Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að það er mikill og almennur áhugi á þessu máli, sem hér er til umræðu, um allt land. Og ég vil taka undir það sem hér var sagt, mannslíf verða vitaskuld aldrei metin til verðs. Þannig að hér verður að standa að verki með það í huga.
    Björgunarþyrlan TF-Sif kom ný til landsins síðla árs 1985 og hefur áhöfn hennar síðan margoft sýnt hvers hún er megnug við sjúkraflug og björgun mannslífa, oft við hinar erfiðustu aðstæður. Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá komu þyrlunnar hafa útköll verið samtals 270 eða tæplega 70 á ári, 2 / 5 hlutar á sjó 3 / 5 á landi. Í 20% tilvika hefur verið hætt við flug vegna þess að ekki hefur verið talin þörf á þyrlu eða skv. ákvörðun læknis. Veður eða aðrar aðstæður hafa leitt til þess að þyrla hefur ekki farið af stað í 10% tilvika. Í þónokkur skipti hafa komð beiðnir frá erlendum skipum utan flugdrægis þyrlunnar sem þyrlur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa sinnt skv. sérstökum samningi þar um.
    Eins og hér hefur komið fram eru fjögur ár liðin síðan TF-Sif var keypt til landsins. Heildarflugtími í ágúst sl. mun hafa verið um 17.000 klukkustundir. Mikið reynir á þessa þyrlu og mikið er í húfi að hún sé alltaf flughæf. Afgreiðslutími nýrrar vélar mun hins vegar vera 1 1 / 2 til 2 ár eins og hér kom fram fyrr í þessum umræðum. Það er því augljóst mál að tímabært er að huga að því með hvaða hætti á að endurnýja og/eða auka flugflota Landhelgisgæslunnar.
    Mér er kunnugt um að forstjóri og aðrir forráðamenn Landhelgisgæslunnar eru og þeirrar skoðunar að stefnumörkun í þessu efni fari að verða aðkallandi. Þess verður því farið á leit við Landhelgisgæsluna að heildarúttekt verði gerð á þessu máli og öllum hliðum þess. Tegundum og tækjakosti, stofn- og rekstrarkostnaði, nýtingarhæfni vélanna og enn fremur að kannaður verði sá möguleiki að hafa björgunarþyrlu á fleiri en einum stað á landinu, þannig að þessi heildarúttekt legði sem gleggstan grunn að raunhæfri stefnumörkun í þessu efni svo fljótt sem kostur er.