Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hafa nefnt það hér að það blasi við alls konar erfiðleikar í mörgum byggðarlögum. Einstaklingar sem bundnir eða tengdir hafa verið síldarvinnslunni lendi í alls konar vandræðum. Víst er það en stóri vandinn sem blasir við er það stór að annar eins vandi hefur ekki blasað við íslenskum sjávarútvegi í fleiri ár: ef það bregst að samningar náist við Sovétríkin um síldarsölu. Mér finnst þess vegna dálítið undarlegt að heyra það að hæstv. ráðherrar viti ekki um þegar verið er að ganga frá stórsamningum við Sovétríkin. Ég kem þess vegna hingað upp til þess að spyrja mína ráðherra, alþýðubandalagsráðherrana, hvort þeir hafi ekki fylgst með þessum málum, fylgst með stöðu þessa máls, að það blasi við að ekki verði samið við Sovétmenn um síldarsöltun á þessu ári? Það er kominn 20. nóv. og engir samningar enn. Formaður Sjómannafélags Reykjavíkur hefur lýst því í blaðaviðtali að þeir samningar sem núna eru gerðir, ef þeir ná fram sem menn efast nú um enn, verði sjálfsagt síðustu samningar sem gerðir verði við Sovétríkin á svipuðum grunni og þessir samningar. Er ekki farið að fjalla um þessa stöðu í ríkisstjórninni? Eru ekki ráðherrar, fleiri en sjútvrh. og viðskrh., að skoða þetta stóra vandamál sem við okkur blasir? Ég held og veit að þetta mál er það stórt að það hlýtur að vera og ég vona að ég fái það svar frá mínum ráðherra að þetta sé málefni sem sé verið að fjalla um og hafi verið fjallað um innan íslenskrar ríkisstjórnar. ( Menntmrh.: Svarið er já.) Það þarf kannski ekki meira, ráðherra þarf kannski ekki að segja meira en aðeins já um þetta mál. Ég held að ég vilji heyra svolítið meira frá mínum alþýðubandalagsráðherra um þetta mál en aðeins eitt já.