér og hefur hugsað sem svo, æ-jú, ætli það sé ekki gott að bæta við eins og einni konu, við skulum fá hana til að starfa með okkur, og nú er komin ein kona til liðs við þennan fríða flokk og við eigum náttúrlega að vera þakklátar fyrir það. Ég vil taka undir það að þar er vissulega mæt kona á ferðinni og ég efast ekki um að hún munileggja gott af mörkum í störfum þessarar nefndar. En það er ekki hægt annað en gera athugasemdir og furða sig á skipan slíkrar nefndar þar sem hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands hefur talið þörf á að sækja í þessa hugarflugsnefnd einn aðila erlendis frá. Og óneitanlega olli það dálítilli undrun margra Íslendinga. Ég efast ekki um að hér sé um ágætan mann að ræða sem getur komið með góðar hugmyndir, en þetta er nýtt af nálinni og væri fróðlegt að vita með hvaða hætti að kostnaði af störfum slíkrar nefndar verður staðið.