Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Sjálfstæðismenn tala hér um kaos og glundroða. Það getur vel verið að hann sé til staðar en mér heyrist á öllu að hann sé fyrst og fremst í þeirra liði. Þar virðist ástandið vera þannig.
    En ég ætla aðeins að nefna hér eitt af hinum pólitísku ágreiningsmálum, þeim málum sem eftir er að leysa, þ.e. varðandi eitt eða tvö skattþrep. Það hefur margt breyst frá því að lögin um virðisaukaskatt voru samþykkt árið 1988. Menn hafa gengið í gegnum umræðuna um matarskattinn og ég er sannfærður um að allt hið pólitíska bakland núverandi ríkisstjórnar styður það heils hugar að þarna verði gerð á breyting þegar við þurfum að taka lögin upp núna í vetur og að þrepin verði tvö. Mér finnst öll umræðan benda til þess núna.
    Ég held hins vegar að ef við viljum höfum við nægan tíma til þess að vinna það fyrir áramót. Og það væri ríkisstjórninni til mikils sóma að gera það og standa þá að fullu við gefin fyrirheit um lækkun matarskatts í tengslum við upptöku virðisaukaskattsins nú um áramót. Það er held ég fátt eitt sem þessi ríkisstjórn gæti gert sem væri henni til meiri vegsauka en að geta staðið við þetta á þennan hátt. Ég er margbúinn að fara í gegnum málið og öll rök að baki þess. Eina leiðin til að við getum staðið við þetta loforð um lækkun matarverðs svo að vel sé er með upptöku á tveim þrepum í skattinum. Og ég treysti því að það verði gert.