Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegur forseti. Ég hefði nú raunar kosið að við þessa umræðu meðan ég verð hér í ræðupontu væri hæstv. landbrh. viðstaddur og það hefði líka verið æskilegt að hæstv. ráðherra Hagstofunnar væri hér við höndina.
    Það voru þung aðvörunarorð sem komu fram í máli síðasta hv. ræðumanns, og ég tel sérstaka ástæðu til þess að leggja á þau áherslu hér, þar sem hann óskaði eftir því að menn mundu nú leggja sig fram við störf í fjvn. og þar gæti tekist góð samvinna svo að ekki hlytust af stórslys við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Það er mikill þungi í þessum orðum og það er líka mikill sannleikur í þeim því að þetta fjárlagafrv. er með þeim hætti að þar eru vissulega margir slysavaldar.
    Hæstv. fjmrh. talaði hér nokkuð um efnahagsmál og í því sambandi hafði hann mörg orð um fyrri ákvarðanir Sjálfstfl. og talaði um groddavinnubrögð í þeim efnum. Þetta skýrði hæstv. fjmrh. þannig m.a. að sú hagstjórn, groddahagstjórn Sjálfstfl., hefði byggst á stórum gengisfellingum. Nú er það svo að gengið hefur verið býsna stöðugt þann tíma sem við sjálfstæðismenn höfum setið í ríkisstjórn á þessum áratug. Á sl. ári var gengið fellt í febrúarmánuði um 4% og í maímánuði um 10%, eða um 14% meðan við áttum aðild að ríkisstjórn. Það var hins vegar svo tillaga Sjálfstfl. í fyrrahaust að breyta genginu enn þá um 6--10%. Þetta er nú það sem fyrir liggur um þessi efni. En á þessu ári er núv. ríkisstjórn búin að breyta genginu um 20--25%. Ég fékk þessar upplýsingar hér áðan hjá hæstv. viðskrh. Það gerir hins vegar gæfumuninn í þessum efnum á okkar ákvörðunum og ríkisstjórnarinnar að við lögðum til að genginu yrði breytt í fyrrahaust þannig að framleiðsluvörur okkar sem aflað var í fyrravetur gætu notið þeirra verðlagsbreytinga. En stærsti hluturinn í þessum efnum af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar varð ekki fyrr en vertíð var lokið þannig að að því leyti hefði verið hægt að ná sama eða betri árangri með þeirri aðferð og með þeim tillögum sem Sjálfstfl. lagði fram í fyrrahaust heldur en þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið síðan.
    Hæstv. fjmrh. talaði líka um trausta fjármálastjórn og þá sérstaklega að sjálfsögðu frá því að hann tók við lyklinum að ríkissjóði. Þessi sami hæstv. ráðherra hefur lagt á skatta sem koma til innheimtu á þessu ári upp á 7,2 milljarða kr. Og hann skilar ríkissjóði með halla upp á 5 milljarða kr. Þetta er það sem hæstv. fjmrh. talar um sem trausta fjármálastjórn. Hæstv. fjmrh. talaði enn fremur um það hvað ríkisútgjöld hefðu hækkað mikið á sl. árum og taldi þar fyrst og fremst sök liggja hjá Sjálfstfl. Það er út af fyrir sig hárrétt að ríkisútgjöld hafa hækkað á sl. árum og það mjög verulega. Við höfum verið að breyta þjóðfélagsmyndinni hér á Íslandi, það er hárrétt. Við höfum lagt á það vaxandi áherslu að auka menntun og færa hana út um landið. Við höfum lagt á það áherslu að öldruðum væri búið betra lífsviðurværi á ævikvöldinu. Og við höfum lagt á það áherslu að

heilbrigðisþjónusta færi batnandi í landinu.
    Það liggur fyrir að til þjónustustarfa, m.a. þeirra sem ég hef talið hér upp, voru á sex ára tímabili kallaðir til verka rúmlega 8000 manns fram yfir það sem áður hafði verið. Nú liggur fyrir að kostnaður við hvert ársverk er í kringum 1,7 millj. kr. þannig að breytingar í þjónustu á sl. árum, sem Sjálfstfl. á að sjálfsögðu mikinn þátt í, kosta einar út af fyrir sig í vinnulaunum og nauðsynlegum aðbúnaði á ársgrundvelli í kringum 13 milljarða kr. Það út af fyrir sig er rétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að ef ríkisútgjöldin hefðu ekki hækkað, m.a. af þessum ástæðum, þá væri auðveldara að fást við rekstur á ríkissjóði en nú er. En það er vissulega stefna Sjálfstfl. að Íslendingar geti búið við líkar aðstæður að þessu leyti og gerist hér í nálægum löndum sem eru skyldust okkur og eiga mesta samleið með okkur, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. En þetta er það sem hæstv. fjmrh. átelur og kallar hér þessu smekklega orði, groddahagstjórn.
    Nú er það vissulega svo, eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu, að fjvn. hefur ekki enn þá farið yfir hina einstöku þætti fjárlagafrv. og þar af leiðandi standa ekki efni til þess að ræða þá í einstökum atriðum. Það er hins vegar vert að minna í nokkru efni á stjórnmálin sem í þeim felast og þá sérstaklega því sem Alþb. ber ábyrgð á, pólitíkinni í fjárlagafrv., og þá ætla ég einungis að hafa þar auga á byggðamálunum. Það er Alþb. sem stjórnar þeim málaflokkum núna og það var Alþb. sem boðaði það að það ætti að sækja valdið suður og fá það í hendur alþýðubandalagsmönnum sem hefðu góðan skilning á högum landsbyggðarinnar og kjörum fólksins sem þar býr.
    Þetta frv. gengur út frá lægri fjárveitingum til framkvæmda en áður eru dæmi um í fjárlagafrv. Það á sér að vísu þá skýringu að hluti af framkvæmdum sem ríkisvaldið annaðist áður fellur nú í hlut sveitarfélaganna, en það nægir þó engan veginn. Og það er mikið áhyggjuefni hvað framkvæmdir ganga mikið niður á grundvelli fjárlagafrv. og nema nú einungis um 8% af því sem í ríkissjóð kann að renna á næsta ári. Og langsamlega stærsti hluti þessa fjármagns er til vegagerðar þannig að þegar búið er að taka þær fjárveitingar út úr, þá er
heldur lítið eftir til skiptanna.
    Það er líka vert að undirstrika það alveg sérstaklega, eins og kom hér raunar fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar, að þrátt fyrir allar stóru yfirlýsingar samgrh. og fleiri heiðursmanna úr þeim hópi á sl. vetri, um að vegáætlun ætti að standa, þá liggur nú fyrir að hana á að skerða um liðlega 1 milljarð á næsta ári. En allt eru þetta smámunir hjá því sem snýr að landbúnaðinum og bændum landsins.
    Ég hygg að þetta frv. eigi engan sinn líka í þeim efnum hverjar eru aðfarirnar að fólkinu sem byggir hinar dreifðu íslensku sveitabyggðir. Það er meira að segja svo að þegar fyrrv. fjmrh. og formaður Alþfl. lagði fram sitt fjárlagafrv. árið 1987, þá var það mun betra en hjá núv. hæstv. fjmrh. Það hefði verið alveg

hátíð fyrir bændur landsins að búa við það fjárlagafrv. miðað við það sem boðið er upp á núna. Þetta er þeim mun athyglisverðara sem það liggur fyrir hver afstaða Alþb. hefur verið á undanförnum árum til landbúnaðar og fólksins í sveitum landsins og ég hef nú farið á síðustu dögum yfir þá umræðu. Það eru margar tilvitnanir um þau efni skráðar í þingtíðindunum. En hér ætla ég rétt sem dæmi um þetta að fara yfir ofurlitla klausu eftir hæstv. núv. landbrh. sem hann viðhafði hér þann 18. febr. árið 1986 í umræðu utan dagskrár um landbúnaðarmál. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta: ( Gripið fram í: Áður en hann kom til vits og ára.)
    ,,Næg eru nú vandræði íslenskra bænda fyrir þó ekki bætist þessi vinnubrögð hæstv. landbrh. við. Argvítug stefna þessarar ríkisstjórnar, m.a. í vaxtamálum, verðlags- og kaupgjaldsmálum, bitnar sennilega á fáum þyngra í landinu en íslenskum bændum.`` Síðan bætist þetta við: ,,Það er alveg augljóst að hæstv. ráðherra er vægast sagt illa ríðandi í þessari smölun, eins og sagt er um smalamenn sem lítið gengur undan. Mér er nær að halda að hann sé einnig hundlaus, jafnvel gangandi og þá sennilega berfættur í skónum.``
    Maður gæti nú haldið að þegar Alþb. heldur í báða enda á spottunum gengi nú eitthvað undan, það væri ekki eins og þar væri berfættur smalamaður á ferð. Og önnur stóryrði ámóta hafa menn látið falla í þessum efnum.
    Það er nærtækt að minna á það hér við þessa umræðu að á sl. vetri fór fram mikil umræða og vönduð vinnubrögð hér í þinginu um endurskoðun á jarðræktar- og búfjárræktarlögum og henni lyktaði með því að allir alþm. sem greiddu atkvæði studdu þá niðurstöðu sem þá varð. Þetta var gert að undangenginni mikilli umræðu hér í þinginu og það er ástæða til í þessum efnum að vitna til yfirlýsingar sem formaður fjvn. gaf við 3. umr. í nafni ríkisstjórnarinnar um það hvernig með þessi mál skyldi farið.
    Það er líka mikilvægt að fara yfir það hvað fyrirsvarsmaður Framsfl. í fjvn., hv. þm. Alexander Stefánsson, hafði um þessi mál að segja, m.a. við afgreiðslu lánsfjárlaga. Þar undirstrikaði hann alveg sérstaklega að með uppgjörsmál ætti að fara eins og yfirlýsingin hafði verið gefin við gerð fjárlaga. Hér ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það sem málsvari Framsfl. í þessari umræðu hafði um þessi mál að segja:
    ,,Ég legg þann skilning í þessa brtt. og yfirlýsingu hæstv. landbrh. að staðið verði við fullnaðargreiðslu til bænda 1988 í samræmi við gildandi lög.`` Þarna er tiltekið ártalið ,,1988 í samræmi við gildandi lög``.
    Meira er að sjálfsögðu skráð hér í þingtíðindunum eftir þessum hv. þm. sem allt er á þann veg að uppgjör við bændur á grundvelli búfjárræktar- og jarðræktarlaganna verði innt af hendi á þessu ári. Og það er hvergi að finna eina einustu setningu, ekki af hendi formanns fjvn., ekki af hendi varaformanns fjvn., ekki af hendi landbrh. og allra síst af hendi

fjmrh. sem sýnir eða segir annað en að þetta uppgjör eigi að vera með þeim hætti sem ég hef nú vitnað til.
    Þær eru líka býsna athyglisverðar yfirlýsingar hæstv. landbrh. sem hann gaf í umræðum um jarðræktar- og búfjárræktarlögin. Hér segir hann m.a. þann 10. maí sl. í umræðunni um jarðræktarlögin:
    ,,Það er einlæg von mín og ég vil að sá skilningur komi fram að með þeim hætti takist að tryggja betur en tekist hefur að undanförnu að fjárveitingar á hverju ári verði nægilegar til að standa straum af framkvæmdum að fullu skv. ákvæðum gildandi laga. Það held ég að sé sameiginlegt áhugamál þeirra sem að þessum verkefnum koma að svo verði í framtíðinni.``
    Og hann viðhafði reyndar margar aðrar áherslur sem allar hnigu í þessa átt. En hvað er svo það sem gerist? Hvað er það svo sem gerist, þegar ríkisstjórnin, þegar fjmrh. fer að framkvæma þau lög sem ríkisstjórnin setur á sl. vetri? Það er einföld frásögn þar um að allt það sem máli skiptir er svikið. Það liggur nú fyrir að vangoldnar greiðslur vegna þessara tvennra laga nema 211 millj. kr. Landbrh. lét orð að því liggja að einhver hluti þessa yrði greiddur við afgreiðslu aukafjárlaga ef af verður. Vera má að svo sé. En hér liggja nú hins vegar fyrir býsna skilmerkar ákvarðanir. Þar sem fjallað er um skerðingu á framlögum til sjóða og fyrirtækja er frá því greint í fjárlagafrv. að eigi skuli greiðslur til jarðræktar- og búfjárræktarlaga nema nema 110 millj. kr. Og nú mega menn ekki gleyma því að það var sérstakt áhugamál
landbrh., ég held hér um bil það eina sem hann beitti sér fyrir við þessa lagagerð á sl. vetri, að greiða jarðræktarframkvæmdir sama ár og þær væru unnar á. Þess vegna þarf á fjárlögum að vera bæði greiðsla fyrir því sem var unnið í ár og líka því sem samþykkt verður að vinna á næsta ári. Í skýringum í fjárlagafrv. er þess getið að þessar 110 millj. eigi að nægja til greiðslu á skuldum, þær eigi að nægja fyrir þeim framkvæmdum sem voru unnar á þessu ári og þær eigi að nægja fyrir því sem heimilað verður að vinna fyrir á næsta ári. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að mér finnst það nærri því óskiljanlegt hvað fjárlagafrv. hefur inni að halda í þessum efnum.
    En það er víðar sem tölum skakkar í fjárlagafrv. Það var t.d. ákaflega eftirtektarvert við þá umræðu sem fram fór hér á dögunum um stefnuræðu hæstv. forsrh. að nálega allir þeir sem tóku þar til máls af hendi ríkisstjórnarliðsins höfðu um það mörg orð að við skattkerfisbreytinguna ættu matvörur að lækka í verði. Og fjmrh. gerði sér lítið fyrir í ræðu sinni hér áðan að endurtaka þetta. Það segir líka í athugasemdum við fjárlagafrv. að svona skuli þetta nú vera. En það segir ýmislegt fleira þar og m.a. hvað eigi að verja miklu fjármagni til að ná þessum árangri.
    Eins og menn vita gerir fjárlagafrv. ráð fyrir því að niðurgreiðslur séu óbreyttar í krónutölu frá því sem var á þessu ári eða rétt aðeins rúmir 4 milljarðar. Það er líka greint frá því að það eigi að endurgreiða

söluskatt á þessi matvæli að upphæð 1 milljarð kr. Ráðstöfunarfé til þessara greiðslna verður þannig rétt um það bil 5 milljarðar kr. og hækkar um ca. 20% á milli ára. Nú liggur hins vegar fyrir og um það þarf ekkert að deila að verðlag á þessum vörum hefur hækkað um 25% á milli ára þannig að bara með því að halda niðurgreiðslustiginu óbreyttu þyrfti verulega mikið meira fé en hér er til ráðstöfunar. Það sér hver heilvita maður í hendi sinni að á sama tíma og þessir mikilvægu vöruflokkar hækka um 25% er ekki hægt að ná 10% verðlækkun með því að hækka niðurgreiðslurnar um lægri tölu heldur en upphæðinni nemur. Það hefur verið slegið á það, t.d. varðandi kindakjöt með því að það liggur hér fyrir í fjárlagafrv. hvernig þessum niðurgreiðslum verði skipt, miðað við svipaða verðlagsþróun og hefur verið að undanförnu, þá muni verð á dilkakjöti hækka á næsta ári um allt að 10%. Það er því furðulegt, stórfurðulegt að það skuli vera talað um það hér í frv. að það eigi að verða verðlækkun um 10%. Það er eins og hæstv. fjmrh. gefi því ekki neinn gaum hvaða munur er á plús og mínus í þessum efnum. Og það er kátbroslegt til þess að hugsa miðað við allar áherslurnar hjá Borgaraflokknum í umræðunni hér á dögunum og með tilliti til þess að hann skýrir aðild sína að þessari ríkisstjórn með þeim hætti að það eigi að ná vöruverðinu niður, verðinu á matvælunum, þá skuli framsetningin vera með þeim hætti að í staðinn fyrir 10% verðlækkun sé miklu líklegra að það verði 10% verðhækkun á þessum vörutegundum frá því sem verið hefur.
    Mér finnst að lokum sérstök ástæða til að draga hér fram í þessa umræðu tillögur hæstv. fjmrh. um það hvernig skuli ráðstafa fjármagni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á næsta ári. Það var gert sérstakt samkomulag, ef samkomulag skyldi kalla, við Stéttarsamband bænda um verðskerðingu á launalið bænda við verðákvörðun á þessu hausti. Þessi verðskerðing til sauðfjárbænda nemur 62 millj. kr. á árinu en auk þess er skertur framleiðsluréttur þeirra um 60 millj. á næsta ári eða sem því svarar og aðra um álíka upphæð á þarnæsta ári og allt var þetta bundið í reglugerðum og samningum. Þessar breytingar voru gerðar þrátt fyrir að ekki stæðu til þess nein lög. Búvörulögin heimiluðu ekki þessar breytingar og menn gripu til þess ráðs að brjóta lögin til þess að ná þeim fram. En á móti á að koma, eins og segir í fjárlagafrv., að ríkið skuldbindur sig til þess að minnka dilkakjötsbirgðir í landinu um 600 tonn á árinu. Og hvernig skyldi nú það takmark eiga að nást? Það á að nást með því að halda áfram að brjóta lög. Það á að nást með því að taka 200 millj. kr. úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins til þess að greiða þetta magn af kjöti sérstaklega niður.
    Nú hefur því verið haldið fram að þetta væri heimilt og þær skýringar fengum við m.a. þegar um þetta var fjallað í fjvn. og þar voru tilgreind ákvæði 37. gr. búvörulaganna þar sem segir til hvaða aðalverkefna eigi að deila fjármagni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Hins vegar vill nú svo til að það

liggur fyrir algjörlega ótvíræð vitneskja um það að þar sem fjallað er um markaðsöflun í 37. gr. búvörulaganna er átt við markaðsöflun á erlendum markaði. Mér er nú býsna vel kunnugt um þetta því ég átti hlutdeild í því að semja þessi lög og sérstaklega VIII. kafla þessara laga. Það er hins vegar mikilvægt að í grg. fyrir frv. eru tekin af öll tvímæli í þessum efnum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er einnig gert ráð fyrir að fjármagninu verði að hluta varið til markaðsöflunar fyrir búvöru erlendis og að gert verði sérstakt átak í þeim efnum á umræddu tímabili.`` --- Til markaðsöflunar fyrir búvörur erlendis og að gert verði sérstakt átak í þeim efnum á þessu tímabili.
    Ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh. átti sig á því hvað hér er verið að aðhafast og ég trúi því ekki að hann leggi bændur landsins í það einelti að
meira að segja verði þetta þróunarfé tekið til þess að létta niðurgreiðslur á ríkissjóði. Það standa allir samningar til þess og eru ótvíræðir að ríkissjóður sjái fyrir þessari framleiðslu til ársins 1992 og ég legg á það áherslu að birgðir af þessari framleiðslu, kindakjötsframleiðslu, eru með mjög svipuðum hætti, jafnvel heldur minni en var gert ráð fyrir í forsendum búvörusamningsins. Það er satt að segja alveg með eindæmum hvernig landbúnaðurinn er lagður í einelti í þessu fjárlagafrv. og hef ég þó ekki tekið annað en pólitíkina í því. Það eru, fyrir utan það sem ég hef sagt hér, ýmsir þýðingarmiklir framkvæmdaliðir skertir eins og t.d. til landgræðslu og gróðurverndarmála en um það eiga menn eftir að fjalla og það gefst þá tími til að ræða um þau mál frekar. Það er líka alveg augljóst mál að hér er um hreinan ásetning að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar í aðgerðum
gagnvart bændum landsins og það þarf enginn að halda það að Framsfl. beri ekki að sínu leyti ábyrgð á því að hverju er stefnt í þessum efnum. Ég held að næst þegar þeir heiðursmenn halda fegurðarsamkeppni í sjónvarpinu þá ættu þeir að tala með skýrari hætti um afstöðu ríkisstjórnarinnar og þá Framsfl. líka þegar fjallað er um málefni landbúnaðarins. Ég átti satt að segja ekki von á því að skilningsleysið á högum í sveitum landsins, þar sem dregið hefur verið stórlega úr framleiðslu, skuli vera svo algert eins og þetta fjárlagafrv. sýnir. Og mér er satt að segja alveg óskiljanlegt hvaða lympuháttur er í hæstv. landbrh. í þessum efnum. Það verður ekki skýrt á annan hátt heldur en að undirstrika þetta sem stefnu Alþb. og ríkisstjórnarinnar. Það vill líka svo til að þó það beri ekki mikið á því þá er fyrir hendi mikilvæg umsögn um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum og ég ætla að ljúka máli mínu með því að vitna til orða formanns þingflokks Alþfl., Eiðs Guðnasonar, sem hann viðhafði hér á dögunum þegar fram fór umræða um stefnu hæstv. forsrh. Þar segir:
    ,,Að því er varðar breytingar í landbúnaðarstefnu, þá er við gamalt og gikkfast kerfi að eiga en þar þokast þó í áttina þó að hægt fari.``
    Það er augljóst að Alþfl. líst bærilega á hlut hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. og ég hygg nú að formaður

þingflokksins, hv. þm. Eiður Guðnason, hafi bara ekki gert sér nægilega glögga grein fyrir því hvað hratt miðar í þessum efnum, niður á við fyrir bændur landsins og fyrir fólkið sem byggir dreifðar sveitabyggðir vítt um land. Það er vissulega kaldhæðni örlaganna að því nær átthögum hæstv. landbrh. sem þetta fólk á heimili því er hlutur þess gerður verri. Það verður svo að sjálfsögðu tækifæri til þess að fjalla nánar um þessi mál.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, gert sérstaklega að umtalsefni stefnuna í byggðamálunum, stefnu ríkisstjórnarinnar sem fjmrh. ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð á en ríkisstjórnin öll verður að sjálfsögðu kölluð þar til að standa fyrir máli sínu þegar málið kemur hér frekar til umræðu.