Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Þetta frv. er einfalt í sniðum. Efni þess er í stuttu máli það að veita auknar lánsheimildir til ríkissjóðs annars vegar og hins vegar til tveggja sjóða sem lána atvinnuvegunum, Atvinnutryggingarsjóðs og Byggðasjóðs. Sumpart er þessi aukna lánsfjárþörf komin til vegna þess að verulegur greiðsluhalli verður á ríkissjóði á þessu ári þvert ofan í það sem hæstv. fjmrh. sagði um leið og fjárlög voru afgreidd og þvert ofan í þau stóru orð sem stjórnarliðar á þeim tíma létu falla. Það sýnir glögglega óvissuna í því hversu mikill greiðsluhallinn verður nú um áramót hjá ríkissjóði að frá því að frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár var lagt fram þar til þetta frv. var lagt fram liðu nokkrir dagar, örfáir dagar sem liðu þar á milli, en á því tímabili hefur verið gert ráð fyrir því að ríkissjóðshallinn aukist um litlar 100 millj. kr. eða sennilega um 20 millj. á dag þennan tíma sem leið á milli þess sem þessi frumvörp voru lögð fram. Ég veit ekki hvort formaður fjh.- og viðskn. getur hjálpað minni hl. að reikna út hversu mikið það verður þá fram að áramótum ef reikna má með að hallinn haldi áfram að vaxa jafnmikið að meðaltali þennan tíma sem eftir lifir ársins og milli þess sem þessi tvö frumvörp voru lögð fram.
    Við sjálfstæðismenn erum ekki getspakir í þessum efnum og treystum okkur auðvitað ekki til þess að ætla á um það hversu mikill ríkissjóðshallinn verður í árslok og tökum enga ábyrgð á því að hér sé um réttar tölur að ræða, enda hafa engar upplýsingar verið lagðar fram í fjh.- og viðskn. sem staðfesta að þær tölur sem hér liggja fyrir séu á rökum reistar nema síður sé.
    Þá er það eftirtektarvert að hér er gert ráð fyrir því að endurlána Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina allt að 900 millj. kr. á þessu ári og það var tekið fram af hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins að Atvinnutryggingarsjóður mundi fá þessa peninga í hendur nú á þessu ári. Þó liggur fyrir að fjárþörf Atvinnutryggingarsjóðs er engan veginn svo mikil það sem eftir lifir ársins. Það er talað um að skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs nemi svo sem helming þessarar upphæðar og kom engin skýring fram á því í nefndinni hvernig á því stendur að nauðsynlegt sé að taka ca. hálfan milljarð kr. að láni erlendis á þessu ári vegna Atvinnutryggingarsjóðs þegar lánin koma ekki til útborgunar til hinna ýmsu fyrirtækja fyrr en á næsta ári.
    Á hinn bóginn vekur það athygli að ríkisstjórninni er kunnugt um að þörf er veruleg fyrir auknar lánsheimildir til Byggðasjóðs. Stjórn Byggðasjóðs mat þörfina svo að nýjar lánsheimildir þyrfti að hálfum milljarði kr. Hér er einungis gert ráð fyrir því að mæta þessum þörfum með því að veita 350 millj. kr. lánsheimild til viðbótar og var það skýrt fyrir nefndarmönnum svo af fulltrúa Hagsýslustofnunar að stjórn Byggðastofnunar hefði verið of örlát við trillusjómenn. Ríkisstjórnin hefði einungis ætlast til

þess að 100 millj. kr. yrði varið til þess að mæta þeim rekstrarerfiðleikum sem trillusjómenn standa nú frammi fyrir. Skv. þeim reglum sem Byggðasjóður vinnur eftir nemur hámark lána til trillubáta 2 millj. kr. og geta farið allt niður í 500--600 millj. kr. Það kom óbeint fram í nefndinni að meiri hlutinn væri eiginlega þeirrar skoðunar að það hefði verið nóg að lána trillukörlunum að hámarki 800 þús. eða svo og þá bara sumum, kannski bara tveimur af hverjum fimm eða eitthvað svoleiðis. Og þeir sem minnst bæru úr býtum fengju kannski svona 200--300 þús. kr. til að bæta fjárhaginn vegna trillukaupa á sl. árum (Gripið fram í.) og vegna þeirra miklu erfiðleika sem þessi útgerð stendur nú frammi fyrir. Ég veit að hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson mun útskýra það hér á eftir hvernig á því stendur að hann telur nóg að Byggðasjóður veitir 100 millj. kr. til þessa sérstaka verkefnis. Það er sérstaklega tekið fram hér í greinargerð eða athugasemdum með frv. að á þeim tíma sem frv. var lagt fram gat ríkisstjórnin hugsað sér að heimila 100 millj. kr. lántöku til viðbótar vegna smábátanna en fulltrúi fjmrh. sem mætti á fundum nefndarinnar gaf okkur þá skýringu að ekki væri hægt að verða við beiðni Byggðastofnunar um 500 millj. kr. lánsheimild þar sem það hefði átt að duga að lána 100 millj. til smábátanna. Þó vitum við náttúrlega vel að margir í einmitt þessari atvinnugrein eiga við mikla erfiðleika að etja og má segja að það sé smátt skorið. Á sama tíma og ónýtt hús er keypt af samvinnuhreyfingunni fyrir norðan upp á 60 millj., þá skulu þeir sjá eftir því að trillubátaeigendur fái þetta lítilræði og ríkisstjórnin dregur í rauninni dár að þessari atvinnustétt með þeim rökstuðningi sem hún hefur flutt um það að verða ekki að fullu við beiðni Byggðastofnunar í þessum efnum.
    Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Hin aukna lánsheimild til Atvinnutryggingarsjóðs staðfestir auðvitað að atvinnuvegirnir hafa verið reknir með verulegum halla síðan þessi ríkisstjórn settist að völdum í septembermánuði á sl. ári. Og er það að verulegu leyti afleiðing af þeirri stefnu sem Alþfl. hafði í síðustu ríkisstjórn og tókst með neitunarvaldi sínu gagnvart Seðlabankankanum, af því að viðskrh. var úr
Alþfl., að halda niðri gengisskráningunni á þessum tíma og draga við sig leiðréttingu á gengi allt sumarið 1988. Það er hins vegar spaugilegt að hæstv. viðskrh. skuli vera að hrósa sér af því annað slagið síðan hversu mikið gengið hafi lækkað frá ársbyrjun 1988 og veit hann þó að bróðurparturinn af þeirri gengislækkun eða leiðréttingu á gengi sem þar kemur fram var knúinn fram af Sjálfstfl. Honum þykir gott að reyna að draga pínulítið af því til sín, að hann hafi átt einhvern þátt í því að leiðrétta gengið á þeim tíma.
    Ég vil rifja upp að það kom fram hjá fjh.- og viðskn. á sl. vori frá forstjóra Atvinnutryggingarsjóðs að hallarekstur fyrirtækja í útflutningsgreinum hefði verið mun meiri síðasta ársfjórðung sl. árs en menn höfðu gert sér grein fyrir sem auðvitað skýrir að Atvinnutryggingarsjóður skuli nú þurfa á 900 millj.

kr. lánsfjárheimild að halda til viðbótar því sem áður var.
    Herra forseti. Það veldur okkur í stjórnarandstöðu svo auðvitað erfiðleikum að fjalla um málefni sjóða eins og Atvinnutryggingarsjóðs og hlutabréfasjóðs þegar ekki liggja fyrir upplýsingar frá ríkisstjórninni um það hvernig hún hugsi sér framtíð þessara sjóða, að forsrh. skuli segja eitt um þau efni en annað standi í greinargerðum eða kemur fram í máli annarra manna. Það var svo aðeins eitt lítið, smáspaugilegt atvik sem kom fyrir á fundi nefndarinnar. Það upplýstist þar að Byggðastofnun hafði fengið bréf um að þessi lántökuheimild, 350 millj., ætti að vera í höndum Byggðastofnunar. Hins vegar kom sendisveinn ofan úr Stjórnarráði með uppkast að brtt. öðruvísi, þannig að lántakan ætti að fara í gegnum ríkissjóð. Það upplýstist svo smátt og smátt hvernig á þessu stæði og kom m.a. fram að forsrn. hafði sent fjh.- og viðskn. bréf um þessa tillögu sína um lánsheimild fyrir Byggðasjóð sem var ógreinilega orðuð og ekki með sama hætti og samþykkt ríkisstjórnarinnar og bréf um þessa samþykkt var orðað t.d. til Byggðastofnunar og ég hygg til Seðlabankans. Ég held að fleiri þm. en ég láti í ljósi undrun yfir því hversu ónákvæm skilaboð stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar láta sér duga í samskiptum sínum við þingið og í samskiptum sínum við stjórnarandstöðuna. Og er það auðvitað ekki annað en enn eitt dæmið um þá lítilsvirðingu sem þessir ráðherrar og þessi ríkisstjórn hafa sýnt Alþingi og stjórnarandstöðunni síðan ríkisstjórnin settist að völdum, kemur í rauninni ekki á óvart.
    Ég vil aðeins segja það að síðustu, herra forseti, að ég er þakklátur hæstv. viðskrh. fyrir að vera viðstaddur umræðuna. Þegar frv. til l. um breytingu á lánsfjárlögum var til umræðu fyrir árið í ár og rætt var um ráðstafanir vegna kjarasamninganna í vor kom til orðaskipta milli mín og hæstv. viðskrh. um það hvort hann mundi beita sér fyrir því og standa við samþykkt ríkisstjórnarinnar um að lántökugjald yrði endurgreitt af þeim lánum sem tekin hefðu verið vegna endurbóta og viðgerða á skipum þegar verkið hafði verið unnið hér á landi. Ég væri þakklátur hæstv. viðskrh. ef hann vildi gefa skýringu á því nú við þessa umræðu hvort ríkisstjórnin hafi staðið við það loforð sem hér var gefið í þingsalnum af hæstv. viðskrh. á sl. vori og ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að spyrja hann um það, hvort hann sé samþykkur því frv. sem ég hef lagt fram hér í deildinni um að þau lántökugjöld, sem greidd hafa verið af lánum sem tekin hafa verið vegna smíði á fiskiskipum hér á landi, verði endurgreidd úr ríkissjóði. Ég mun sitja hjá við þetta mál.