Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég beindi litlum fyrirspurnum til hæstv. viðskrh. og hélt að hann gæti kannski reynt að skýra hvernig hann hefði staðið við fyrirheit frá því í vor. Nú sér viðskrh. ekki ástæðu til þess að vera áfram við umræðurnar og má kannski segja að það sé eðlilegt vegna þess að hann fór rangt með hér áðan, sagði ósatt. Staðreyndin er sú að hann lýsti því yfir hér í þessari deild á sl. vori að þeir aðilar sem hefðu tekið lán vegna meiri háttar endurbóta eða viðgerða á fiskiskipum hér á landi ættu að fá lántökugjaldið endurgreitt. Hann gekk meira að segja svo langt að segja að stjórn Byggðastofnunar hefði brugðist sinni embættisskyldu með því að innheimta þetta lántökugjald af þeim útgerðarmönnum sem hefðu fengið fyrirgreiðslu frá Byggðasjóði á fyrstu mánuðum þessa árs. Svo kom hann hér áðan upp í stólinn og talaði um að hann hefði engin loforð gefið, talaði um að hann væri að vinna að málinu. Og það sem er kannski eftirtektarverðast af öllu er að á sama tíma og við blasir verulegt atvinnuleysi um allt land þar sem skipasmíðastöðvar eru fæst hann ekki einu sinni til þess að taka undir nauðsyn þess að lántökugjald af því sérstaka fé sem tekið hefur verið vegna smíða á fiskiskipum hér á landi skuli endurgreitt á sama tíma og skipasmíðar í löndum Efnahagsbandalagsins eru greiddar niður um 26 og upp í 36% að hans sögn við umræður í Sþ. nú á dögunum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að inna hæstv. sjútvrh. svara við þessum spurningum. Ég veit auðvitað að hæstv. sjútvrh. er mér sammála um að ekki eigi að leggja þetta lántökugjald á útgerðina vegna þeirrar sanngirni sem hann hefur sýnt skipasmíðaiðnaðinum og ég efast ekki um að hann muni leggjast á sveif með stjórnarandstöðunni og Sjálfstfl. að knýja fram þau úrslit í málinu að þetta lántökugjald verði endurgreitt og að staðið verði við þá samþykkt sem gerð var í ríkisstjórninni í aprílmánuði, ef ég man rétt, um að ekki skuli greitt lántökugjald af þeim fjármunum sem aflað er erlendis til þeirra verkefna sem ég hef nú gert grein fyrir.
    Ég veit ekki hvort það er nokkur ástæða til að óska eftir því að fá að ljúka ræðunni þegar viðskrh. er við. Ég held að hann mundi tala svona bara einhvern veginn út og suður áfram og ég held að manni mundi ekki takast að fá neitt skýrar frá honum um þessi mál. Það hefur vakið athygli fleiri en mín að ráðherra skipasmíða skuli ekki sýna minnsta áhuga á því að þessi iðngrein geti notið rétt bærilegra starfsskilyrða. Af ummælum hans hér áðan mátti vel greina að honum þykir ekki nóg að skipasmíðaiðnaðurinn skuli greiddur niður um 26% í löndum Evrópubandalagsins heldur er hann enn að tvínóna við það hvort rétt sé eða rangt að láta þennan iðnað borga sérstakan lántökuskatt sem á fyrri hluta þessa árs var 6% ofan á stimpilgjald sem ríkið hefur meiri tekjur af á þessu ári en af öllum tekjuskatti á atvinnurekstri í landinu, ofan á sérstakt lántökugjald til

ríkissjóðs, þar fyrir ofan vegna ríkisábyrgðarinnar og þannig mætti lengi telja. Ég geri ráð fyrir því að þetta mál verði tekið aftur upp síðar. Það verður tekið upp aftur í fjh.- og viðskn. eins og ég hef óskað eftir og er auðvitað óþolandi að ríkisstjórn skuli ekki standa við yfirlýsingar sínar sem hún hefur gefið í þessum efnum fremur en öðrum.