Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Frv. það sem hér er fjallað um um breytingar á lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum nr. 29/1986 er, eftir því sem komið hefur fram í umfjöllun hér í hv. deild og á nefndarfundum í allshn. deildarinnar, fyrst og fremst flutt til að auðvelda og þá um leið tryggja betri dómsmeðferð á einu sérstöku máli.
    Allir nefndarmenn allshn. skila sameiginlegu áliti þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt með breytingum sem nefndin flytur um tillögur.
    Lög þau sem hér er lagt til að breytt verði með þessu frv. eru með svokallað sólarlagsákvæði, þ.e. þau falla úr gildi innan ákveðins tíma sem er 1. júlí 1992. En það ákvæði var samþykkt um leið og lögin um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði voru samþykkt á síðasta þingi. Fíkniefnadómstóllinn verður þá lagður niður og mál þess dómstóls falla þá inn í hið almenna dómskerfi.
    Spurt hefur verið um það við umfjöllun þessa frv. hvort ekki væri óeðlilegt að breyta lögum um fíkniefnadómstólinn jafnvel út af einu máli. Og hvort ekki væri vafasamt að fara að nú breyta lögum sem þegar væri ákveðið að falla ættu úr gildi eftir 2 1 / 2 ár. Sú spurning hefur þá einnig vaknað hvort ekki mætti fara aðra leið til að auðvelda meðferð þess máls sem er hvati að þessu lagafrv. en þá að breyta lögunum um fíkniefnadómstólinn.
    Bent hefur verið á að skipa mætti sérstakan sakadómara í þetta mál og önnur sem upp kæmu á gildistíma laganna og líkt væri ástatt um til að létta störfum af dómstólnum eins og hann er nú skipaður. Ég tel að sú leið hefði mjög komið til greina. Sú leið hefði líka haft þann kost að sami dómari og kveðið hefur upp gæsluvarðhaldsúrskurði í nefndu máli þyrfti ekki að standa að dómi í málinu.
    Yfirsakadómari, Gunnlaugur Briem, og formaður réttarfarsnefndar, Hrafn Bragason, gerðu okkur í allshn. grein fyrir ákveðnum annmörkum frv. Ráðuneytismenn úr dómsmrn. lögðu aftur á móti áherslu á að erfitt væri og næstum ógerningur að fara aðra leið í þessu máli en þá er í frv. felst.
    Lagt er til með þeim brtt. allshn. sem hér eru fluttar að mikilsverðar breytingar verði gerðar á 1. gr. frv. Skv. brtt. þarf samþykki dómsmrn. til kvaðningar meðdómara í dóminn og hver sá sem kvaddur er í dóminn skal vera embættisdómari eins og kom fram í ræðu hv. frsm.
    Herra forseti. Ábendingar Gunnlaugs Briem yfirsakadómara og Hrafns Bragasonar, formanns réttarfarsnefndar, eru fyrir mér fullgildar. Þótt ég viðurkenni útlistingar dómsmrn. á vandamálum líðandi stundar mun ég greiða atkvæði með þessu frv. að samþykktum fyrrnefndum brtt.