Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Frestur er á illu bestur gæti verið yfirskriftin á ræðu þeirri sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan. Hann tíundaði þau vandræði sem yrðu hjá endurskoðendum og öðrum slíkum og þeim þúsundum eða tugum þúsunda manna sem bættust við að telja fram slíkan neysluskatt sem virðisaukaskattur er í stað söluskatts og sagði að mikil vandræði mundu af því skapast. Hann bætti ekki við, sem var aðalatriðið í hans huga að sjálfsögðu, að það eru sveitarstjórnarkosningar fram undan einmitt á þeim tíma þegar þessi vandræði öll ganga yfir þjóðina í viðbót við alla skattáþjánina sem hingað til hefur verið á lögð og er verið að leggja á hvern einasta dag.
    Það er líka rétt sem hann sagði, hæstv. ráðherra, að það er samkomulag nokkurn veginn um það að leggja á virðisaukaskatt. Við verðum sjálfsagt að gera það til þess að vera með sama skattkerfi og nágrannaþjóðirnar, Evrópuþjóðirnar. En hver var prósenta virðisaukans sem ákveðin var einmitt af honum og sjálfstæðismönnum? 22%. Og síðan flutti Sjálfstfl. á sl. ári um það tillögu að skatturinn á allar matvörur yrði 10% og ekki hærri. Þetta er stefna Sjálfstfl. í þessum málum. Hvað gerðist þegar Sjálfstfl. flutti þessa tillögu inn á ríkisstjórnarfund hjá ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar? Stjórnin var rofin í sjónvarpsþætti af hæstv. utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. Skattpíningin skyldi sko ganga áfram. Og nú á að leggja 26% að ég held á allar vörur og alla þjónustu og það vita allir að þetta býður óðaverðbólgu heim, þetta býður heim kaosi. Ég held að ríkisstjórnin ætti að átta sig á því að nóg er nú komið af byrðum á fólkið í landinu þó að þessu sé ekki dengt yfir óundirbúnu og þar sem allt er í upplausn og skelfingu.
    Menn minnast þess kannski þegar myntkerfisbreyting var tekin hér upp, að ein króna var tekin í staðinn fyrir 100, í svipuðu ástandi, flokkaupplausn og óstjórn í landinu. Auðvitað var þetta allt saman verðbólguvaldandi og endaði með því að sú ríkisstjórn, sem þessi er nú að feta í fótsporin á, hrökklaðist frá eftir stutta og alla vega vansæla, held ég, og vansæmandi stjórnarstefnu með 130% verðbólgu. Þessi ríkisstjórn stefnir í það, en hæstv. utanrrh. er vanur maður. Við erum vanir menn, sagði hann einhvern tímann. Og hann veit hvað þetta kostar. Hann veit að Alþfl. á eftir að bíða afhroð í sveitarstjórnarkosningunum. Þess vegna gerir hann þessa kröfu og ég vona að honum verði að ósk sinni og Alþfl. Og Sjálfstfl. styður það að þessu verði frestað því að frestur er á illu bestur.