Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. um frv. til l. um skráningu og meðferð persónulegra upplýsinga. Hér er um að ræða endurskoðun á gildandi lögum sem sett voru hér fyrst á Alþingi árið 1980. Sú saga er rakin nokkuð í grg. fyrir frv. en þar hefur slæðst inn sú meinlega prentvilla að talað er um að allshn. Nd. Alþingis hafi þá flutt 57 brtt. við frv. og umsamið það í raun. Þar var hins vegar um að ræða allshn. þessarar hv. deildar og formaður hennar og framsögumaður var þá Eiður Guðnason.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er endurskoðun, eins og ég sagði, á gildandi lögum og að mestu leyti eða í aðalatriðum samhljóða þeim. Þær breytingar, sem gerðar eru, eru fyrst og fremst til þess að herða á þeim framkvæmdaatriðum sem komið hefur í ljós að æskilegt sé að nánari ákvæði séu um.
    Nefndin fór ítarlega yfir þetta frv., fékk til viðræðna við nefndina þá Þorgeir Örlygsson prófessor og Tryggva Gunnarsson lögfræðing, sem önnuðust endurskoðun laganna fyrir hönd dómsmrn., og enn fremur forstöðumann Félagsvísindastofnunar Háskólans, Stefán Ólafsson dósent, sem kom með ábendingar, sérstaklega um þann kafla frv. sem fjallar um skoðanakannanir. Var að nokkru gengið til móts við þær ábendingar sem hann setti fram.
    Á þskj. 180 eru nokkrar brtt. frá allshn. og vil ég í stuttu máli gera grein fyrir þeim.
    Í fyrsta lagi er að í 5. gr. frv. komi fjögur ár í staðinn fyrir fimm sem er sá aldur upplýsinga sem heimilt er að skýra frá, um ávirðingu manna í þeim skrám sem þar er rætt um. Fyrningartíminn skuli vera fjögur ár í staðinn fyrir fimm. Í nágrannalöndum okkar er þetta breytilegt. Í Noregi hefur þessi tími verið styttur í þrjú ár, en í Danmörku er hann enn fimm.
    Þá er við 9. gr. frv. brtt. um að í stað orðanna ,,efni upplýsinganna`` komi: ,,því sem þar er skráð``, þannig að það sé greinilegt að ætlast sé til þess að menn viti nákvæmlega hvað um þá er skráð í þessum skrám.
    Í 12. gr. er brtt. um að í stað fjögurra vikna skuli koma tvær vikur og er það sá frestur sem skrárhaldara er gefinn til að gefa þessar upplýsingar.
    Við 13. gr. er sú brtt. að síðari mgr. falli brott en í henni er dómsmrn. veitt heimild til að ákveða sérstakt gjald sem rennur til þeirra sem veita upplýsingar til einstaklinga um það sem um þá er skráð. Nefndinni finnst óþarfi að vera að setja slíka gjaldtökuheimildir því að ekki mun hafa reynt á það hingað til að menn leiti í svo ríkum mæli eftir slíkum upplýsingum.
    Í 16. gr. er þessi fimm ára frestur sem ég gat um áðan einnig styttur í fjögur ár.
    Í 18. gr. er einnig styttur upplýsingaskyldutíminn úr fjórum vikum niður í tvær eins og í 12. gr.
    Þá er í 19. gr. sú lágmarksupphæð, sem heimilt er að færa inn vegna gjaldfallinna skulda eða skulda við tiltekinn kröfuhafa, færð úr 10 millj. upp í 20 millj.

    Að gerðum þessum breytingum leggur allshn. til að frv. verði samþykkt.