Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Glöggt er gests augað, segir einhvers staðar í málshætti. Þess vegna finnst mér, ef við eigum kost á því að fá gesti að utan til þess að meta okkar stöðu með okkur Íslendingum, engin ástæða til annars en að þiggja það enda sé það okkur að kostnaðarlausu. Og ég er eiginlega hissa á því að það skuli ekki vera starfandi hér nefnd sem er eingöngu skipuð útlendingum til þess að skoða okkar þjóðfélag eða fá jafnvel ráðgjafa til þess að taka það út, meta ýmis verk sem við erum að leggja út í, eins og t.d. Bifreiðaskoðun Íslands, nýja stálbræðslu, eða það sem við höfum þegar byrjað á, eins og loðdýraræktina og fiskeldið. Hefðum við fengið betri og gleggri upplýsingar þá er ekki víst að við hefðum lagt út í ýmis þau verkefni sem núna eru að verða okkur vandamál og þær upplýsingar fáum við aðeins frá rödd reynslunnar, að utan. Jafnframt þurfum við að láta menn héðan leita nýrra leiða erlendis, kynna okkur hvernig aðrar smáþjóðir afla sér tekna, ekki einblína á stórveldin sem búa við allt aðrar stærðir en við, heldur skoða dvergríkin.