Lögheimili
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til umfjöllunar, félmn., og ætla því ekki að fara út í nein sérstök eða einstök efnisatriði frv. nema að örlitlu leyti. Ég lýsi því aðeins yfir að hér er áreiðanlega hið nauðsynlegasta og merkasta mál á ferðinni því, eins og fram kemur í athugasemdum frv., nærri þrír áratugir eru frá setningu gildandi lögheimilislaga og á þessum tíma hafa þjóðfélagshættir tekið miklum breytingum, eins og réttilega er bent hér á, bæði varðandi atvinnuhætti, búsetu og sambýlishætti fólks. Þar af leiðandi hljóta lögheimilislögin að verða að fylgja þróun tímans og til þess þarf að breyta þeim. Ég held að margt gott sé í þessu frv. en hef að sjálfsögðu ekki kynnt mér það svo ítarlega, hverja einstaka grein þess. Hæstv. ráðherra fór hér nákvæmlega út í að lýsa því og það var ekkert sérstakt sem ég hjó eftir sem mér fannst orka tvímælis. Auðvitað vitum við að það eru ýmis atriði, eins og hér kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., sem geta verið viðkvæm hvað varðar lögheimili og búsetu manna. Þá dettur mér í hug 4. gr. Það þekkjum við sem höfum unnið að sveitarstjórnarmálum að það getur verið mikið atriði fyrir fólk að halda sínu lögheimili þar sem átthagarnir hafa verið, þ.e. þar sem menn telja sig vera upprunna, og vilja halda þeim uppruna sínum hvað varðar lögheimili. Þá er það kannski sérstaklega varðandi fólk sem kemur utan af landi og sest að vegna atvinnu sinnar eða annarra ástæðna t.d. hér í höfuðborginni. Þetta hefur alltaf skapað ákveðin vandamál hjá sveitarfélögunum, að reyna að fá þessu breytt. Þetta er mér kunnugt um og sjálfsagt mörgum öðrum. En þarna er um mjög viðkvæm mál að ræða og erfið. Ég er þess vegna ekki búin að sjá hvernig þau mál verða leyst nema kannski að síðasta málsgreinin hér í 4. gr. geti á einhvern hátt leyst þau vandamál í ýmsum tilvikum. Það má vel vera.
    Þetta tengist nokkuð því sem hv. 4. þm. Vesturl. kom einmitt inn á. Það var varðandi skráningu þegar börn fæðast á fæðingardeildum. Ég þekki þetta og man vel eftir að það voru jafnvel til dæmi um það að konur völdu það að fæða heima til þess að þurfa ekki að skrá börnin sín fædd í Reykjavík. Ég tek því undir það með hv. 4. þm. Vesturl. að ég held að þetta sé atriði sem einmitt mætti skoða.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins lýsa stuðningi mínum við meginefni frv. og eins og ég sagði áðan á ég sæti í félmn. og fæ því tækifæri til að fjalla þar efnislega um einstakar greinar þess.